04.03.1971
Neðri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

222. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er flutt, .er samið af nefnd, sem hæstv. landbrh. skipaði hinn 14. okt. 1969. Verkefni nefndarinnar var að endurskoða lög um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum o.fl., með hliðsjón af þál., sem samþ. var á Alþ. hinn 17. maí sama ár. Árangur af starfi nefndarinnar birtist með frv. því, sem hér liggur fyrir til umr., og varð að samkomulagi við hæstv. landbrh., að það yrði flutt af þeim nefndarmönnum, sem sæti eiga í þessari hv. d., en það eru auk mín þeir hv. 5. þm. Austf. og hv. 9. landsk. þm. Auk okkar flm. áttu sæti í nefndinni þeir Árni Jónsson landnámsstjóri og Jónas Jónsson ráðunautur.

Gildandi l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum eru frá 27. apríl 1962. Þá voru, sem kunnugt er, felld undir ein l. starfsemi stofnlánasjóða landbúnaðarins, sem þá hétu Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja, og starfssvið Landnáms ríkisins og þar með Teiknistofu landbúnaðarins. Síðan hefur l. verið breytt einum sex sinnum, en þó oftast varðandi ákvæði, sem snerta einstaka fjármagnsliði.

Sá hluti l., sem fjallar um Landnám ríkisins, er miklu eldri og sækir meginstofn sinn í l. um Landnám ríkisins frá 27. júní 1941 og l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum frá 29. apríl 1946. Áður höfðu þó verið sett l., sem lutu að skyldum verkefnum og lita má á sem undanfara ýmissa lagaákvæða um Landnám ríkisins, en það eru l. um Byggingar- og landnámssjóð frá 7. maí 1928 og l. um nýbýli og samvinnubyggðir frá 1. febr. 1936. Þó að ýmsar veigamiklar breytingar hafi verið gerðar frá upphafi á þeim ákvæðum l., sem fjalla um Landnám ríkisins, er þó mikið al efni þeirra með sama orðalagi og bundið sömu markmiðum enn þann dag í dag og þegar grundvöllurinn var lagður að þessari lagasetningu fyrir um það bil 30 árum. Á þessu tímabili frá því um 1940 hafa, sem kunnugt er, orðið meiri breytingar — meiri bylting — í búnaðarháttum þjóðarinnar sem og í lífsháttum hennar og lífsskilyrðum á öðrum sviðum en á nokkru tímabili öðru. Framan af þessu tímabili sýndist mörgum, að landrými væri slíkt í sveitum, að þar mætti allt eins hafa tvö til þrjú býli á hverri jörð eins og eitt og hagsæld sveitanna væri undir því komin, að bújörðum fjölgaði stórlega og þar með, að bændurnir væru sem flestir, enda þótt af því hlyti að leiða, að þeir byggju smærra en ella. Á þessu sjónarmiði hefur byggzt sú mikla hvatning, sem frá upphafi hefur verið fólgin í l. til skiptingar jarða og stofnunar nýbýla auk þess sem Landnámið sjálft hefur gert nokkuð af því að kaupa jarðir og stofna á þeim byggðahverfi þriggja til fimm býla í þyrpingu. Sem betur fer, hefur sums staðar verið það landrými að hafa, að jarðir hafa þolað skiptingu og tvö lífvænleg býli risið, þar sem áður stóð eitt. Á hinn bóginn sjást þess og merki, að of langt hefur verið gengið í þessum efnum og skipting jarðar reynzt hemill á afkomumöguleika viðkomandi bænda, og því orðið til óþurftar í framkvæmd. Í vaxandi tæknibúnaði bænda á síðustu árum er bundið mikið fjármagn. Þessi tæknibúnaður gerir kleift að nýta miklu stærra land en áður var unnt nema þá með slíkum fjölda fólks, sem enginn leggur upp með til búrekstrar í dag. En þessi tæknibúnaður krefst um leið stærri búa, bagkvæmari búrekstrar og meiri arðsemi búpenings og jarðar en áður tíðkaðist, svo að staðið verði undir því fjármagni, sem í hann hefur verið lagt. Þá hefur og hið kólnandi veðurfar síðustu ára haft í för með sér aukna þörf fyrir landrými vegna þess, hve dregið hefur úr grassprettu bæði á ræktuðu og óræktuðu landi.

Ákvæði frv., er að þessum efnum lúta, eru því byggð á þeirri skoðun flm. og nefndarinnar í heild, sem frv. samdi, að fjölgun býla sé ekki lengur það meginatriði, sem stefna beri að, heldur hitt að treysta þá byggð, sem fyrir er, og vinna að sem hagfelldastri þróun hennar í þeim tilgangi að skapa skilyrði fyrir hagkvæmari búrekstur og öruggari afkomu bænda.

Frv. þetta felur í sér mörg nýmæli. Nokkrir kaflar þess eru alger nýsmíði, en flestir aðrir eru að meginhluta endursamdir. 11. kafli frv. er þó að mestu leyti óbreyttur, þó að ýmsar minni háttar breytingar séu gerðar frá því, sem nú gildir. Ég mun nú í stuttu máli gera grein fyrir þeim höfuðbreytingum, sem fram koma í einstökum köflum frv. og grípa þó einungis á því helzta, því að eigi er unnt að rekja hverja gr. frv., en þær eru nálægt 80.

