04.02.1971
Neðri deild: 43. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er nú þannig, eins og við vitum, að það er erfitt að fá breytingar á frv. eða koma neinu fram viðvíkjandi þeim, nema það sé samþ. í nefndum og náist nokkurn veginn meiri hl. í n. og jafnvel samstaða. Ef mann langar þess vegna til að benda á einhver atriði, þá verður að taka það fram strax við 1. umr.

Ég hygg, að í þessu frv. sé ýmislegt, sem orkar tvímælis. Vitanlega er okkur öllum ljóst, að það ástand, sem er í kennaraskólanum nú, getur ekki gengið til lengdar. Hæstv. menntmrh. talaði hér vel að vanda í gær og lýsti þessu vafalaust alveg réttilega. Hann taldi, að það væru tvö atriði, sem hefðu valdið þessari miklu aðsókn. Það væri það, að það hefði ekki verið krafizt landsprófs við inntöku í skólann, heldur hefðu gagnfræðingar einnig fengið að fara í skólann, og í öðru lagi, að skólanum var leyft að útskrifa stúdenta. Þetta efast ég ekki um, að sé rétt. En í sambandi við það datt mér í hug, að þetta væri ekki ólikt og hjá bónda, sem hefði hjörð sína í rétt og léti hæfilega margar kindur í allar krærnar nema eina, hefði þar stórar dyr og víðar og léti svo leifarnar af hjörðinni ryðjast inn og jafnvel troðast undir í krónni. Ég segi, ef ég hefði þannig fjárhirði, þá mundi ég finna að þessu við hann og verða vondur. Ég álít, að hæstv. ráðh. hafi þarna lýst hinum illa hirði. Því í ósköpunum er ekki settur hemill á þetta? Hvaða vit er í því að hafa þrefalt fleiri nemendur í þessum skóla en mega vera? Og til hvers er að vera að kenna miklu fleiri kennaraefnum en möguleikar eru á, að hafi vinnu? Þetta er algert skipulagsleysi. Ekki er það til bóta fyrir eina stétt að verða svo fjölmenn, að menn hafi ekki atvinnu. Ekki geta þeir hlaupið til annarra landa og hafið kennslu þar, eins og læknarnir okkar og verkfræðingarnir gera.

Þetta er af stjórnleysi, sem skólinn varð svona fjölmennur. Það er í raun og veru furða, hvað skólastjórinn hefur haldið þetta út í þessari aðstöðu og með þennan fjölda. En hvernig í ósköpunum stendur á, að fólkinu er hleypt svona takmarkalaust inn? Vitanlega var hægt að setja þarna skorður við og láta skólann ekki útskrifa stúdenta. Og vitanlega voru margir gagnfræðingar, sem vildu fara í þennan skóla til þess að geta náð stúdentsprófi, sem ekki höfðu náð landsprófi og ekki fengu að fara í hina menntaskólana. Þarna er skólinn kominn út fyrir það verksvið, sem hann á í raun og veru að sinna. Hann á að ala upp kennaraefni, en ekki stúdenta. Þetta er sjálfskaparvíti. Spurningin er bara, hvort þetta er ekki þannig á fleiri sviðum, hvort það stefnir ekki í sömu átt. Ég veit ekki, hvað prófessorunum hefur fjölgað mikið við háskólann, en deildum og prófessorum hefur fjölgað þar gríðarlega. Ég er ekki að lá kennurunum við kennaraskólann, þó að þeir vilji allt í einu verða prófessorar, dósentar og lektorar. Það er ekki nema mannlegt og eðlilegt. Vafalaust hækka þeir eitthvað í Íaunum við þetta, og svo eru þessar nafnbætur. En ef breytingin er ekki til annars en þess, hefur það ekki hagnýta þýðingu. Mér skilst, að það eigi að verða sömu kennarar. Þeir hafa rétt á að vera þeir sömu. Ég er ekki að gera lítið úr hæfileikum þeirra, en allt í einu eiga þeir að fara að verða prófessorar, dósentar og lektorar o.s.frv. og allt með háskólasniði, þannig að ég er ekki hissa á því, þó að þeir geti mælt með þessu frv.

