06.04.1971
Efri deild: 94. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

191. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þetta frv. ásamt hv. 4. þm. Sunnl. En brtt. okkar er um það, að við 3. gr. l. komi nýr tekjuliður, þ.e. 15 millj. kr. framlag úr ríkissjóði, sem beri að leggja fram á ári hverju — eigi minna en 15 millj. kr.

Frv. þetta felur einkum í sér tvær veigamiklar breytingar frá núgildandi löggjöf. Það er í fyrsta lagi, að heimilt verði að veita 50% af árstekjum sjóðsins sem styrk. Í öðru lagi, að styrkur og lán úr sjóðnum megi nema 40% af byggingarkostnaði dvalarheimilis aldraðra. Þar sem frv. þetta felur í sér auknar skyldur fyrir Byggingarsjóð aldraðra, þyrfti, ef það ætti að koma að einhverju gagni, að sjá svo um, að sjóðurinn fengi auknar tekjur, svo að hann gæti sinnt þessum skyldum. En frá því, að sjóðurinn var stofnaður árið 1963 og til 1. júli 1970, hefur eign sjóðsins orðið á þessu tímabili 5.4 millj. kr. eða sem næst 2 millj. kr. á ári frá því, að sjóðurinn fór að hafa tekjur. En því miður virðist það erfitt hlutverk að ætla sjóðnum að lána meira en verið hefur og veita auk þess styrki, nema til komi mikið fjármagn umfram þær tekjur, sem hafa verið ákveðnar með l., og ekki gerir þetta frv. ráð fyrir neinum tekjuviðauka. En þar sem við flm. bæði viðurkennum þörfina á auknum lánum og styrkjum í þessu skyni, þá höfum við lagt fram brtt. við frv. þetta, sem gerir ráð fyrir auknum tekjum sjóðsins og gerir honum því kleift að mæta þessum skyldum, og við vonum líka, að hv. þm. samþykki brtt. okkar, sem er á þskj. 878, því að annars er hætt við, að frv. þetta verði svipað og ávísun, sem gefin er út á innstæðulausan reikning, en tæplega hafa hv. flm. þessa frv. hugsað sér, að svo mundi fara. Ég vil svo biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari till., þar sem hún er of seint fram borin.