22.03.1971
Efri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

128. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 2. umr., hefur landbn. halt til meðferðar, og mælir hún einróma með samþykkt þess. Eins og nál. á þskj. 508 ber með sér, hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma við frv.

Efni þessa frv. er einungis það, að nú eru hækkuð nokkuð skotlaun fyrir hlaupadýr og eins verðlaun fyrir að vinna grendýr. Með lögum 1957 var ákveðið í krónutölu, hversu há þessi verðlaun og skotlaun skyldu vera, og þótti nú orðið tímabært að hækka þau nokkuð. Þetta frv. má segja, að sé árangur af viðræðum, sem orðið hafa milli ríkisvalds og sveitarfélaganna, en það eru þau, sem bera kostnaðinn af þessum launum að verulegu leyti. Ég hef af því spurnir, að eftir að þetta frv. hefur gengið í gegnum Nd., hafi þess gætt, að menn hafi komið og átt tal við veiðistjóra um það, hvernig stæði með að fá að taka þátt í grenjaleitum og minkavinnslu. Þetta virðist sem sé strax hafa orðið til örvunar, og ég vil vænta þess, að þótt hækkunin hafi ekki orðið meiri en þessi, þá sé hún nægileg til þess að örva til þeirra verka, sem þarna er verið að verðlauna.

Það liggja fyrir brtt. hér til allverulega meiri hækkunar en gert er ráð fyrir með frv. Ég vil ætla, að það sé óþarft að fara eins hátt og hér er gert ráð fyrir, og ég vil mæla með því mjög ákveðið, að það sé farið í það á þann hóflega veg, sem frv. gerir ráð fyrir, og ég tel, að það muni ekki vera þörf á því að svo komnu máli að spenna bogann hærra.

Ég mæli þess vegna með því fyrir hönd meiri hl. landbn., að frv. verði samþ. óbreytt.