En er þetta bara ekki að verða þannig á fleiri sviðum? Og liggur það ekki einfaldlega í því, að ungmennunum sé ekki beint inn á réttar brautir? Við höfum fleira með starfskrafta okkar unga fólks að gera en láta það verða stúdenta og kennara. Það þarf fleira að gera í þessu þjóðfélagi. Er ekki lögð of lítil rækt við hagnýta menntun á verklegu sviði, sem snertir iðnað, sjávarútveg og jafnvel landbúnað? Ég held, að stjórnin sé ekki nógu góð á skólamálum okkar og það þurfi að beina unga fólkinu á réttar brautir og hafa skipulag og yfirstjórn á hlutunum, þannig að ungmenni þyrpist ekki í einhverja eina stétt, án þess að þörf sé fyrir það þar. Ég held, að við t.d. stöndum ekki framarlega í fiskiðnaði, og sannleikurinn er sá í iðnaðarmálunum, að þar hefur ekki verið stigið stórt skref, þó að við gengjum í EFTA. Það hefur ekki orðið mikil breyting þar. Þar þurfum við hæfileikamenn ekki síður en til þess að verða lögfræðingar og viðskiptafræðingar. Og er það ekki víðar en að kennaraskólanum, sem straumurinn liggur ekki í réttar áttir? Það er það, sem ég óttast.

Gert er ráð fyrir að breyta skólanum þannig að hafa þriggja ára nám og krefjast stúdentsmenntunar við inntökupróf. Þetta er þá orðið að sjö ára námi eftir landspróf. Nú skilst mér, að eigi að þrengja hringinn. Ef það á að krefjast landsprófs til að fá að fara í menntaskólana, þá hafa gagnfræðingar ekki aðstöðu til þess að ná þessu stúdentsprófi; þeir verða fyrst að ná landsprófinu. Smuga er þarna á því, og skeð getur, að þeir, sem eru í þessum framhaldsgagnfræðaskólum, komist að — mér skilst, að heimilt sé að veita undanþágu. En er þá ekki jafnmikil hætta á, að skólinn offyllist? Er ekki alveg eins hægt að takmarka fjölda nemenda án þess að gera þessar breytingar.

Satt að segja finnst mér dálítið yfirlæti í þessu frv.; ég get ekki neitað því. Þetta á að verða háskóli. Það er verið að tala um háskóla hjá Dönum og annars staðar á Norðurlöndunum. Það er sjálfsagt að athuga löggjöf þeirra. En það er sjálfsagt líka að athuga það í leiðinni, að við erum 25 sinnum færri en Danir, þannig að þó að Danir hafi efni á að hafa kennaraháskóla, þá eru fleiri kennaraskólar í því landi, og við megum ekki miða okkur algerlega við þjóðir, sem eru 20–30 og kannske 1000 sinnum fleiri en við.

