25.11.1970
Neðri deild: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

18. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Dómsmrh. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 9. júlí í sumar. Eins og hv. þm. rekur minni til, þá voru á síðasta Alþ. samþ. ný lög um skipan prestakalla og prófastsdæma og um kristnisjóð. Með þeim lögum var gerð nokkur breyting á skipan prófastsdæmanna, og þar sem prófastsdæmin eru jafnframt kjördæmi í kosningum til kirkjuþings, þá bar nauðsyn til að breyta l. um kirkjuþing og kirkjuráð frá 1957 til samræmis við hin nýju lög um skipan prestakalla og prófastsdæma, en kirkjuþing stóð til að halda í haust, og var það háð um síðustu mánaðamót. Um þessa breytingu eða samræmingu við prestakallalögin fjallar 1. gr. frv. 2. gr. frv. er hins vegar um kosningar til kirkjuráðs.

Samkv. l. frá 1957 um kirkjuþing og kirkjuráð skal kjósa fulltrúa á kirkjuþing, aðalfulltrúa og varafulltrúa, í sumum tilfellum tvo varafulltrúa, og skal kjósa þá hverja fyrir sig. Þetta þótti óhentugt, að kosningar væru með þessum hætti, og því var þess óskað, að þar að lútandi ákvæðum væri breytt í þá átt, sem um ræðir í 2. gr. frv., sem sé að við kosningu skuli fyrsti maður á kjörseðli hljóta fullt atkvæði, annar maður skuli hljóta 2/3 atkvæðis og sá þriðji 1/3 atkvæðis. Ég ætla, að menn geti verið sammála um, að þetta sé í alla staði eðlilegt og til hagræðis. Í Ed. var frv. afgr. shlj. óbreytt, og menntmn. þeirrar hv. þd. lagði einróma til, að svo yrði. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv., en legg til, herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og til hv. menntmn.