25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það hefur verið venja undanfarin ár og þar til ég hygg á s.l. þingi, að flutt hefur verið annars vegar frv. um lántökuheimildir fyrir ríkisstj. vegna framkvæmdaáætlunar og hins vegar hefur fjmrh. í Sþ. flutt yfirlitsræðu um ástand og horfur í efnahagsmálum, fjármálum og fjárfestingarmálum, bæði gert grein fyrir þróuninni liðið ár og jafnframt gefið yfirlit um horfur á hinu nýbyrjaða ári. Það hefur stundum verið kvartað yfir því, þar sem hér hefur verið um mikla skýrslu að ræða og sérstaklega um miklar og margar tölur að ræða, að þessi skýrsla væri flutt þannig munnlega, og væri frekar æskilegt, að hún yrði skriflega lögð fyrir þingið. Það var gert á s.l. ári og ég hef einnig haft þann hátt á nú, að samtímis því, sem frv. um framkvæmdaáætlunarlántökurnar var lagt fram í hv. Ed. fyrir nokkru, þá var útbýtt í báðum d. þingsins umræddri grg. fjmrh. um það efni, sem ég gat um, og vonast ég til, að hv. þdm. hér í þessari deild, svo sem var í Ed., geti fallizt á, að þetta sé eðlilegur háttur, og þar sem skýrslan liggur fyrir mun ég að sjálfsögðu ekki fara að rekja efni hennar í einstökum atriðum, því skýrslan skýrir sig vel og hv. þdm. hafa haft hana fyrir sér það marga daga, að þeir gera sér gerla grein fyrir, hvað um er að ræða. Skýrslan er fyrst og fremst tölulegar upplýsingar og hefur hingað til ekki leitt til neinna sérstakra umr. í þingi, hvort svo verður nú, skal ég ekkert segja um, en hún liggur hér fyrir til athugunar hv. þm. og til umr. eftir atvikum, ef þeim sýnist svo.

Framkvæmdaáætlunin hefur jafnan verið í tveimur þáttum, annars vegar er fjáröflun til opinberra sjóða, þ.e.a.s. fjárfestingarsjóða atvinnuveganna, og síðan að Framkvæmdasjóður Íslands var settur á stofn, þá hefur það verið hlutverk þess sjóðs að afla nauðsynlegs lánsfjár til stofnsjóða atvinnuveganna. Það skal að vísu tekið fram, að það hefur ekki alltaf verið hægt að afla alls þess fjár, sem talið hefur verið nauðsynlegt í því efni, það hefur markazt og það hefur takmarkazt af þeim fjárráðum, sem Framkvæmdasjóðurinn hefur haft, en engu að síður hygg ég þó, að flest árin hafi í meginefnum verið hægt að útvega það fé, sem farið hefur verið fram á. Ég rek ekki þennan þátt framkvæmdaáætlunarinnar, þar sem hann er ekki í höndum fjmrh. heldur Framkvæmdasjóðsins, en hins vegar þá þótti rétt til yfirlits fyrir hv. þm. að gera grein fyrir fjáröflun þess sjóðs og skiptingu þess fjár milli einstakra stofnsjóða atvinnuveganna og er að finna töflu um það aftan við skýrsluna um framkvæmdaáætlunina. Hins vegar er svo sú hliðin, sem snýr að ríkinu sjálfu, þ.e.a.s. framkvæmdum ríkisins og fjáröflun til þeirra verkefna, sem ekki hefur reynzt auðið að afla fjár til innan ramma fjárlaga, annaðhvort vegna þess að það hefur ekki tekizt að ná saman endum eða þá, sem er fyrst og fremst ástæðan nú, að um er að ræða verkefni, sem ekki þykir eðlilegt, að veitt sé fé til með beinum fjárveitingum, heldur sé þess aflað með lántökum, og á ég þar fyrst og fremst við þau verkefni, þar sem gert er ráð fyrir því, að um raunverulega endurlánun sé að ræða, svo sem dæmi má nefna varðandi virkjunarframkvæmdir, svo sem Rafmagnsveitna ríkisins og fleiri slíkar framkvæmdir, af því að gert er ráð fyrir, að þeir aðilar taki þessi lán og standi undir þeim, og jafnframt einstök verkefni, sem talin hefur verið ástæða til þess að hraða og hefur ekki verið talið fært að taka að fullu fjárveitingar til upp í fjárlög.

