11.11.1970
Neðri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

67. mál, happdrættislán fyrir Vegasjóð vegna brúargerða á Skeiðarársandi

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir allar þær góðu undirtektir, sem þetta mál hefur fengið, en það var aðeins eitt, sem ég vildi gjarnan taka betur fram, sérstaklega út af ræðu hv. þm. Péturs Sigurðssonar, þar sem hann talaði um tekjuöflunarleið. Ég vil bara benda á það, að í frv. felst í raun og veru ekki tekjuöflunarleið, heldur fjáröflunarleið og það er verulegur munur á þessu og venjulegum happdrættum. Og út af því, sem hann benti á, að það væri kannske 30%, 40% eða meira, sem væri greitt í vinninga af happdrættunum, þá ber að athuga það, að hér er gert ráð fyrir, að höfuðstóllinn sé alltaf endurgreiddur, þannig að það er þó ekki fórnað öðru heldur en vöxtunum og þetta er þess vegna alveg hliðstætt við t.d. sparifé, að öðru leyti en því, að það eru lægri vextir heldur en af tilsvarandi bindingu í sparisjóðum. En ástæðan til þess, að þetta er sett fram á þennan hátt, er augljóslega sú, — og það vil ég undirstrika, —það er sett fram í trausti á það, að það sé áhuginn fyrir málefninu, sem raunverulega gerir það að verkum, að mönnum verður ljúft að kaupa þessi bréf, og ég er þeirrar skoðunar, að þessar 40 millj. eða sú upphæð, sem þar er nefnd árlega, sé upphæð, sem er það stillt í hóf, að þessi fjáröflunarleið muni takast. En eins og ég benti á áðan, kemur það auðvitað til frádráttar, ef það þyrfti að taka eitthvað af þessari fjáröflun til þess að greiða vinningana. Það er hugmynd, sem ég skaut fram, að þann þáttinn tæki Vegasjóður að sér smátt og smátt.