27.10.1970
Efri deild: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

24. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er fylgifiskur frv. til l. um Lífeyrissjóð bænda, sem tekið hefur verið til 1. umr. hér í hv. d., og hv. þdm. munu hafa kynnt sér. Með því frv., sem hér liggur fyrir til breytinga á l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, er gert ráð fyrir að lækka framlag til stofnlánadeildarinnar í áföngum, þ. e. að innheimta búnaðarmálasjóðsgjaldið samkv. l. nr. 38 15. febr. 1945. Eins og kunnugt er, var þetta gjald lagt á til innheimtu vegna stofnlánadeildar með l. 1962 til þess að byggja upp öfluga stofnlánadeild fyrir landbúnaðinn. Byggingar- og Ræktunarsjóður voru þá illa settir fjárhagslega, eins og kunnugt er, höfðu orðið fyrir nýjum áföllum og áttu ekki fyrir skuldum. Lög um Stofnlánadeild landbúnaðarins og þetta álag, sem lögfest var, voru menn ekki alveg sammála um, hvort réttmætt væri. Eigi að síður var þetta lögfest, og í 8 ár hefur Stofnlánadeild landbúnaðarins notið þess að fá 1% gjald af búvörum og jafnmikið frá ríkissjóði og 0.75% frá neytendum, sem lagt er á búvöruna. Með þessum hætti hafa stofnlánadeildinni verið tryggðar öruggar tekjur árlega og hefur henni vaxið nokkur fiskur um hrygg á þessu árabili. En það hefur þó dregið úr batanum, að deildin varð fyrir áföllum vegna gengisbreytinga 1967 og 1968.

Á áratugnum 1950–1960 voru tekin erlend lán handa Byggingarsjóði og Ræktunarsjóði og endurlánuð bændum án gengisskilyrða. En þessi lán fara nú lækkandi. Bæði er það, að nú er ekki útlit fyrir gengisbreytingu, og við skulum vona, að það verði langt að bíða, þangað til, til þess þarf að grípa, og eins hitt, að þessi lán eru orðin lítil, svo að ekki er ástæða til að ætla, að stofnlánadeildin fái aftur skakkaföll af þessum erlendu lánum. Síðan 1960 hafa búnaðarsjóðirnir yfirleitt fengið innlent fé til ráðstöfunar, og það útlenda fé, sem tekið hefur verið að láni, hefur verið lánað með gengisskilyrðum, þannig að stofnlánadeildin verður ekki fyrir áföllum á þeim lántökum, þótt svo illa tækist til einhvern tíma, að til gengislækkunar þyrfti að grípa. Stofnlánadeildin átti í árslok 1969 125 millj. kr. skuldlausa eign, en þegar l. voru sett um stofnlánadeildina, var 33 millj. kr. halli og skuldirnar meiri heldur en eignir. En á tímabilinu hefur orðið gengistap, og hagnaðurinn hefði orðið mun meiri, ef það hefði ekki orðið. Það er gert ráð fyrir, að það verði haldið áfram á árunum 1971–1975 að greiða 1% gjald og tekjur stofnlánadeildarinnar verði hinar sömu, en á árunum 1976–1980 verði greitt 0.75%, á árunum 1981–1985 0.5% og árunum 1986–1990 0.25%, og þá falli þetta niður.

Ég átti von á því að fá nákvæma áætlun um það, hvernig hagur stofnlánadeildarinnar yrði 1980 með því að lögfesta þetta og eins hvernig hann yrði að loknu tímabilinu 1990 miðað við það, að deildin fengi engin áföll í gengisbreytingum, en gróf áætlun er, að skuldlaus eign stofnlánadeildarinnar 1980 verði 600 millj. kr. og rúmlega 1 milljarður kr. 1990, en sú hv. n., sem fær þetta til meðferðar, mun geta fengið nákvæma útreikninga um þetta. Á þessu sést, að deildin heldur áfram að byggja sig upp, þótt nokkuð verði dregið úr framlögunum, sérstaklega miðað við það, að nú ætti að verða minni hætta á áföllum heldur en áður, þegar erlendu lánin eru ekki lengur fyrir hendi. Og það er ánægjulegt að geta þess, að búnaðarsjóðirnir og stofnlánadeildin hafa ekki orðið fyrir áföllum vegna tapa á lánum, sem bændum hafa verið veitt á þessu tímabili. Það hefur alltaf verið svo, að bændur hafa þrátt fyrir allt verið með þeim skilsömustu, sem lán taka.