Í I. kafla frv. er markaður höfuðtilgangurinn með l. þessum. Þar er að því vikið, að tilgangur þessara l. sé að efla íslenzkan landbúnað og treysta byggð í sveitum landsins, m. a. með því að styðja aukna og fjölþættari ræktun og nýtingu uppskerunnar, byggingar og tæknibúnað í sveitum og hagkvæmt skipulag byggðar. Með þessu er þegar horfið frá því stefnumiði, sem var og er enn eitt höfuðatriðið í gildandi l., sem sé það að skipta jörðum, fjölga býlum og ná fram hagkvæmni í landbúnaði í samræmi við það. Nú er horfið að því, eins og áður segir, að vinna að sem hagfelldastri þróun byggðarinnar. Jafnframt er horfið frá því, sem fram kemur í þessum kafla í gildandi Íögum, að sérstaklega sé leitazt við að hafa áhrif á stækkun túna á þeim jörðum, sem skemmst eru á veg komnar með ræktun. Að þessum atriðum sem og öðrum þeim stefnumiðum, sem fram koma í þessum kafla, er vikið í einstökum köflum frv. hér á eftir og þar nánar skilgreint.

Eins og áður sagði, er II. kafli frv. lítið breyttur efnislega. Hann er mun nýrri en aðrir hlutar l., en þar er þó um nokkrar orðalagsbreytingar að ræða og einnig fáeinar efnisbreytingar. Í 6. gr. frv., þar sem vikið er að þeim verksviðum, sem Stofnlánadeildin lánar til, er bætt við, að lána skuli til vatnsveitna og varmaveitna. Þetta er ekki í I. enn þá, en Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur síðustu tvö árin tekið upp lánveitingar til þessara verkefna. Einnig er sagt, að veita skuli lán til grænfóðurverksmiðja. Niður er aftur fellt, að Stofnlánadeildin láni til ullar- og skinnaverksmiðja, sem eðli sínu samkvæmt heyra til iðnaðar og Iðnlánasjóður lánar til. Ég sé ekki ástæðu til þess að víkja frekar að þessum kafla. Eins og ég sagði áðan, er hann mun minna breyttur en aðrir hlutar frv.

III. kafli fjallar um stjórn landnámsmála. Þar eru dregnir saman í einn kafla allir þættir, er varða stjórn Landnáms ríkisins. Þar kemur fram sú breyting m.a., að stjórn landnámsmála, sem til þessa og í gildandi l. nefnist nýbýlastjórn, er í frv. nefnd landnámsstjórn með hliðsjón af því, að stofnun nýbýla er ekki lengur neitt höfuðmarkmið í þessu lagafrv.

Í IV. kafla frv. er vikið að verksviðum Landnáms ríkisins. Þar eru talin upp í töluliðum höfuðverkefni þess. Einnig er þar í 29. gr. vikið að því, að landnámsstjóri skuli eftir því, sem við verður komið, láta gera uppdrætti af sveitum landsins, þar sem fram komi landamerki einstakra jarða og flokkun lands þeirra með tilliti til notagildis til ræktunar og beitar. Þetta er ekki nema að litlu leyti nýmæli, en jafnframt ber eigi að líta svo á, að þetta verk skuli unnið þegar í stað. Hér er um það mikið verkefni að ræða, að það hlýtur að verða að vinnast eftir því, sem föng eru á, og taka nokkurn tíma. Í síðari mgr. sömu gr. er stefnumótandi atriði varðandi það, að þar er Landnámi ríkisins falið að hafa frumkvæði að gerð till. um skipulag byggðar, þar sem enn fremur er þó leitað umsagnar nokkurra aðila, þ.e. viðkomandi sveitarstjórna, landnámsnefnda, sem eru nefndir, sem ætlað er, að séu í hverri sýslu og vera skulu landnámsstjórn til aðstoðar um framkvæmd l., einnig Búnaðarfélags Íslands og Byggingastofnunar landbúnaðarins. Við þá tillögugerð sé leitazt við að hafa að leiðarljósi að meta afkomuöryggi og framtíðarmöguleika þeirra jarða fyrst og fremst, sem fyrir eru í sveitinni, svo og sveitarfélagsins í heild og þá um leið, hvort ætla megi, að náð verði meiri hagkvæmni með samruna jarða, endurbyggingu eyðijarða og stofnun nýbýla eða með því að stuðla að félagsræktun fyrir fleiri eða færri býli, sem í sveitinni eru. Þessi mgr. er algert nýmæli. Þar er, eins og ég þegar hef rakið, vikið að því frumkvæði, sem Landnámi ríkisins er ætlað að hafa í skipulagsmálum byggðar í sveitum, en þar er þó engu slegið föstu um það, að þó að horfið sé frá því meginstefnumiði, sem verið hefur í l., að stofna nýbýli og fjölga jörðum, geti nýbýlastofnanir eigi að síður átt sér stað, ef talið er, að það sé til hagsbóta fyrir byggðina í heild.

