05.04.1971
Neðri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Mál það, sem hér liggur fyrir, um breyt. á l. nr. 63 frá 28. mal 1969, um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, hefur verið til umr. hjá heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. Málið er í sjálfu sér einfalt, en þó virðast um það nokkuð skiptar skoðanir. Það eru að sjálfsögðu ekki skiptar skoðanir um það, að almennt er talið bæði al sérfróðum mönnum og öðrum, að sígarettureykingar séu óhollar, svo að um það þarf ekki að deila og verður ekki deilt. Hitt er annað mál, að menn virðist greina á um það, hvort sú breyting, sem hér er lagt til, að gerð verði á þessum l., nái þeim tilgangi, sem til er ætlazt.

Nefndum deildanna, bæði heilbr.- og félmn. Ed. og einnig heilbr.- og félmn. þessarar hv. deildar, hafa borizt margar og allitarlegar umsagnir, og þar að auki hefur hv. Alþingi borizt áskorun frá fjölda forsvarsmanna ýmissa fyrirtækja, þar sem mjög eindregið er lagt til, að þetta frv. verði samþykkt.

N. hafa að sjálfsögðu eftir því, sem aðstaða hefur verið til, kynnt sér, hvaða háttur er á hafður meðal annarra þjóða í þessu sambandi, og liggur það fyrir, eftir því, sem virðist, að aðeins í einu landi hér í Evrópu sé um hreint bann að ræða við auglýsingum á tóbaki. Annars staðar er þetta takmarkað, en aðeins í einu landi, sem okkur er kunnugt um, Ítalíu, er um hreint bann að ræða. Eftir að málið var komið á lokastig í heilbr.- og félmn. þessarar d., þá barst erindi frá Félagi ísl. stórkaupmanna, sem sögðu, að þeim hefði ekki á sínum tíma verið sent málið til umsagnar, en óskuðu eftir að koma á framfæri upplýsingum við n., sem þeir þá höfðu aflað sér. Það var nú aðallega í sambandi við aðstöðuna á Ítalíu, þar sem þetta bann hefur gilt um nokkurn tíma, og eftir þeim upplýsingum, sem n. voru fengnar, þá er það þeirra niðurstaða, að slíkt bann virðist ekki hafa þar náð þeim tilgangi, sem án efa hefur verið að stefnt, þegar það var lögleitt. En eins og ég sagði í upphafi, þá greinir menn á um þetta, og ég hygg nú, að það verði reynslan hér á landi, sem kemur til með að skera úr um það, hvort sú breyting, sem nú liggur fyrir að gera á þessum l., nái þeim tilgangi, sem til er ætlazt af flm.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta lengri framsögu, því að málið er eins og ég sagði í upphafi, mjög einfalt, og menn verða að meta það, hvað þeir telja skynsamlegast í þessu.

Heilbr.- og félmn. þessarar hv. deildar mælir einróma með því á þskj. 788 í sínu nál., að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu, að lögin taki gildi 1. janúar 1972.