22.03.1971
Efri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

243. mál, sala hluta úr jörðinni Kollafirði

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft þetta frv. til meðferðar og orðið sammála um að mæla með því, að það yrði samþ. óbreytt. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum til að skýra það. 1. flm. þess skýrði fyrir okkur efni þess hér við 1. umr., og ég hef litlu við það að bæta. Ég get aðeins sagt það, að það er talið, að þetta sé um 1/2 hektari, sem hér er um að ræða, sem kemur til greina að selja Sigurjóni Guðmundssyni til viðbótar því landi, sem hann á þarna fyrir, en allar líkur benda til þess, að þetta sé allmiklu minna land, og það, sem ég vil leggja sérstaka áherzlu á, er það, að þetta land er óræktanlegt og innan girðingar hjá Sigurjóni Guðmundssyni, þannig að það virðist ekki vera gengið neitt á jörðina að því leyti, sem hún er nú notuð af þeim, sem hana sitja.

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa frekari orð um þetta frv., en eins og ég sagði áðan, þá mælir n. með, að þetta frv. verði samþ.