Í V. kafla frv. er fjallað um byggðahverfi. Byggðahverfi er, eins og það er skilgreint í frv., minnst þrjú býli, sem reist eru á landi, sem er í eigu hins opinbera. Um eitt skeið var stofnun byggðahverfa eitt af hinum veigameiri verkefnum Landnáms ríkisins. Eftir gildandi l. er Landnáminu skylt að rækta 25 hektara á hverju býli í byggðahverfi og sjá um, að reistar séu byggingar við hæfi þess búrekstrar, sem ætlað er að reka á býlunum. Hér er fallið frá þessu. Í frv. er ekki gert ráð fyrir því, að Landnám ríkisins taki á sig neinn beinan kostnað við framkvæmdir í byggðahverfum, og kemur það heim og saman við þá stefnu frv., að allir bændur hafi jafnan rétt til framlaga og aðstoðar eftir þessum l., hvort sem þeir búa á býlum í byggðahverfi, á nýbýlum eða á öðrum lögbýlisjörðum. Þá er og að því vikið í þessum kafla, að landnámsstjórn skal taka ákvörðun um framtíð býlis í byggðahverfi, ef það losnar úr ábúð. Landnámsstjórn hefur með öðrum orðum heimild til að ákveða, að býli í byggðahverfi skuli lagt niður og sameinað nágrannabýli eða nágrannabýlum, ef það telst styðja þá stefnu, sem mörkuð er í 29. gr. frv. og ég hef þegar lýst, enda sé talið, að það sé til heilla fyrir byggðarlagið í heild og verði til þess að tryggja búsetu og búrekstrarskilyrði þeirra bænda, sem á þeim jörðum eru. Kafli þessi er mikið styttur frá því, sem er í gildandi l., enda var sú skoðun uppi í nefndinni, að ástæðulaust væri að vænta þess, að mikið yrði um stofnanir byggðahverfa í framtíðinni. Þess ber þó og að geta, að þar sem samningar hafa verið gerðir um framkvæmdir Landnáms ríkisins í byggðahverfum, verður þeim að sjálfsögðu lokið svo sem samningar segja fyrir um, hvað sem líður gildistöku þessa lagafrv.

Þá er og í þessum kafla að því vikið, að Landnámi ríkisins sé heimilt að rækta eða láta rækta land, sem það hefur umráð yfir, ef ástæða þykir til að dómi landnámsstjórnar. Landnám ríkisins á nokkurt vélaúthald af þungavinnu- og jarðvinnsluvélum. Þessi vélakostur hefur litt verið endurnýjaður á hinum síðari árum og hann því frekar dregizt saman en hitt, enda hafa verkefni í byggðahverfum og annars staðar, eins og ég þegar hef drepið á, dregizt nokkuð saman á undanförnum árum. Til umr. var í endurskoðunarnefndinni, að ástæða væri til að fella í lög ákvæði um það, að vélakostur Landnáms ríkisins skyldi sameinaður vélaúthaldi Vélasjóðs ríkisins. Upplýst var, að til umr. er að stofna svo nefnda vélamiðstöð ríkisins, þar sem þungavinnuvélaúthald þessara fyrirtækja og ýmissa annarra ríkisstofnana yrði sameinað undir eina stjórn og í eitt fyrirtæki. Meðan á þeim umr. stendur, þótti ekki rétt að hreyfa því á annan hátt.

Í VI. kafla frv. eru ákvæði um nýbýli utan byggðahverfa. Eins og ég hef þegar tekið fram, þá er þó ekki loku fyrir það skotið í þessu frv., að nýbýli séu stofnuð, þó að stofnun nýbýla sé ekki lengur slíkt stefnumið í þessu frv. sem í gildandi l. Hins vegar eru sett fram nokkru strangari skilyrði, til þess að þau fáist viðurkennd, en nú er gert. Er þar gert ráð fyrir, að til þess að stofnun nýbýlis fáist viðurkennd, sé ræktanlegt land að jafnaði eigi minna en 100 hektarar, nema í staðinn komi beitilönd eða hlunnindi til lands og sjávar. Þá þarf einnig að taka til athugunar, að stofnun nýbýlis raski ekki búrekstraraðstöðu þeirra jarða, sem liggja þar í nánd. Þetta allt hangir saman við meginstefnu frv., þ.e. að hugsa fyrst og fremst um að tryggja þá byggð, sem fyrir er, og um það, að búrekstraraðstaða og afkomumöguleikar þeirra bænda, sem búa í hverju byggðarlagi, séu sem traustastir.

Í VII. kafla frv. er rætt um ábúð, sameiningu jarða, endurbyggingu eyðijarða og ráðstafanir til að koma í veg fyrir, að góðar bújarðir fari í eyði. Þar er í fyrsta lagi ákvæði um það, að landnámsstjórn láti árlega gera jarðaskrá fyrir allt landið, og til þess að það verði gert, þarf hún að fylgjast með ábúð jarða í landinu. Þetta er ekki nýmæli. Landnám ríkisins hefur haldið slíka jarðaskrá og gert yfirlitsskýrslu um allar jarðir eigi sjaldnar en á 5 ára fresti, og er gert ráð fyrir, að svo sé enn. Þá er að því vikið, að sé lögbýlisjörð eitt ár eða meira í eyði, þá telst hún eyðijörð samkv. þessum l., enda þótt nágrannar eða aðrir hafi hana til nytja, eigi þeir þar ekki lögheimili. Þá er ákvæði þess efnis, að samþykki landnámsstjórnar þurfi til að eyðijörð, sem endurbyggð er, njóti framlaga og lána eftir l. þessum. Sama máli gegni um jarðir, sem losna úr ábúð og byggjast ekki með eðlilegum hætti. Með þessu er Landnámi ríkisins gefinn kostur á að segja til um það, hvort það fari saman við skipulagstillögur landnámsstjórnar að endurbyggja eyðijörð eða sameina hana nágrannajörð eða nágrannajörðum, og hefur landnámsstjórn ákvörðunarvald um, að lán og framlög eftir lögum þessum séu í samræmi við það. Upplýsingar um, hvert sé álit Landnáms ríkisins í slíkum tilvikum, þarf, hvenær sem er, að geta legið fyrir. Þá er og í þessum kafla heimild fyrir Landnám ríkisins til að veita sérstök framlög til þess að sporna við því, að góðar bújarðir, sem þýðingarmikið telst að halda í byggð og bjóða upp á næga búrekstrarmöguleika að dómi þess, leggist í auðn. Á það er að líta, að slíkar opnar heimildir til framlaga eru vandmeðfarnar í framkvæmd, því að framlag í einu slíku tilviki kann að draga á eftir sér slóða margra umsókna, sem gætu í mörgum tilvikum orkað tvímælis og ýmsar þeirra alls ekki átt við. En opin heimild um slík framlög er í 53. gr. gildandi l., og hún getur í mörgum tilfellum verið mjög nauðsynleg.

