05.04.1971
Neðri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

109. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í ræðu frsm., þá var heilbr.- og félmn. einróma samþykk því, að frv. það á þskj. 116 um breyt. á l. um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf næði fram að ganga eins og það kom frá Ed. Þó áskildi ég mér rétt til að flytja brtt. og fylgja brtt., ef fram kæmu, við þessa umr. eða 3. umr., og það gerði einnig hv. þm. Stefán Valgeirsson.

Mig langar til að rifja ofurlítið upp sögu þessa frv. og einnig frv. til l. á þskj. 235, sem ég leyfði mér að flytja ásamt hv. þm. Guðlaugi Gíslasyni, Hannibal Valdimarssyni, Braga Sigurjónssyni og Jónasi Árnasyni um breyt. á l. nr. 63 frá 28. maí 1969, um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. En áður en ég vík að því frv., ætla ég að ræða fyrst frv. hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar, sem hann flutti í Ed. fyrir síðustu áramót. Þar segir í 1. gr.: „Á eftir síðustu mgr. 7. gr. l. komi nýr málsl., svo hljóðandi: Allar auglýsingar á tóbaki í blöðum, útvarpi, sjónvarpi og utandyra skulu bannaðar.“ Og 2. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Og svo fylgir þessu grg., sem ég sé ekki ástæðu til að lengja umr. með að fara að lesa upp hér nú.

Þegar rætt er um bann við tóbaksauglýsingum, þá hefur maður orðið var við það, að það eru skiptar skoðanir um slíkt bann. Sumir halda því fram, að það sé stjórnarskrárbrot að banna prentun auglýsinga um eitt eða annað. Ég vil ekki taka afstöðu til þeirrar fullyrðingar. Aðrir halda því fram, að tóbaksauglýsingar séu fyrst og fremst kapphlaup milli tóbakstegunda, milli framleiðenda, og kapphlaupið sé um að ná kaupandanum til að kaupa frekar þessa tóbakstegund en hina. Það má vel vera, að svo sé. Og einn hópur er enn, sem heldur því fram, að á meðan seld eru erlend blöð í landinu, sem eru full af tóbaksauglýsingum og hvatningum til lesenda um að neyta tóbaks, þá sé óeðlilegt að setja í I. á Íslandi bann við tóbaksauglýsingum. Allt þetta hefur komið fram í umr. og í viðræðum um þetta mál. Ég var spurður í hljóðvarpinu fyrir nokkru um afstöðu mína til tóbaksauglýsinga, og var það í sambandi við það starf, sem ég gegni. Ég sagði þá og segi það hér, að mér hafa alltaf fundizt ógeðfelldar tóbaksauglýsingar, sem fela í sér áróður. Og ég er þeirrar skoðunar enn og fylgdi henni í n., þegar ég greiddi þar atkv. Hins vegar finnst mér ekki óeðlilegt, að þeir, sem kaupa tóbak, geti haft greiðan aðgang að því í blöðum, hvað þessi og hin tegundin kostar. Og þessi skoðun hefur einnig verið ríkjandi í Ed., því að 1. gr. í frv. var einmitt breytt þannig í samræmi við brtt. á þskj. 512:

„Á eftir síðustu mgr. 7. gr. I. komi ný mgr., svo hljóðandi: Tóbaksauglýsingar hvers konar eru bannaðar. Þó er Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins heimilt að auglýsa verð á tóbaksvörum.“

Það eru með þessu lagaákvæði, ef samþ. verður, settar þær kvaðir á Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, að stofnunin á að standa undir auglýsingum á verði, en framleiðendum eða umboðsmönnum þeirra hér á landi er bannað að gera það. Þess vegna vaknaði nú sú spurning, hvort það hefði ekki verið réttara að segja í þessari setningu bara:

Heimilt er þó að auglýsa verð á tóbaksvörum. En ég kem ekki með brtt. við þá setningu.

Þá vil ég með nokkrum orðum rekja sögu frv. á þskj. 235, sem ég minntist hér á áðan, sem er breyting á l. nr. 63 frá 28. mal 1969, um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. Í 1. gr. þessa frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„7. gr. l. nr. 63 frá 28. maí 1969, um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, orðist svo: Allar vörur, sem Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins selur, skulu merktar með nafni verzlunarinnar og/eða merki hennar. Einnig er Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins skylt að verja 2%o af brúttósölu tóbaks til greiðslu auglýsinga í sjónvarpi, hljóðvarpi, blöðum og viðar, þar sem varað er við hættu af tóbaksreykingum. Um framkvæmd þessa skal haft samráð við stjórn Hjartaverndar og stjórn Krabbameinsfélags Íslands.“

Og 2. gr. hljóðar svo: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Og ég tel rétt, þar sem alllangt er liðið, síðan þetta þskj. var lagt fram, að lesa grg., og geri það, með leyfi hæstv. forseta d. En hún er svo hljóðandi:

„Á s.l. ári voru samþ. á Alþ. lög um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. Í 7. gr. þessara l. er kveðið svo á, að umbúðir um vindlinga skuli merktar með eftirfarandi áletrun: „Viðvörun — Vindlingareykingar geta valdið krabbameini í lungum og hjartasjúkdómum.“ Vindlingapakkar, sem seldir eru hér á landi, hafa nú verið merktir þessari viðvörunaráletrun nokkuð á annað ár.

