03.03.1971
Efri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

67. mál, happdrættislán fyrir Vegasjóð vegna brúargerða á Skeiðarársandi

Axel Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég get strax lýst stuðningi mínum við það frv., sem hér er til umr., og tel sjálfsagt að láta reyna á það, hvort landsmenn vilji fjármagna að einhverju eða öllu leyti þessa bráðnauðsynlegu og sérstæðu framkvæmd, sem hér um ræðir. En það, sem orsakaði það, að ég vildi segja hér fyrst og fremst nokkur orð, var það, að hv. 11. þm. Reykv. vitnaði til vegaframkvæmdanna á Kópavogshálsi. Það kann að vera, að þar gæti einhvers misskilnings hjá honum um það, því þær framkvæmdir hafa til þessa ekki tekið neitt fjármagn frá Vegasjóði. Ég hef oft bæði lesið slíkt og heyrt raunar í fjölmiðlum, að það sé verið með alls konar fullyrðingar um það, að það sé óeðlilegt að eyða frá öðrum vegaframkvæmdum jafnmiklum fjárupphæðum og þar er um að ræða til framkvæmda á jafnstuttum vegi eins og hér er líka talað um. En til þess að eyða öllum misskilningi í því efni, þá hafa þessar framkvæmdir til þessa ekki á neinn hátt verið fjármagnaðar af Vegasjóði og ekki dregið úr því, sem hann hefur getað lagt til framkvæmda annars staðar á landinu. Ég vil aðeins, að þetta liggi ljóst fyrir, að með þessum framkvæmdum skuldbinda Kópavogsbúar sig til þess að verja til þeirra verulegu fjármagni. Við teljum þetta nauðsynlega framkvæmd fyrir okkur, fyrst það var dómur allra sérfræðinga, sem um þetta mál fjölluðu, að vegurinn þyrfti að liggja á þessum stað. Ég tek það fram, að það er út af fyrir sig ekki okkar ósk. Þar erum við að leysa sameiginlegt vandamál okkar nágrannasveitarfélaga, sem þar áttu mestra hagsmuna að gæta, að einmitt vegurinn gegnum Kópavog lægi þarna, þó að það væri kannske dýrt. Við féllumst á það Kópavogsbúar að taka á okkar herðar vissan hluta af þessum mikla kostnaði. Að öðru leyti eru þessar framkvæmdir fjármagnaðar á sérstakan hátt, án þess að það dragi nokkuð úr fjárframlögum Vegasjóðs til framkvæmda í vegagerð á landinu.

Ég vildi aðeins, herra forseti, láta þetta koma skýrt fram. Ég endurtek, það má vera, að 11. þm. Reykv. hafi ekki misskilið það, en ég veit, að það hefur oft komið fram hjá ýmsum, að þessi framkvæmd dragi úr framkvæmdagetu Vegasjóðs annars staðar.