Þá eru í VIII. kalla tekin upp ákvæði um félagsbúskap og félagsræktun. Þar er stefnt að því að færa í lög skilyrði, sem fullnægja þarf til þess að stofnun félagsbúa hljóti viðurkenningu Landnáms ríkisins, og einnig að því að setja ákvæði, sem fullnægja þarf til þess, að félagsræktun fáist viðurkennd og framlög fáist út á hana samkv. því. Það er rétt að geta þess þegar, að eftir þessu frv. er gert ráð fyrir því, að framlög út á alla ræktun séu jöfn án tillits til stærðar ræktunarlands hjá hverjum bónda og eins án tillits til þess, hvort um er að ræða ræktun hjá einstaklingi eða félagssamtökum.

Þá er í IX. kafla ákvæði um endurræktun túna og ræktun einærra fóðurjurta. Ákvæði þessa kafla ber fyrst og fremst að lita á sem viðbrögð við hinu kólnandi veðurfari síðustu ára. Á undangengnum kalárum hala tún, sem kunnugt er, stórspillzt og gróa sum seint og illa upp aftur. Endurræktun er því í mörgum tilfellum mjög nauðsynleg, og er hér að því vikið, að Landnámið veiti framlög til þess að styðja slíka endurræktun með sama hætti og aðra ræktun á bújörðum þó eigi oftar en með þriggja ára millibili, ef sama land kelur eða eyðist af gróðri hvað eftir annað. Þá er gert ráð fyrir í þessum kafla, að Landnám ríkisins veiti á árunum 1972–1976 tímabundið framlag til einærrar ræktunar eða grænfóðurræktunar eins og til annarrar ræktunar á bújörðum eða allt að 3 þús. kr. á hektara. Á undanförnum kulda- og kalárum er það kunnugt, að uppskera hefur í mörgum tilvikum brugðizt meira og minna á ræktunarlöndum, og það ráð, sem bezt hefur gefizt til þess að mæta þessum vanda, er ræktun grænfóðurs. Verður að telja, að það sé meðal hinna þýðingarmeiri nýmæla í þessu frv. að styðja slíka ræktun miðað við það veðurfar, sem yfir okkar land hefur gengið á undanförnum árum. Ef svo heldur fram um árferði, þá má vænta þess, að bændur geri þennan þátt ræktunar að mun meiri hluta í ræktunarstarfi og fóðuröflun sinni en verið hefur hingað til, og er ástæða til þess að styðja við það. Bregði aftur til hins betra um árferði, þá ætti að draga úr þessari þörf, og því er það, að framlag þetta er haft tímabundið við 5 ár, enda er, þegar sá tími kemur, auðvelt að framlengja eða endurskoða þetta ákvæði l. miðað við þá reynslu, sem fengizt hefur.

Í X. kafla frv. er fjallað um varmaveitur á sveitabýlum, notkun jarðhita til heyþurrkunar, grænfóðurverksmiðjur o.fl. Þar ber að geta þess, að prentvilla er í frv., þ.e. að grænfóðurverksmiðjur eiga að vera þarna í fleirtölu, en eru í frv. í eintölu. Sama prentvilla er í 6. tölul. XI. kafla, og ber að leiðrétta hana.

Í þessum kafla eru tekin upp heimildarákvæði til Landnáms ríkisins um það að veita framlög til notkunar jarðvarma á sveitabæjum bæði til hitaveitna í íbúðarhús og eins til þess að nota jarðvarma til heyþurrkunar, ef tilraunir kynnu að leiða í ljós, að slíkt væri hagkvæmt. Virkjun jarðvarma er oft og tíðum kostnaðarsöm, og er þýðingarmikið að taka hér upp heimildir til þess, að Landnámið veiti þarna stuðning. Slík heimild er þó ekki bundin við ákveðna upphæð, heldur verður landnámsstjórn að meta það hverju sinni eða skapa sér reglur þar um.