Þá er annað. Þessir menn eiga að annast barnakennslu. Þeir eru búnir að læra í marga vetur. Fyrst taka þeir stúdentspróf og eru svo 3 ár í kennaraháskóla. Þetta er orðið 7 ára nám, og áður eru þeir búnir að hafa 3–4 ára nám eftir barnafræðsluna, þannig að þeir eru búnir að læra í 15 ár með barnaskólanámi. Þeir eru búnir að eyða miklum tíma og orku í þetta. Sannleikurinn er sá með þessa skóla, að skólarnir eyða mikilli orku, og það er í sumum tilfellum dálítið vafamál, hvort maðurinn græðir meira á þessari löngu skólaveru, hvort hann vinnur meira við hana en hann tapar á henni. Og ég held, að menn, sem fara í atvinnurekstur, ættu að athuga það að eyða ekki of miklum tíma í að sitja á skólabekkjunum; þeir eyða það mikilli orku í það. Það má deila um þetta. En hitt hygg ég, að sé ekki hægt að deila um, að það er ekki þörf fyrir svona langt skólanám fyrir þá, sem eiga að kenna börnum undir fullnaðarpróf. Þess þarf ekki með, og ég er ekki viss um, að þessi breyting verði til þess, að við fáum hæfileikameiri kennara eftir en áður, því að þegar mennirnir eru búnir að taka stúdentspróf, þá eiga þeir allmargra kosta völ, og ég er ekki viss um, að það verði úrvalið úr stúdentunum, sem fer í kennaraháskóla og eyðir þar þremur árum. Þeir geta farið í aðrar greinar, sem þeim finnast álitlegri, og ég hygg, að menn, sem eru komnir með stúdentspróf og háskólamenntun, verði heldur latir að kenna börnum. Ég hygg því, að það væri ekki óskynsamlegt að gera ekki jafnar kröfur til allra, sem útskrifast úr kennaraskólanum, hvort sem við köllum hann kennaraskóla eða kennaraháskóla og hvort sem kennararnir eru kallaðir venjulegir kennarar eða prófessorar og dósentar. Það er út af fyrir sig ekki nema formsatriði. En ég held, að það væri hægt að komast af með skemmra nám fyrir þá, sem ættu bara að kenna krökkum. Nú er ekki ætlazt til, að þessir kennarar, sem eru útskrifaðir úr kennaraháskólanum, hafi rétt til að kenna nema skyldunámið — ekki undir landspróf. Það er því hætt við því, að gáfumenn, sem eru búnir að taka stúdentspróf, fari ekki í þennan kennaraháskóla, þeir fari aðrar leiðir, og það getur orðið til þess, að ekkert úrval verði af hæfileikamönnum, sem við höfum í þessa kennslu. Unglingafræðslan er ekki það mikil, að það þurfi háskólapróf. Það er helzt enskan, og það er ekki kennt mjög mikið í enskunni. Þessi bóklegu fög geta þeir lært sjálfir, ef þeir nenna því. Og sannleikurinn er sá, að beztu barnakennararnir hafa verið þeir, sem ekki eru langskólagengnir. Það eru þeir, sem helzt hafa nennt að kenna og lagt sig bezt fram við það. Maður, sem er óhneigður fyrir kennslu, verður ekki afburðakennari, þó að hann sitji mörg ár í skóla, og það er ákaflega hætt við því, að löng skólavera kenni mönnum að eyða tímanum til lítils; þeir læri sem sé að slæpast. En það er dugnaður og samvizkusemi, sem mikið veltur á, og gott skaplyndi.

Það, sem á sinn þátt í því, að kennaraskólinn er svo mikið sóttur, er, að það er hagkvæmt starf fyrir giftar konur að kenna einhvern hluta úr deginum. Og ég hygg, að konur séu fullt eins lagnar að kenna ungum börnum eins og karlmenn. Þær skilja börnin fullt eins vel, þannig að þetta er ákaflega hentugt starf fyrir húsmæður og ógiftar stúlkur. Þá er spurningin: Eru þetta ekki óþarflega miklar kröfur, sem gerðar eru til barnakennaranna, þ.e. að heimta fyrst stúdentspróf og svo þriggja ára háskólanám. Og er nokkur trygging fyrir því, að þetta verði betri barnakennarar en þeir, sem sitja skemur í skóla. Ég stórefa það. Ég hef verið að benda á þessi atriði til athugunar fyrir nefndina, ef hún vildi athuga þau.