En eins og kemur hér fram í 1. gr. frv., er hér um það að ræða að lækka þessi framlög í áföngum. Þá er gert ráð fyrir því, að gjald af útsöluverði mjólkur og rjóma og af heildsöluverði annarra landbúnaðarvara skuli nema sem svarar 0.75% til ársloka 1980, 0.5% árið 1981-1985 og 0.25% 1986–1990 af verði sömu afurða samkv. verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara á hverjum tíma. Við ákvörðun gjaldsins á vörum unnum úr afurðum í verðlagsgrundvelli reiknast hinar síðarnefndu á grundvallarverði að viðbættum þeim hundraðshluta sem segir í 1. málsl. þessa tölul.

2. gr. þessa frv. kveður á um það, að Stofnlánadeild landbúnaðarins greiði Lífeyrissjóði bænda á tímabilinu 1. jan. 1971 til 1. jan. 1986 fé til lífeyrisgreiðslna samkv. 17. og 18. gr. l. um Lífeyrissjóð bænda, er nemur 37.5% árlega af lífeyrisgreiðslunni. Ríkissjóður greiðir hins vegar 62.5%. Þetta verða dálítil útgjöld hjá stofnlánadeildinni. Þannig er gert ráð fyrir því, að á fyrsta ári nemi þessar greiðslur um 11 millj. kr., en þá ætti stofnlánadeildin að borga 37.5% af því. Þetta hækkar svo upp í 25 millj. kr. 1980, en það er talið, að stofnlánadeildin geti tekið þetta að sér og það verði henni ekki ofviða. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að deildin greiði Lífeyrissjóði bænda framlag samkv. 6. gr. þessa frv. um Lífeyrissjóð bænda, en í þeirri gr. er gert ráð fyrir, að hrökkvi tekjur sjóðsins ekki til fyrir ársútgjöldum hans, þá verði Stofnlánadeild landbúnaðarins skylt að leggja fram óafturkræft fé fyrir því, sem á vantar, þar til úr verður bætt samkv. ákvæðum 1. mgr. 1. gr., þ. e. að stjórn sjóðsins skal eigi sjaldnar en fimmta hvert ár láta tryggingafræðing rannsaka fjárhag hans, og þyki honum rannsókn leiða í ljós, að fjárhagsgrundvöllur sjóðsins sé ótryggur, skal hann gera till. til sjóðsstjórnar um að efla hann. Þetta er hv. þm. vitanlega kunnugt, þar sem þeir hafa haft þetta frv. fyrir framan sig til athugunar, og þarf þess vegna ekki að fara að rökstyðja það nánar, en það er gert ráð fyrir því, að stofnlánadeildin geti innt þetta af hendi. Fjárhagur hennar eða ráðstöfunarfé hennar verður einnig aukið, af því að það er gert ráð fyrir, að Lífeyrissjóðurinn verði ávaxtaður í stofnlánadeildinni, og það getur vitanlega orðið til þess, að stofnlánadeildin hafi svona rýmri fjárráð á stundum a. m. k.

Frv. um Lífeyrissjóð bænda var samið, eins og fram hefur komið, á árinu 1969 aðallega af n., sem Búnaðarþing skipaði, en síðar endurskoðað af n., sem ég skipaði, ásamt Guðjóni Hansen, tryggingafræðingi, sem lagði síðustu hönd á þetta, til þess að það væri fræðilega séð rétt upp byggt. Þetta frv. hefur verið kynnt bændum landsins, og aðalfundur Stéttarsambands bænda á s. l. hausti samþykkti einróma, að hann fyrir sitt leyti væri frv. samþykkur eins og það er. Og í samráði við stjórn Stéttarsambands bænda hefur þetta frv. verið samþ., þ. e. að fella niður stofnlánadeildargjaldið í áföngum og leggja þessar kvaðir, sem um getur í 2. gr. þessa frv., á stofnlánadeildina, og við nána athugun hefur það þótt fært.

Ég sé ekki ástæðu til herra forseti, að fara fleiri orðum um þetta mál. Þessi tvö mál, frv. um Lífeyrissjóð bænda og breyting á stofnlánadeildarlögunum, eru hvort öðru tengd, og það þarf að samþykkja þau samhliða. Ég vil láta þá von í ljósi, að þetta frv. verði samþ. á þessu þingi, að lög um Lífeyrissjóð bænda geti orðið virk frá næstu áramótum, eins og talað hefur verið um, og tel ég þá, að stigið hafi verið stórt framfaraspor fyrir bændastéttina, og með ákvæðum, sem eru í þessu frv. um það, að stofnlánadeildin hjálpi til að greiða ellilifeyri þeim bændum, sem ekki geta notið greiðslna úr Lífeyrissjóði nú fyrstu árin, sé stigið spor, sem beri að fagna og horfi til heilla og framfara.

Ég vil, herra forseti, leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.