Þá er í þessum kafla vikið að grænfóðurverksmiðjum, en grænfóðurverksmiðja er hér látin tákna hvers konar verksmiðjur, sem hraðþurrka gras eða grænfóður. Framleiðsla grænfóðurverksmiðja, sem í gangi hafa verið hér á landi til þessa, hefur gefið góða raun, og virðist vera rík ástæða til þess að efla þessa starfsemi. Með því er fyrst og fremst stefnt að því að efla fóðurframleiðslu í landinu sjálfu, en framleiðslu grænfóðurverksmiðja eða fyrst og fremst hinna svo kölluðu heyköggla má í mörgum tilvikum nota einvörðungu í staðinn fyrir aðflutt kolvetnafóður, sem keypt hefur verið til landsins fyrir of fjár á síðustu árum. Innflutningur fóðurvara hingað til lands nam á síðasta ári 340 millj. kr., og þó er eigi í þeirri upphæð með talið ómalað korn, sem er inni í lið um aðrar korntegundir. Eigi skal ég um það segja, að hve miklu leyti unnt væri að koma í veg fyrir fóðurinnflutning með framleiðslu grænfóðurverksmiðja. Þó hef ég hitt menn, sem hafa þekkingu á þessum hlutum og lita svo á, að það mætti koma í veg fyrir slíkan innflutning um allt að 85%. Sést þá, að hér er um mjög þýðingarmikið atriði að ræða. Í þessum kafla er að því vikið, að landnámsstjórn skuli með samþykki landbrh. gera áætlun um, hve margar grænfóðurverksmiðjur sé hyggilegt að stofna í landinu, og um staðarval þeirra. Þá er og í þessum kafla að því vikið, að þó að gert sé ráð fyrir því, að grænfóðurverksmiðjur séu yfirleitt fjármagnaðar af Landnámi ríkisins, þá séu einnig heimildir til þess, að Landnámið styrki stofnun grænfóðurverksmiðja, sem reistar eru af félagssamtökum bænda. Verulegur hluti af þessu frv. eða þeir hlutar þess, sem fjalla um stuðning við ræktun almennt og grænfóðurverksmiðjur, miða að því að efla innlenda fóðuröflun. Það eru búvísindi, sem gilt hafa á öllum öldum og hafa ekki brugðizt til þessa, að hver sá bóndi, sem hefur nægilegt heyfóður, hefur allajafna góða afkomu. Á sama hátt eru það búvísindi, sem jafnlengi hafa gilt, að heyleysi er ævinlega undanfari fátæktarinnar. Þess vegna er það ákaflega mikilsvert atriði að stuðla svo að innlendri fóðuröflun með ræktun og með stofnun grænfóðurverksmiðja, að fóðurskorturinn verði rekinn á dyr úr okkar landi og bændur í sveitum landsins þurfi ekki að sjá framan í þann vágest framvegis.

Í XI. kafla frv. er fjallað um framlög Landnáms ríkisins til einstakra framkvæmda. Í 1. lið er þar rætt um framlög Landnáms ríkisins til íbúðarhúsabygginga í sveitum. Samkv. gildandi l. veitir Landnám ríkisins allt að 60 þús. kr. til byggingar íbúðarhúsa og jafnframt allt að 10% til endurbyggingar á íbúðarhúsum í sveitum, þó aldrei yfir 60 þús. kr. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að hækka þetta framlag upp í 120 þús. kr., sem veitist með sömu reglum og fyrr hefur verið gert. Lán til íbúðarhúsa í sveitum er nú frá Stofnlánadeild landbúnaðarins 450 þús. kr. Lán og framlag samkv. þessu frv. væri því 570 þús. kr. Lán frá Húsnæðismálastofnun ríkisins er nú 600 þús. kr. Þarna munar 30 þús. kr. Ætla verður, að Búnaðarbanki Íslands taki lánareglur um lán til íbúðarhúsa í sveitum til endurskoðunar og sjái um, að íbúðarhús hjá bændum njóti eigi minni lánafyrirgreiðslu en gerist annars staðar. En um hámark slíkra lána er ekki fjallað í þessum lögum. Það atriði að veita sérstök framlög til byggingar íbúðarhúsa í sveitum er m.a. hægt að rökstyðja með því, að byggingar í sveitum seljast ekki á frjálsum markaði með sama hætti og álíka mannvirki í þéttbýlinu, þannig að hverju sinni, sem bóndi selur eignir sínar í sveit, þá má vænta þess, að hann verði að sæta lægra verði en hann hefur í þessi mannvirki lagt. Þessu er yfirleitt öfugt farið í þéttbýli, og er ástæða til þess, að þjóðfélagið veiti þarna sérstakt framlag til þess að koma nokkuð til móts við það fjárhagslega tjón, sem bændur mega búast við að þurfa að taka á sig í slíkum tilvikum. Spursmálið er þó ævinlega með slík framlög, hvað þau eigi að vera há, og kemur þar til, að erfitt er að girða fyrir það, að nokkur hætta geti verið á því, að þeir, sem ekki er hægt að segja, að hafi beina þörf fyrir slík framlög, fái þau eigi að síður. Fjárhæð slíkra framlaga er, eins og ég hef þegar sagt, alltaf nokkurt álitamál, en þetta varð niðurstaða nefndarinnar. Hún er sammála um að leggja þetta til, enda þótt einstakir nefndarmenn hefðu kosið eitthvað annað.

Í 2. tölul. þessa kafla er fjallað um heimildir fyrir landnámsstjórn að veita framlög til þess að styðja þá stefnu frv., sem fjallar um hagkvæmni í þróun byggðar, og er ekki ástæða til þess að rekja það frekar hér.

Þá er lagt til að hækka framlög til byggingar gróðurhúsa úr 60 kr. á fm. í 120 kr. á fm eða um 100%. Nú er byggingarkostnaður í gróðurhúsum talinn vera um 2400 kr. á fm, svo að þó að hér sé um 100% hækkun að ræða á framlagi, þá dregur það ekki mjög langt í þeim byggingarkostnaði, sem gróðurhúsaeigendur verða að sæta.

