02.04.1971
Neðri deild: 82. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

241. mál, sala hluta af landi jarðinnar Dysja og jarðarinnar Háagerðis

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Við höfum leyft okkur að bera fram brtt., og þær eru fluttar af öllum þm. Norðurl. e., sem eiga sæti í hv. d. Brtt. eru þannig, með leyfi forseta: „1. Á eftir 1. gr. komi ný gr. svo hljóðandi: Ríkisstj. er heimilt að selja Dalvíkurhreppi jörðina Háagerði í Dalvíkurhreppi. Náist ekki samkomulag um kaupverð, skal það ákveðið að mati dómkvaddra manna. 2. Við fyrirsögn bætist: og Dalvíkurhreppi jörðina Háagerði í Dalvíkurhreppi.“ En ég vil benda hv. alþm. á það, að það hefur fallið út orðið „Dalvíkurhreppi“, þegar þetta var prentað, og bið ég menn að athuga það. Það á að koma þarna: „Við fyrirsögn bætist: og Dalvíkurhreppi jörðina Háagerði í Dalvíkurhreppi.“ Ástæðan fyrir því, að við berum fram þessa brtt., er sú, að það barst ósk frá sveitarstjórn Dalvíkurhrepps mjög seint um, að við flyttum frv. um það, að heimilað verði að selja Háagerði í Dalvíkurhreppi. Við ræddum þetta í hv. landbn., og þetta er flutt í samráði og með samþykki 1. flm. þessa frv. Við skrifuðum Jarðeignadeildinni og landnámsstjóra, og liggur hér fyrir umsögn þeirra, sem ég ætla að leyfa mér að lesa hér upp, með leyfi forseta. Ég les aðeins þann hluta af bréfinu, sem kemur í rauninni málinu við:

„Háagerði liggur norðan Brimnesár næst fjallinu. Þetta er landlítil jörð, sem verið hefur í eyði um langt árabil, en tún og beitiland verið nytjað af Dalvíkingum, lengst af Lárusi Frímannssyni. Í fasteignamati 1939 var jörðin metin á kr. 3900. Háagerði hefur enga möguleika sem bújörð. Ég tel eðlilegt, að Dalvíkurhreppur eignist sem fyrst allt land innan hreppsins og ekki síður, þótt ríkissjóður sé eigandi. Ég mæli því með beiðni hreppsnefndar Dalvíkurhrepps um, að frv. verði flutt, er heimili ríkissjóði að selja jörðina Háagerði.“

Undir þetta skrifar Árni Jónsson landnámsstjóri.

Hér kemur svo bréf undirritað af Sveinbirni Dagfinnssyni. Bréfið er á þessa leið:

„Sem svar við bréfi yðar, hr. alþingismaður, viðvíkjandi erindi sveitarstjórans á Dalvík um sölu á jörðinni Háagerði í Dalvíkurhreppi skal þetta tekið fram:

1. Jörð þessi er mjög landlítil. var hjáleiga frá Ufsum og metin með henni ásamt öðrum hjáleigum í jarðamatinu 1861.

2. Á jörðinni hefur ekki verið búið, síðan bæjarhúsin féllu þar í landskjálftanum 1934. Eftir það var jörðin nytjuð af síðasta ábúanda, Lárusi Frímannssyni, sem andaðist á s.l. ári. Í fasteignamati, sem senn tekur gildi, er Háagerði metið á 39 þús. kr., tún 2 hektarar á 26 þús. kr. og annað land á 13 þús. kr.

3. Það er álit Jarðeignadeildarinnar, að rétt sé að samþykkja heimildarlög til ríkisstj. um sölu þessarar jarðar til Dalvíkurhrepps, ef hreppsnefndin fer fram á það.“

Þar sem þessi svör liggja hér fyrir bæði frá Árna Jónssyni og Sveinbirni Dagfinnssyni, og þeir mæla með sölu þessarar jarðar, vonast ég til, að þessi brtt. okkar verði samþ.