30.11.1970
Efri deild: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

24. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths., sem ég óska að láta koma hér fram í sambandi við þetta mál. Ég gat þess í ræðu minni áðan, að um þessi mál hefði verið fjallað af Stéttarsambandi bænda meðal annarra, landbrn. og stofnlánadeildinni. Það kom fram, þegar rætt var um Lífeyrissjóð bænda hér á dögunum í þessari hv. d., að aðalfundur Stéttarsambands bænda, sem baldinn var í haust, haustið 1970, lýsti sérstökum stuðningi við frv. um Lífeyrissjóð bænda og skoraði á löggjafarvaldið að hraða samþykkt frv., og segir svo í lok ályktunar fundarins:

Enda treystir fundurinn því, að stofnlánadeildargjaldið verði fellt niður í áföngum.

Ég vil benda á þetta sérstaklega með tilliti til þess, að þetta lýsir fyrst og fremst því, að Stéttarsambandi bænda er kunnugt á þeim tíma um þann hátt, sem hugsaður er á niðurfellingu á gjaldinu, og ég tel, að þeir hafi því með því samþykkt þessar till. Í öðru lagi þykir mér rétt að rifja hér upp einnig í sambandi við þetta mál umsögn stjórnar Búnaðarfélags Íslands frá 4. nóv. 1970, þar sem rætt er um bæði frv. Þar segir svo í upphafi hennar, með leyfi hæstv. forseta:

„Í meginatriðum er frv. í samræmi við till. Búnaðarþings 1970 um þetta efni, en þó er um breytingu að ræða á fyrirkomulagi innheimtugjalda. Í fylgifrv. um breytingar á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins er gert ráð fyrir, að búvörugjaldið til stofnlánadeildarinnar lækki hægar og falli niður 5 árum síðar en Búnaðarþing 1970 lagði til. Þetta er hvorugt til bóta,“ segir stjórn Búnaðarfélags Íslands. „Frv. er allflókið og ekki auðvelt að brjóta það til mergjar á skömmum tíma.“

Ég vil benda á þessi ummæli stjórnarinnar í því efni, þar sem þeir tala um það, að þessi frv. séu allflókin og ekki auðvelt að brjóta þau til mergjar á stuttum tíma, og ég hygg, að það sé nokkuð viðurhlutamikið að ætla sér að breyta þessu, sem byggt er upp samstiga, frv. um stofnlánadeildina og frv. um Lífeyrissjóð bænda, og ég vara við því, að hlaupið verði til þess að ganga á annan hátt til verks í þessum efnum en þessi frv. gera ráð fyrir.

Það er bent hér á það, að það megi jafna þessa hluti með árlegu framlagi ríkissjóðs, sem gert er ráð fyrir í brtt. flm. á þskj. nr. 197. Það er að sjálfsögðu rétt, að það má lengi grípa til þess ráðs að láta ríkissjóð jafna hlutina, þegar einhverju þarf að breyta, en ég hygg, að það sé nokkuð almenn venja, þar sem ríkissjóður hefur tekið að sér að greiða hluti til stofnlánasjóða atvinnuveganna, að það sé fyrst og fremst á móti framlagi annars staðar frá og þau framlög falli niður nokkuð jafnstiga, þegar þeim væri af létt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta. En ég vara alvarlega við því, að hróflað sé við samræmi milli þessara frv. á þessu stigi málsins, og ég tel það miklu eðlilegra og raunar alveg nauðsynlegt, að það komi fram reynsla á það, hverjar álögur falla á stofnlánadeildina og hversu erfiðar álögurnar verða á bændurna, en um leið og einhverjir agnúar koma þar í ljós, þá vænti ég þess og ætlast til þess, að löggjafinn fylgist þar vel með og geri breytingar á þeim fyrirmælum, ef það reynist þá vera nauðsynlegt.