Þá er eftir þessu frv. gert ráð fyrir því, að Landnám ríkisins greiði allt að 3 þús. kr. á hektara í ræktun, mishátt að vísu eftir tegund ræktunarlands. Það er mun dýrara að rækta mýri en sanda og hefur verið gerður mismunur á framlagi í samræmi við það. Hins vegar eru ekki í þessu frv. takmarkanir á þessu framlagi miðað við stærð ræktunarlands hjá hverjum bónda, eins og til þessa hefur verið. Eftir gildandi l. veitir Landnámið slíkt framlag, þar til 25 hektara túnstærð er náð á hverju býli, en ekkert, eftir að því marki er náð. Ætlunin var að veita með slíku sérstöku framlagi á hinum smærri býlum sérstakan stuðning við þá, sem dregizt höfðu aftur úr við ræktun, og flýta því, að lífvænlegri búskaparaðstöðu yrði náð. Í þessu hefur vissulega verið veruleg hjálp fólgin fyrir hina smærri bændur og hefur í ýmsum tilvikum borið tilætlaðan árangur, en þetta hefur þó valdið ýmsum erfiðleikum í framkvæmd, og af þessum sökum hefur borið á verulegri tilhneigingu til skiptingar á jörðum, sem í mörgum tilvikum hefur verið óeðlileg. Þetta framlag var í fyrstunni bundið við 10 hektara hámark, síðan var það fært upp í 15 hektara og nú í gildandi I. 25 hektara, eins og áður sagði. Sumir bændur hafa af þessum sökum ævinlega verið rétt á undan þeim stærðarmörkum, sem þarna er um rætt, og hafa því einskis notið af þessu framlagi. Það er skoðun okkar, sem að þessu frv. stöndum, að hér sé um mikilsvert atriði að ræða að greina ekki þarna á milli bænda eftir stærð ræktunarlanda, og við höfum af þeim sökum, svo að meiri líkur væru til þess, að við næðum því fram, ekki lagt til að hækka þetta framlag á einingu nú. Framlög til ræktunar eru einnig greidd, eins og kunnugt er, eftir jarðræktarlögum, og eru eftir því, sem nú gildir, frá 5700 kr. til 9676 kr. á hektara í túnum undir 25 hektara túnstærð, en frá 2400 kr. til 6377 kr. á þeim túnum, sem eru yfir 25 hektara túnstærð, og kemur þarna fram, að enn er eftir jarðræktarl. gerður mismunur á jarðræktarframlagi eftir túnstærð, og sýnist eigi ástæða til þess að gera það lengur eftir þessum l. Þá eru og, eins og ég hafði þegar vikið stuttlega að, veittar allt að 3 þús. kr. á hektara til endurræktunar túna til grænfóðurræktar og á nýrækt í félagsræktun eða ræktun í sveitum, og er sama, hvaða búskaparform valið er.

Til virkjunar jarðvarma, sem áður er vikið að, er um opna heimildargr. að ræða, og má vænta þess, að landnámsstjórn setji um það reglur, hvað slík framlög megi vera hæst. Þá er og í þessum kafla lagt til að leggja fram fé til stofnunar grænfóðurverksmiðja eigi minna en kr. 7.5 millj. kr. á ári.

Í 63. gr. er vikið að framlagi ríkissjóðs til Landnáms ríkisins miðað við auknar skyldur og breytt verðlag frá þeim tíma, er þessu framlagi var síðast breytt. Þar er gert ráð fyrir því, að landnámsstjórn geri árlega áætlun um fjárþörf Landnámsins og leggi þá áætlun fyrir fjárlaga- og hagsýslustofnunina og fjvn., áður en fjárl. eru afgreidd. Þessi fjárhæð skal þó eigi vera minni en 53.3 millj. kr. í fyrsta sinni árið 1972. Sú fjárhæð er fundin út í samræmi við áætlun, sem Landnám ríkisins gerði fyrir það ár. E.t.v. væri ástæða til þess að víkja að einstökum liðum í þeirri áætlun, en ég mun nú ekki geta nema þeirra stærstu. Til nýræktar er áætlað að verja 13.5 millj. kr., til nýbygginga og endurbyggingar íbúðarhúsa 12 millj. kr., til grænfóðurræktar 7.5 millj. kr., til grænfóðurverksmiðja 7.5 millj. kr. og til rekstrarkostnaðar Landnáms ríkisins, sem taka verður af þessu fé, eru áætlaðar 6 millj. kr.

Þá eru í XII. kafla frv. ákvæði um Byggingastofnun landbúnaðarins, sem eftir gildandi l. ber heitið Teiknistofa landbúnaðarins. Lagt er til að breyta nafni Teiknistofunnar, vegna þess að eftir þessu frv. eru störf unnin á teiknistofu ekki lengur talin vera aðalatriði í störfum stofnunarinnar, heldur alhliða störf á sviði byggingamála landbúnaðarins. Í þessum kafla kemur og fram, að aukið er verksvið Byggingastofnunarinnar og dregnir saman í eina gr. höfuðþættir þess. Á verksviði hennar er m.a., svo sem verið hefur, að samþykkja uppdrætti að mannvirkjum, sem lán er veitt til úr Stofnlánadeild. Gert er ráð fyrir, að stofnunin gefi út upplýsingarit með almennum leiðbeiningum um byggingar og fyrirkomulag þeirra. Slík útgáfa upplýsingarita ætti að vera mjög veigamikill þáttur í starfi Byggingastofnunar landbúnaðarins. Slík rit þurfa að innihalda ýmsar tæknilegar upplýsingar um byggingu útihúsa til sveita, einnig upplýsingar um alla þá möguleika, sem þekktir eru í fyrirkomulagi gripahúsa, svo og nákvæmar teikningar af innréttingum, svo sem básum, görðum og fleiru þvílíku. Ekki er ástæða til að eyða fleiri orðum að því, að slík upplýsingarit geta haft verulega þýðingu. Þá er og að sjá bændum fyrir hentugum teikningum af mannvirkjum og húsum til sveita, svo sem verið hefur til þessa. Einnig að fylgjast með innlendum og erlendum nýjungum á svíði húsagerðar og rannsaka þær og gera tilraunir með, hversu þær muni henta við okkar aðstæður. Gæta þarf þess sérstaklega, að slíkar nýjungar, sem fengnar eru erlendis frá, eiga fæstar við okkar staðhætti ómeltar, heldur verður að gera á þeim sérstakar athuganir og laga þær að okkar aðstæðum. Þá er stofnuninni falið að vinna í samráði við Landnám ríkisins sbr. það, er um getur í 29. gr. þessa frv., að tillögugerð um skipulag og þróun byggðar og enn fremur að gera áætlanir og skipulagsuppdrætti fyrir byggingar í sveitum og gefa ráðleggingar um fjárfestingu. Á þessu sviði er brýn nauðsyn, að Byggingastofnunin geti unnið verulegt starf, því að með því að skipuleggja fjárfestingu í byggingum sveitabæja nokkur ár fram í tímann ætti að mega komast hjá því, sem oft hefur borið við, að um ótímabærar og vanhugsaðar byggingaframkvæmdir sé að ræða annars vegar vegna ónógra eða litilla upplýsinga um, hvað ætla mætti, að hentugast væri, svo og vegna seinnar afgreiðslu lána. Með aðstoð Byggingastofnunar ríkisins mætti ætla, að komið yrði betra skipulagi á þessi mál. Bændur gætu þá einnig gert sér ljósari grein fyrir því, hvaða fjármagn þeir geta bundið í framkvæmdum í náinni framtíð.