Í samtölum við vindlingakaupendur hefur upplýstst, að fjöldi þeirra les ekki viðvörunarorðin, rífur merkimiðann án þess, og vel meint ábending kemur ekki að tilætluðum notum. Þá koma þessi orð eigi heldur fyrir sjónir þeirra, sem enn eru ekki byrjaðir að reykja vindlinga, en til þeirra þyrftu þau vissulega að ná.

Lagabreyting sú, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er þess efnis, að hætt verði að merkja vindlingapakkana svo sem nú er gert, en upphæð, sem nemur 2%o — tveimur af þúsundi af brúttósölu heildsöluverðs vindlinga, sem Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins selur, verði varið til að greiða viðvörunarauglýsingar í fjölmiðlum og- víðar, t.d. í framhaldsskólum landsins, þar sem varað yrði við hættu af tóbaksreykingum. Láta mun nærri, að þessi upphæð mundi á næsta ári nema kr. 1.000.000.00 einni milljón króna — og yrði hún greidd af Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins. Telja verður eðlilegt, að stofnunin hafi samráð við stjórn Hjartaverndar og stjórn Krabbameinsfélags Íslands um framkvæmd þeirra nýmæla, sem í l. þessum felast.“

Eins og fram kemur í frv. og grg., er ætlazt til, að hætt verði að líma á pakkana þessi viðvörunarorð, og það er mín persónulega skoðun, og ég hef látið það í ljós bæði í útvarpi, blöðum og hér í þessum ræðustól, að ég held, að sá kostnaður, sem er varið til að líma þessa miða á, nái ekki tilgangi sínum. Það er mín skoðun, að það eigi að auka að miklum mun kennslu um hættu af vindlingareykingum í skólum og að 1 millj. kr., sem þegar væri handbær 1972, væri hægt að nota til þess að vara unga fólkið við hættunni af vindlingareykingum.

Nú kann einhver að spyrja, sem á mig hlýðir: Hvað varð um þetta frv. á þskj. 235? Jú, það var sent til hv. fjhn., og síðan hefur ekkert af því frétzt. Það er ekki síður að auglýsa hér eftir frv., sem verða úti eða daga uppi, en það hefði verið fyllsta ástæða til þess að gera það. En nú vil ég, að þingið skeri úr því, hvort það vill ráðstafa rúmri 1 millj. kr. í þessum tilgangi að vara við hættu af vindlingareykingum í fjölmiðlum. Þess vegna hef ég á þskj. 874 borið fram brtt. við frv. hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar og þar sem brtt. minni hefur ekki enn verið lýst í d., þá vildi ég leyfa mér að lesa hana upp með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr. orðist svo: 7. gr. laga nr. 63 frá 28. maí 1969, um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, orðist svo: Allar vörur, sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins selur, skulu merktar með nafni verzlunarinnar og/eða merki hennar. Einnig er Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins skylt að verja 2%o af brúttósölu tóbaks til greiðslu auglýsinga í sjónvarpi, hljóðvarpi, blöðum, kvikmyndahúsum og víðar, þar sem varað er við hættu af tóbaksreykingum. Um alla framkvæmd þessa skal haft samráð við stjórn Hjartaverndar og stjórn Krabbameinsfélags Íslands.“

Þetta er fyrsti liður brtt. minnar og er shlj. till. okkar fimmmenninganna á þskj. 235. Síðan segir í brtt. minni: „Allar auglýsingar á tóbaki í blöðum, útvarpi, sjónvarpi, kvikmyndahúsum og utandyra skulu bannaðar.“ Það er breytingin eins og hún kom frá Ed., en ég sé hér, að það vantar inn í þetta setninguna: „Þó er Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins heimilt að auglýsa verð á tóbaksvörum.“ Og áskil ég mér rétt til þess að bæta þeirri setningu við. Síðan kemur 2. gr. „Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1972.“ Sem sé við næstu áramót, og þar tek ég inn í frv. samhljóða álit heilbr.- og félmn. Ég vona, að þetta tefji ekki málið, en ég tel, að það sé mikill fengur í því að fá þessa till. mína samþykkta. Að vísu eru misjöfn sjónarmið uppi varðandi það að hætta að lima þessa merkimiða á pakkana, sem ég held, að nái ekki tilgangi sínum. Betra er, að varið verði í samráði við Hjartavernd og stjórn Krabbameinsfélagsins á aðra millj. kr. til að auglýsa í sjónvarpi og víðar hættu af tóbaksreykingum. Og þó að sagt sé hér í gr. „skal haft samráð við stjórn Hjartaverndar og stjórn Krabbameinsfélags Íslands ...“ o.s.frv. og þó að það hafi ekki verið rætt við þessi samtök þá er það mín skoðun, að það eigi meira en hafa samráð við þau. Bezt verði, að þau hafi forustu í þessu máli.