05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Því miður var ég ekki staddur hér í hv. d., þegar þetta mál var til 1. umr., og kann því að vera, að það, sem ég mun nú spyrjast fyrir um, hafi komið fram að einhverju leyti. Ég sé það hér í skýrslu fjmrh. um framkvæmda- og fjáröflunaráætlun þessa árs, að þá er gert ráð fyrir því, að Stofnlánadeild landbúnaðarins fái 70 millj. kr. til sinnar starfsemi og það er gert ráð fyrir því, að hún hafi til að lána út á þessu ári 156 millj. kr. Þegar var verið að gera áætlun um fjárþörf stofnlánadeildarinnar, þá var það áætlað, að hún þyrfti á þessu ári tæplega 240 millj. Og farið var fram á það, að það yrðu um 200 millj., sem deildinni bærust annars staðar frá. Í sjálfu sér, miðað við þessar 156 millj., þá er ekki tekinn með í reikninginn víxill, sem er í Seðlabankanum, sem er 50 millj., og a.m.k. er ekki búið að semja um greiðslu á honum til fulls, þó það hafi verið eitthvað kannske um það rætt. En þó reiknað sé með því, að stofnlánadeildin hafi þessar 156 millj. og þurfi ekki að borga þennan víxil, þá er alveg sýnilegt, að það er mikið sem vantar og eftir þeim umsóknum, sem manni sýnist að hafi borizt, og þó það sé ekki búið að athuga þær til fullnustu, þá held ég að þessi tala, sem er reiknað með í áætluninni, hafi verið frekar of lág heldur en of há. Ég fór að athuga þetta, og ég kom inn á það hér í hv. d. fyrir nokkru síðan, að ég var að athuga, hvernig þetta hefði nú verið á árinu 1956 og 1957, vegna þess að því hefur verið haldið hér fram, bæði í hv. d. og annars staðar, að það hefði verið í raun og veru lánað mikið meira til landbúnaðarins á undanförnum árum heldur en áður var. Ég sá það á árinu 1956, að þá hefðu verið lánaðar 45 millj., en þá var byggingarvísitalan 100 stig. Í dag er byggingarvísitalan orðin 524 stig og þá þyrfti, til þess að framkvæmdamátturinn væri eins, þá þyrfti þessi tala að vera 235.8 millj. og þó var ekki á þeim árum lánað til vinnslustöðva eins og hefur verið núna. Það var ekki lánað til minkabúa eins og núna og það var ekki lánað til dráttarvélakaupa eins og núna, þannig að við sjáum, að það er þó gert ráð fyrir því í þessari áætlun, sem Búnaðarbankinn gerir, að framkvæmdirnar verði hlutfallslega langtum minni en þær voru á þessum árum. Ég athugaði líka árið 1967, þá var lánað út 51.5 millj. og byggingarvísitalan var þá 116 stig, en til þess að stofnlánadeildin lánaði fé út, sem hefði sama framkvæmdamátt, þá þyrfti þetta að vera 232.6 millj. Ef deildin fær ekki meira fé en þetta, og þó er miðað við það, að af þessu fé fari í minkabúin 17 millj., þá þyrfti að vera í raun og veru 26 millj. eða meira til þess að þeir, sem hafa reist þessi minkabú, fengju út á þau, eins og þeir þyrftu og hafa vonazt eftir. Það er þannig með veðdeildina, að í framkvæmdaáætluninni er gert ráð fyrir, að hún hafi aðeins á þessu ári 3.6 millj, kr. Í lögunum um stofnlánadeildina er gert ráð fyrir, að stofnlánadeildin geti lánað, ef fé er til, 10 millj. kr. Hvernig á að fara með veðdeildina, á að loka henni?

Ég vil eiginlega, áður en þessi framkvæmdaáætlun er afgreidd hér á hinu háa Alþ., óska eftir því, ekki sízt þar sem hæstv. ráðh. eru hér staddir, bæði hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh., að þeir geri grein fyrir því, hvort það sé meiningin, að stofnlánadeildin fái ekki meira fé en þetta og hvort það eigi þá að skera þessar framkvæmdir niður með einhverjum hætti. Það getur ekki annað verið. Ef hún fær ekki fé, þá þýðir ekki annað, það er ekki hægt að lána fé, sem ekki er til. Það vita allir og ekki sízt hæstv. ráðh. Ég sé það, að n. sú, sem hefur með þetta mál farið, hefur ekki gert enn þá a.m.k. neinar till. í þessu efni, að komi þarna fé, og það hlýtur að þurfa að athuga þetta, því annars sýnist mér, að þarna sé alveg hreinn voði fyrir dyrum. Það má geta þess í þessu sambandi, að það var ekki hægt í raun og veru að klára öll lán, sem bárust. Það eru eftir milli 20–30 millj. af þeim framkvæmdum, sem voru gerðar á s.l. ári, sem var ekki hægt að afgreiða. Að vísu var hægt að afgreiða það, sem lánsloforð lágu fyrir um, en ekkert fram yfir það. Og þá sjáum við alveg hvert stefnir. Í raun og veru, ef deildin hefði svipað fjármagn eins og áður, þá þyrfti hún til þessara hluta um eða yfir 300 millj. Nú hefur komið ósk frá Búnaðarfélaginu og þessi samþykkt Búnaðarþings, að það yrðu stórhækkuð lánin til dráttarvélakaupa og yrðu teknar upp lánveitingar til annarra vélakaupa, allt upp í 60%. Það væri mjög gott, ef hægt væri að verða við þessu, a.m.k. að einhverju leyti. En það hljóta allir að sjá, að þarna er ekki hægt að verða við miklum óskum nema komi mikið meira fjármagn til heldur en þau plögg, sem hér liggja fyrir, gera ráð fyrir, að þessir sjóðir fái.