Þá er í frv. þessu gert ráð fyrir því, að Byggingastofnunin setji byggingafulltrúum erindisbréf í samráði við sýslunefndir. Byggingafulltrúar til sveita starfa á vegum sýslunefnda og Stofnlánadeildar landbúnaðarins sem umboðsmenn Stofnlánadeildar við úttekt bygginga, en þeir hafa á engan hátt verið tengdir þessum l. Talið er eðlilegt, að þeir aðilar, sem greiða byggingafulltrúum laun, hafi samráð um það að setja þeim erindisbréf og starfsreglur.

Þá er hér í 69. gr. nýmæli, sem fjallar um það, að Byggingastofnun landbúnaðarins sé heimilað að selja þjónustu sína gegn vægu gjaldi og mynda með því sjóð, sem hafi það markmið að veita framlög til framkvæmda á nýjum hugmyndum um gerð og fyrirkomulag gripahúsa eða útihúsa í sveitum. Það hefur valdið Byggingastofnuninni talsverðum erfiðleikum að geta ekki styrkt nýjar hugmyndir, sem koma fram í byggingum gripahúsa, með fjárframlagi. Það er í hæsta máta hægt að telja óeðlilegt, að bændur taki í sífellu á sig áhættuna af nýjum hugmyndum, sem fram koma um byggingar og fyrirkomulag þeirra, án þess að fá einhvern fjárhagsstuðning. Gjald það, sem hér er farið fram á, að heimild fáist til að taka fyrir þessa þjónustu, er hugsað lágt. Það er á svipuðum grundvelli byggt og gjald Húsnæðismálastofnunarinnar fyrir teikningar sínar. Um starfsemi slíks sjóðs og framkvæmd þessarar gr. þarf að setja reglugerð, ef frv. þetta nær að verða að l. Svo er og um ýmis fleiri ákvæði frv., sem ekki er ástæða til þess að fara út í.

XIII. og XIV. kaflar frv. um viðhaldsskyldu o.fl. og ýmis ákvæði eru efnislega ekki mikið breyttir. Þeir eru styttir og færðir að orðalagi í samrætni við það, sem betur sýnist fara, og ekki ástæða til að víkja mikið að þeim. Þó segir hér í ákvæðum til bráðabirgða, að Landnámi ríkisins sé heimilt að greiða á árinu 1972 framlög samkv. l. þessum, ef afgreiðslu ná, vegna framkvæmda, sem teknar eru út á árinu 1971. Þá er við það miðað, hvenær framkvæmd er tekin út, en ekki, hvenær framkvæmd er hafin eða hvenær henni var lokið.

Ég hef þá lokið við að fara yfir einstaka kafla frv. Í grg., sem frv. fylgir, eru dregin saman helztu nýmæli og helztu breytingar, sem fram koma í frv., og er rétt að rekja þær hér:

1. Horfið er frá því stefnumiði að skipta og fjölga bújörðum í landinu.

2. Landnámi ríkisins falið frumkvæði til áhrifa á hagfellda þróun byggðar í sveitum, m. a. með:

a) Tillögugerð í samráði við aðra aðila um hagkvæmt skipulag byggðar.

b) Heimild til að veita framlag til sameiningar jarða.

c) Heimild til að synja um framlög og lán til endurbyggingar á eyðijörðum, teljist það treysta byggðina betur að ráðstafa þeim á annan hátt, t.d. sameina þær nágrannajörðum.

d) Ráðstöfunarrétti yfir býlum, sem losna úr ábúð í byggðahverfum.

e) Heimild til að veita sérstök framlög til að treysta búsæld á jörðum, sem þýðingarmikið telst að halda í byggð.

3. Landnám ríkisins hættir að rækta ákveðna túnstærð fyrir hvert býli í byggðahverfum og að öðru leyti leggja þar í beinan kostnað við framkvæmdir, utan þess, sem samningar segja fyrir um, við gildistöku þessara laga. Til þessara framkvæmda fór um skeið verulegur hluti af ráðstöfunarfé Landnámsins.

