17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

69. mál, aðstoð Íslands við þróunarlöndin

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Menn hafa gert að umtalsefni, að ég sagði hér áðan, að við Íslendingar ættum að geta reiknað örugglega með því, að þjóðartekjur okkar haldi áfram að vaxa næsta ört á ókomnum árum. Ég er alveg sannfærður um, að þannig verður þetta. Við höfum allar aðstæður til þess að auka þjóðartekjurnar mjög verulega á næsta áratug og held, að við ættum að geta reiknað nokkuð örugglega með því, að þær geti vaxið um allt að því 5% á ári að meðaltali. Ég bind þetta vissulega einnig við það, að dagar þessarar ríkisstj., sem nú hefur verið við völd í áratug, séu taldir, en þó er það ekkert aðalatriði. Grundvallaratriðið í þessu er, að aðstaða okkar og framleiðslukerfi er slíkt, að við hljótum að geta tryggt hagvöxt af þessu tagi. Og ef þannig fer, þá verður svo komið eftir áratug, að þjóðartekjurnar verða orðnar, við skulum segja, 150% miðað við 100% núna. Þá mundi 11/2% af núverandi þjóðartekjum eiga að renna til vanþróaðra ríkja, en við hefðum sjálfir 50% meira en við höfum í dag. Við þurfum ekki að skerða afkomu okkar á neinn hátt. Við erum aðeins að gefa fátækum þjóðum örlitla hlutdeild í hagvexti, sem við getum reiknað nokkuð örugglega með — við og fjölmörg önnur ríki, sem eru sæmilega þróuð efnahagslega. Þannig standa þessi mál. Við erum ekkert að taka af þjóðinni af þeim fjármunum, sem hún hefur nú í dag. Við erum aðeins að setja okkur það mark að tryggja fátækum þjóðum örlitla hlutdeild í þessum vexti, sem við eigum að geta reiknað nokkuð örugglega með.

En það er allt annað mál, ef við höfum hins vegar þá afstöðu eins og hv. þm. Friðjón Þórðarson að koma hingað og segja: Við höfum í mörg horn að líta. Við þurfum að nota þessa peninga. Vissulega höfum við í mörg horn að líta, og því er alltaf hægt að svara, að menn þurfi að nota peninga, en ef við erum þessarar skoðunar, þá eigum við að segja það skýrt og skorinort og lýsa því hreinlega yfir hér, að við viljum ekki aðstoða fátæku þjóðirnar; við viljum nota þessa peninga sjálf. Ef það er meining okkar, þá er það hrein hræsni að koma hér og þykjast vilja setja á fót einhverja stofnun til þess að aðstoða þessar þjóðir án þess að vilja leggja fram nokkra peninga. Það er ekkert annað en hræsni, og ef þetta er skoðun okkar, að við höfum í svo mörg horn að líta, að við eigum ekki að leggja fram fé til fátækra þjóða, þá eiga fulltrúar okkar hjá Sameinuðu þjóðunum einnig að segja þetta þar. Þeir eiga ekki að greiða atkv. með þeirri almennu stefnu, að sæmilega efnaðar þjóðir hjá Sameinuðu þjóðunum leggi fram 1%, en koma svo hingað á Alþ. og snúast gegn því. Slík vinnubrögð eru algerlega ósæmandi. Það er hægt að segja, að þetta sé hreinskilin afstaða í sjálfu sér, en þeir menn, sem hafa hana, eiga þá að vera menn til þess að standa við hana af fullri djörfung án þess að vera með það yfirskin, að þeir vilji vel, en geti ekki neitt.