30.03.1971
Efri deild: 80. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

281. mál, almannatryggingar

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég lét þess getið við 2. umr. um þetta frv., sem hér liggur fyrir, að ég mundi flytja brtt. við það við 3. umr. Við höfum leyft okkur þrír þm. að flytja brtt., sem er að finna á þskj. nr. 725, og skýrir hún sig nokkuð sjálf. Ég leitaðist við að skýra hana við 2. umr. og ætla því ekki að endurtaka neitt af því. En ég vil vekja athygli d. á því, að mér varð það kunnugt, eftir að ég talaði hér í þessu máli í gær, að Samband ísl. sveitarfélaga hafði skrifað heilbr.- og félmn. Ed. bréf, sem ég hafði ekki séð, þar sem sambandið lýsir óánægju sinni yfir því að hafa ekki verið látið fylgjast með þeirri endurskoðun, sem fram fer á almannatryggingalögunum. Í lok bréfsins segir einnig, að svo virðist, sem skoðanir hreppsnefnda séu skiptar um niðurfellingu hreppasjúkrasamlaga. Þetta hefur styrkt mig í þeirri skoðun, sem ég gerði að umræðuefni við 2. umr., að hér þyrfti að gera breytingu á og könnun á því, hvort rétt væri að koma á nýrri skipun um sjúkrasamlögin. Ég vil ekki á þessu stigi slá neinu föstu um það, hvað er hagfellt og hvað ekki hagfellt í þessu efni, en ég tel nauðsynlegt og sjálfsagt að ræða það mál við sveitarstjórnir almennt í landinu.

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þessar till. Mönnum er það ljóst, að hverju þær stefna, og ég vænti þess, að dm. séu okkur flm. sammála um það, að þessar brtt., sem við berum hér fram, stefni til bóta.