4. Auknar eru mjög þær kröfur, sem gerðar eru um landstærð o.fl., til þess að stofnun nýbýlis fáist viðurkennd. Stofnun nýbýla er ekki lengur einn höfuðþátturinn í tilgangi laganna. Nafni stjórnar Landnáms ríkisins breytt í samræmi við það í landnámsstjórn.

5. Færðar í lög reglur, sem fara þarf að við stofnun félagsbúa og félagsræktunar, svo að viðurkennd verði sem hæf til að njóta framlaga og lána eftir lögum þessum.

6. Tekin upp framlög til endurræktunar kalinna og skemmdra túna, og einnig tímabundið til grænfóðurræktar. Ber að líta á það sem viðbrögð við áhrifum af hinu kólnandi veðurfari síðustu ára.

7. Landnámi ríkisins heimilað að veita framlög til aðstoðar við nýtingu jarðvarma á sveitabæjum.

8. Tekin í lög ákvæði um grænfóðurverksmiðjur. Áætlað að veita eigi minna en 7.5 millj. kr. árlega til stofnunar þeirra á næstu árum. Grænfóðurverksmiðjur í Gunnarsholti og á Hvolsvelli felldar undir þessi ákvæði. Með þessu er m.a. stefnt að aukinni og bættri innlendri fóðuröflun, sem spari innflutning kjarnfóðurs.

9. Greidd verði eftir þessum lögum framlög á alla nýrækt, án tillits til stærðar ræktunarlands hjá hverjum bónda.

10. Hækkuð verði framlög eftir þessum lögum til nýbyggingar og endurbyggingar á íbúðarhúsum og gróðurhúsum.

11. Hækkað verði framlag ríkissjóðs til Landnáms ríkisins í samræmi við breytt verðlag og ný verksvið.

12. Starfssvið Teiknistofu landbúnaðarins verði víkkað og nái m.a. til þess að gera áætlanir og skipulagsuppdrætti fyrir byggingar á sveitabýlum og að vera ráðgefandi aðili á sviði fjárfestingar í sveitum. Nafni Teiknistofunnar breytt í samræmi við það í Byggingastofnun landbúnaðarins.

Frv. þetta er, eins og ég gat um í upphafi, samið af nefnd. Ástæða er til þess að vekja athygli á því og leggja á það áherzlu, að í nefnd þessari náðist samstaða um þær till., sem frv. felur í sér. Einstakir nefndarmenn hefðu þó kosið, að einstök atriði væru á annan veg, en niðurstaða nefndarinnar varð eigi að síður sú, er fram kemur í því frv., sem hér liggur fyrir. Ástæða er þó til þess að vekja sérstaka athygli á því, að alger samstaða var um þau stefnumið, sem þetta frv. felur í sér. Það má þó einnig geta þess, að einstakir nefndarmenn létu uppi skoðanir um nokkru meiri skipulagsbreytingar en hér koma fram á því sviði landbúnaðarlöggjafarinnar, sem þetta frv. snertir og grípur yfir. Má þar nefna, að upp komu raddir um það, að ástæða væri til þess að færa öll ríkisframlög til framkvæmda í sveitum á hendur eins aðila. Sem kunnugt er, eru ríkisframlög greidd út al tveimur stofnunum, Landnámi ríkisins og Búnaðarfélagi Íslands, eftir jarðræktarl. Eigi varð samkomulag innan nefndarinnar um framkvæmd á þessum atriðum. Þá bryddi og á röddum í nefndinni um það, að eðlilegt kynni að verða að fela einni stofnun að hafa yfirstjórn allra jarðeigna ríkisins, en eins og kunnugt er, heyra jarðeignir ríkisins nú undir þrjá aðila, þ.e. Landnám ríkisins, Jarðeignadeild ríkisins og kirkjujarðirnar undir dóms- og kirkjumrn. Eigi varð heldur samkomulag um framkvæmd á þessum atriðum og liggja þau því kyrr. Það kann að vera, að einstökum hv. þm. þætti ástæða til að gera fleiri skipulagsbreytingar í þessum efnum, en telja verður, að það frv., sem hér er lagt fram, feli í sér breytingar, sem auðveldi mjög frekari breytingar á landbúnaðarlöggjöfinni, ef horfið verður að því ráði síðar.

L. þessi hafa frá upphafi haft stórkostlega þýðingu fyrir landbúnaðinn og þar með þjóðina alla, og skal þáttur þess hluta þeirra, sem fjallar um Landnám ríkisins, ekki vanmetinn, hvað þetta snertir. Breytingar eru örar í framrás tímans, og nýir tímar bjóða upp á ný viðhorf. Því ber að fella það niður úr löggjöf sem þessari, sem misst hefur gildi sitt, en taka annað upp, sem fellur að viðhorfum nútímans, og ætla má, að hafi áhrif á þá framvindu, sem framtíðin ber í skauti sér til hagsbóta fyrir þá, sem við eiga að búa. Það er skoðun okkar flm. og þeirra nefndarmanna allra, sem að þessu frv. standa, að breytingar þær og nýmæli, sem í því eru fólgin, feli þetta í sér. Með frv. þessu er að því stefnt, að l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins o.fl. veiti á komandi árum ekki síður en hingað til öflugan stuðning í þýðingarmiklu uppbyggingarstarfi bændastéttarinnar auk þess mikla gildis, sem þau beint eða óbeint hafa fyrir þjóðarbúið í heild.

Ég leyfi mér svo að láta í ljós þá ósk okkar flm. og nefndarinnar í heild, að hv. Alþ. sjái sér fært að haga svo störfum sínum í sambandi við þetta frv., að það nái afgreiðslu þegar á þessu þingi. Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að æskja þess, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.