Eins og menn sjá af þeim lista um sundurliðun þess fyrirhugaða lánsfjár, sem ætlað er að taka í 7. gr. frv., þá skiptist meginþorrinn af öllu fénu fyrst og fremst milli orkumála, rafvæðingar og jarðhitamála annars vegar og hins vegar vegamála. Varðandi vegamálin þá eru aðallega tvö verkefni, sem eru á dagskrá, svo sem áður hefur verið, annars vegar Reykjanesbrautin, sem enn þarf að afla mjög verulegs fjár til til að standa undir greiðslu afborgana og vaxta, en gert er ráð fyrir, að á næstu árum verði það yfirtekið af Vegasjóði jafnhliða afborgunum af alþjóðabankalánum. Hins vegar er Hafnarfjarðarvegur í Kópavogi, en það verkefni hefur einnig verið á dagskrá nú undanfarin ár. Það var ekki svo á s.l. ári, sem stafaði af því, að þá var að verulegu leyti lokið fyrri áfanga þess verkefnis. Nú er ætlunin að stefna að því að ljúka síðari áfanganum og þá er talið óumflýjanlegt að afla þeirra 30 millj. kr., sem hér er gert ráð fyrir að til þess þurfi.

Varðandi önnur atriði í þessari sundurliðun er það að segja, að þau voru flest öll tekin upp í þau drög að framkvæmdaáætlun, sem fylgdu fjárlagafrv. En síðustu árin hefur það verið venja, að drög að framkvæmdaáætlun hafa verið látin fylgja fjárlagafrv., til þess að hv. þm. gætu þá fengið upplýsingar um það, hvaða verkefni það væru, sem talið væri nauðsynlegt að vinna að utan ramma fjárlaga, og þá eftir atvikum komið með sínar till. Síðan hafin var birting þeirra draga að framkvæmdaáætlun með fjárlögum, þá hygg ég, að það hafi verið til verulegrar upplýsingar fyrir þm. Hins vegar hefur það ekki leitt til neinna breytinga og engrar ákvörðunar af hálfu fjvn., enda ekki til þess ætlazt, heldur aðeins til þess að gera mönnum þáð ljóst, hvaða verkefni það væru, sem ætlunin væri að vinna að utan ramma hinna venjulegu fjárveitinga.

