03.03.1971
Efri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

67. mál, happdrættislán fyrir Vegasjóð vegna brúargerða á Skeiðarársandi

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hér var sagt áðan, að þetta frv. er spor í rétta átt. Það er vitanlega engan veginn hægt að fullyrða neitt um það, hvort happdrættisskuldabréfin seljast. En við höfum nokkra reynslu af því, að þingið hefur gefið út happdrættisskuldabréf og sala þeirra hefur gengið vel. Hér er um mál að ræða, sem almenningur hefur áhuga fyrir, ég vil segja, hvar sem menn eru búsettir á landinu. Þetta mál er þannig vaxið, að það ætti að vera létt verk að hefja nokkurn áróður fyrir sölu bréfanna og afla mikils fjár með þessum hætti. En ég er alveg samþykkur því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér áðan, að þessi framkvæmd má ekki standa eða falla með því, hvort þessi fjáröflunarleið tekst eða ekki. Ef þessi fjáröflunarleið heppnast ekki, þarf vitanlega að finna aðra leið. Við þurfum að brúa þetta bil, þetta skarð, sem er á hringnum. Og tækninni hefur fleygt mikið fram, þannig að nú þykir fært að gera það, sem ómögulegt var að vinna áður. En Skeiðará er erfið, jökulhlaupin koma öðru hverju og enginn getur með vissu sagt, hvar vatnið tekur sér farveg. Þannig gæti það verið, þótt miklir varnargarðar væru komnir, að það tækist ekki að halda vatninu undir brúnni. Því hefur sú uppástunga komið fram, að réttast væri að byggja trébrýr, sem yrðu þá að fara í versta tilfelli, en ekki yrði þá svo dýrt að endurnýja. Það hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir á svæðinu, hvernig með skuli fara, og ég held, að það sé örugglega dómur verkfræðinga, að tæknilega sé þetta framkvæmanlegt. En hversu mikið það kostar, hefur ekki enn verið fullyrt um, en það hefur verið gizkað á það, að þetta gæti kostað 200–300 millj. kr. Það er að vísu há upphæð, en á þessu ári notum við til vegaframkvæmda um 1250 millj. kr., þannig að ég býst nú við því, að mönnum blöskri ekki svo mjög, jafnvel þótt þetta mundi kosta 200–300 millj. kr., þegar notað er til vegaframkvæmda á einu ári 1250 millj. En þótt svo sé, að Vegasjóður hafi tiltölulega mikið fjármagn, þá liggur það alveg í augum uppi, að það verður að afla fjár með sérstökum hætti í þetta verk. Það verður ekki hægt að nota Vegasjóð eins og hann er nú og taka stórfúlgur úr honum í þetta verk, vegna þess að það eru í öllum kjördæmum landsins og öllum landshlutum svo mörg verkefni, sem bíða og verið er að vinna að og kalla eftir fjármagni.

Ég vildi aðeins við þetta tækifæri segja álit mitt á þessu, og það er ánægjulegt, að hv. Nd. samþykkti þetta frv. með öllum greiddum atkv. Ég held, að allir hv. Nd.-menn hafi verið með þessu máli, og ég vona, að svo verði einnig hér í þessari hv. d. Hvort það tekst nú að ljúka þessu verki fyrir 1974, um það vil ég ekkert segja. En ég tel, að þetta frv. verði til þess að ýta á og ýta undir framkvæmdina, og ég trúi því, að þetta frv., ef að l. verður, geti orðið talsverður þáttur í fjáröflun til verksins og kannske stór þáttur. Og undirbúningi að þessari framkvæmd verður haldið áfram í sumar og er vonazt til, að í sumar liggi fyrir nægilega miklar rannsóknir, þannig að það mætti hefjast handa vorið 1972. Það er rétt, sem hér var sagt áðan, að Núpsvötn, Súla og Sandgígjukvísl eru ekki nema eins og venjulegar ár og ekki nærri eins erfiðar eins og sumar árnar, sem hafa verið brúaðar núna að undanförnu. Það er Skeiðará, sem vandinn er bundinn við, og sem verður hægt að vinna, þegar peningar eru fyrir hendi. Ég er því samþykkur, sem hér var sagt áðan, að það þarf að afla fjár til þessara framkvæmda og hefjast handa eins fljótt og tæknilegur möguleiki leyfir.