Hitt er annað mál, að undir landspróf þurfum við að hafa góða kennara í tungumálum, og þá geri ég ráð fyrir, að þeir þurfi meira en stúdentsmenntun, þeir þurfi að hafa sérmenntun í því máli, sem þeir eiga að kenna. En engan veginn væri það útilokað, að menn gætu lokið þessu sérnámi í kennaraháskólanum, en þeir geta einnig tekið slík próf hér í háskólanum, svo að það er e.t.v. ekki atriði, sem vert er að gera mikið veður út af í þessum lögum. En eftir allar þessar nafnbætur og alla þessa byltingu er þó ekki gert ráð fyrir, að þessir háskólagengnu menn úr kennaraháskólanum geti kennt nema skyldunámið, og það er ekki mikið. Það er ekki meira en flestir, sem útskrifast nú úr kennaraskólanum, gætu kennt, þegar tungumálin og sérstaklega þá enskan eru undanskilin, og þeir gætu vafalaust, ef það væru hæfileikamenn, með því námi, sem þeir fá í kennaraskólanum, og með dvöl í Englandi 1–2 ár tekið að sér að kenna ensku undir landspróf. En það er mikils virði fyrir nemendurna, að það sé góð kennsla í byrjun í tungumálunum.

Ég held því, að þetta sé í sumum atriðum gert óþarflega dýrt, óþarflega miklar kröfur fyrir visst stig. Það væri a.m.k. eðlilegt og ekki nema hagsýni í því að hafa stigin tvö og hafa minni kröfur fyrir þá, sem tækju að sér barnakennsluna en þá, sem ættu að hafa unglingafræðsluna líka. Það væri nægilegt fyrir þá, sem tækju barnakennsluna að sér, að hafa t.d. landspróf og vera svo í kennaraskólanum þar að auki. Hitt er svo annað mál, að það verður að miða við aðstöðuna, þ.e. hve margir eru teknir inn í skólann. Ég hef aldrei vitað það réttleysi að láta alla komast að, sem vilja ryðjast inn í skóla með takmarkað pláss og takmarkaða kennslukrafta. Það er vitanlega stjórnleysi, og það er m.a. ástæðan fyrir því, að þetta frv. er komið fram. Það er hægt að fara þannig með alla skóla. En það þarf bara að beina námi unglinganna á aðrar hagkvæmari og þarfari brautir.

Í 4. gr. frv. er talað um, að það sé heimilt að veita aðgang öðrum en þeim, sem hafa stúdentspróf, og slíkt sé metið af skólastjóra og samþykkt af menntmrn.

Í 14. gr. er verið að tala um rannsóknarstofnun uppeldismála. Við erum nú orðnir svo hávísindalegir, Íslendingar, að við erum alltaf með vísindi í öllum hlutum, og þau eru náttúrlega ágæt þessi vísindi. En geta þau ekki gengið of langt? Það er líka gert ráð fyrir því, að það séu einhver uppeldismálavísindi rekin við Háskóla Íslands og svo eigi þessir vísindamenn að bera sig saman. Við erum nú aðeins 200 þúsundir, og ég hygg, að það séu gefnar út bækur um þessa hluti hjá stærri þjóðum, þannig að forráðamenn þessara mála gætu kynnt sér þetta hjá öðrum þjóðum að nokkru leyti, þannig að ég veit ekki, nema þetta sé ofrausn að hafa þessa rannsóknarstofnun fyrir uppeldismál í tveimur háskólum hjá okkur, 200 þús. manna þjóð. Mér finnst þetta eiginlega dálítil ofrausn, þó að vísindi séu góð. Við höfum t.d. mörg tilraunabú í landbúnaðinum, og það er ekki svo ýkjamikið, sem kemur frá þeim öllum, að það hafi mikil áhrif á búskap okkar bændanna.

Fleira er það í frv., sem getur verið afar mikið vafamál, t.d. um Æfinga- og tilraunaskóla. Vafalaust getur það orkað dálítils tvímælis. Það þarf að takmarka þau verkefni, sem skólinn hefur, og stilla því í hóf, hve margir fá inngöngu í skólann. Ég held, að þetta sé gert óþarflega dýrt og það sé ekki rétt að gera jafnar kröfur til allra, hvort sem þeir eiga að kenna börnum og unglingum eða eldra fólki, það sé réttara að flokka þetta. Og svo er um fleiri atriði, sem ég hef getið um; þau geta orkað tvímælis.