Ég hirði ekki um að gera hér að umtalsefni þessi einstöku atriði. Þau eru, eins og ég sagði, næstum öll tekin upp í þau drög að framkvæmdaáætlun, sem fylgdu fjárlagafrv. og eru orðin þm. kunn fyrir löngu síðan. Það eru þó einstaka liðir, sem eru hér teknir inn og eru nýir, og skal ég aðeins nefna tvo. Annars vegar er framlag til öryggismála flugþjónustunnar, þar er gert ráð fyrir sérstakri fjáröflun, sem stafar af því, að það hefur verið vaxandi áhugi á því einkum meðal flugmanna að koma við ýmsum endurbótum á flugvöllum á ýmsum stöðum á landinu og þykir sjálfsagt að mæta þeim óskum, sem þar eru fram settar, enda gæti það leitt til þess, að stöðvun yrði á flugi til einstakra flugvalla úti á landi, ef ekki væru gerðar þar þær lágmarksaðgerðir, sem flugmenn telja að nauðsynlegt sé að gera öryggis vegna, og jafnframt er hér um að ræða kaup sérstakra öryggistækja fyrir Reykjavíkurflugvöll eða radar, sem ætlunin er að kaupa og hefur áður verið tekin ákvörðun um, en ekki hafði verið gert ráð fyrir í fjárlögum. Hins vegar er svo 15 millj. kr. fjáröflun til sveitarafvæðingarinnar, fjárveitingin var hækkuð allverulega í fjárlögum og gert ráð fyrir því, að það mundi nægja, þannig að hægt væri að ljúka þeim áfanga, sem tilkynnt var í fyrra, að ríkisstj. hefði ákveðið að ná á þessu ári, en það er að leggja allar þær línur, þar sem vegalengd væri ekki yfir 1.5 km að meðaltali milli býla. Það hefur hins vegar komið á daginn, bæði vegna kostnaðarauka og þó ekki síður vegna hins, að það hafa bætzt við línur innan þessara marka, vegna þess að fjölgað hefur býlum, að þessar línur munu verða nokkuð fleiri en gert var ráð fyrir, og til þess að hægt væri að fullnægja þessari ákvörðun þá er nauðsynlegt að afla hér nokkurs fjár til viðbótar eða 15 millj. kr.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að ræða frekar um skiptingu þessa fjár, það liggur ljóst fyrir, hvernig ætlunin er að verja því, og það er að finna nákvæma sundurliðun í grg. frv. um það, hvaða rök eru fyrir hinum einstöku fjárveitingum, en ég legg á það ríka áherzlu, að hér hafa verið tekin þau verkefni, sem óumflýjanlegt er talið að sinna, og jafnframt vil ég taka fram þó ég þykist vita, að bæði mundi vera af hálfu stjórnvalda og einnig af hálfu hv. þm. óskað eftir, að ýmislegt annað væri gert, að ekki er auðið að afla meira fjár en hér er um að ræða, hvorki til stofnlánasjóðanna né heldur til hinna sérstöku framkvæmda ríkissjóðs, enda var það niðurstaðan í hv. Ed., að þar komu ekki fram nokkrar brtt. varðandi þau verkefni, sem hér er rætt um, og þeir þm., sem töluðu þar um málið, voru allir á einu máli um það, að þeir hefðu ekki, — menn sæju enga ástæðu til þess að gagnrýna val þeirra framkvæmda, sem hér er sérstaklega getið um að afla fjár til, og vona ég, að svo verði einnig hér í þessari hv. d. Varðandi Framkvæmdasjóðinn skal ég þó taka það fram, að enn skortir þar nokkuð á, að hægt sé að leysa fjárþörf Stofnlánadeildar landbúnaðarins og veðdeildar Búnaðarbankans og hefur það mál verið tekið til sérstakrar athugunar. En á þessu stigi, þegar samþ. var endanlega ráðstöfun þess fjár, sem Framkvæmdasjóðurinn hafði yfir að ráða, þá var ekki hægt að ganga lengra í því efni heldur en þar er gert ráð fyrir, enda er nú stofnlánadeildin þar næstefst á blaði. En engu að síður vantar þar enn töluvert fé til þess að geta lánað svo sem verið hefur undanfarin ár, nema sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar.

Um fjáröflunina er það að segja, að þar er svo sem undanfarin ár um tvo liði að ræða, annars vegar PL-480 lán, sem að vísu er ekki búið að gera enn þá samning um, en menn vonast til að fáist með sama hætti og undanfarin ár, og hins vegar útgáfu spariskírteina, sem gert er ráð fyrir að nemi 75 millj. kr., nýrri skírteinaútgáfu, jafnhárri fjárhæð og s.l. ár, en aftur á móti hækkar allverulega endurútgáfa spariskírteina, en reynslan hefur leitt það í ljós, að menn vilja mjög gjarnan endurnýja bréf sín, þannig að það hefur ekki þurft að leysa út nema lítið af þeim bréfum, sem komið hafa til innlausnar, og er gert ráð fyrir, að sú fjárhæð hækki allverulega.

Herra forseti. Ég legg svo til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.