07.04.1971
Sameinað þing: 44. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2120 í B-deild Alþingistíðinda. (2268)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þessar fsp. hér ber nú að með nokkuð sérstæðum hætti, sem ég er ekkert út á að setja. Ég benti á í grein, sem ég skrifaði í dagblaðið Tímann í tilefni af margítrekuðum fsp. þar og greinum, sem fram hafa komið, að það væri gengið út frá því, bæði í stjórnarskrá og þingsköpum, að það væri hægt að koma á framfæri eða fá fram upplýsingar um hvað eina, sem menn óskuðu eftir af hálfu þingsins, bæði með fsp. á Alþ. og einnig í gegnum yfirskoðunarmenn ríkisreiknings, auk þess sem starfandi væri sérstök undirnefnd í fjvn., sem ég hlutaðist til um fyrir tveimur árum að væri sett á laggirnar, með fulltrúum allra flokka, sem ætlunin væri að væri haft samráð við stöðugt, en ekki aðeins á þingtíma eins og áður hefur verið, þar sem fjvn. hefur ekki starfað áður á öðrum tíma.

Þessar fsp., sem hér eru bornar fram, eru að sjálfsögðu þess eðlis, að það er sjálfsagt að svara þeim. En því miður er það gallinn við þær, að þær eru nokkuð viðamiklar — þó að þær liti ekki þannig út á blaðinu, — til þess, að það sé hægt að fá nokkra yfirsýn yfir það, sem hér er spurt um. En ég skal leitast við að svara þeim án þess að vera með of miklar málalengingar í því sambandi. En áður en þeim er svarað, er samt óumflýjanlegt að gera grein fyrir því með örfáum orðum, hvert er meginsjónarmiðið, sem núverandi kjarasamningar ríkisstarfsmanna, sem nýlega voru gerðir, grundvallast á.

Ég hef, frá því að ég tók við embætti fjmrh., alltaf verið þeirrar skoðunar, að það væri mjög óheppilegt, að launum ríkisstarfsmanna væri hagað með þeim hætti, að það væri byggt á alls konar fríðindum, sem oft og tíðum kæmu þá misjafnlega niður, eins og t.d. átti sér stað með bifreiðar þær, sem margir forstjórar hafa haft á undanförnum árum til afnota, þar sem ríkið hefur átt bæði bifreiðina og borgað allan tilkostnað hennar, sem er áætlað að muni vera hlunnindi, sem nemi með núgildandi verðlagi a.m.k. 150 þús. kr. á ári eða jafnvel meira, og ýmis önnur atriði hafa þar verið, svo sem embættisbústaðir o.fl., sem vegna þróunar tímanna hefur valdið því, að það hefur skapazt margs konar misrétti í þessu sambandi. Einn hefur þessi hlunnindi og annar ekki.

Þeir samningar, sem nú hafa verið gerðir, eru fyrstu kjarasamningarnir, sem gerðir hafa verið með það í huga, að þetta væri tekið og einnig höfð hliðsjón af þessum aðstæðum, en nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir, að samningarnir sjálfir eru ekki miðaðir við það, að mismunað sé eftir því, hvort um hlunnindi er að ræða, heldur að hlunnindin sjálf verði tekin til athugunar. Samningarnir sjálfir eru, eins og hv. þm. vita, miðaðir við starfsmat. Og þar er einfaldlega metið það starf, sem hver og einn ríkisstarfsmaður hefur, eftir föstum reglum, sem ég skal ekki hér út í fara, en hv. þm. er meira og minna kunnugt um. Í sambandi við það mat er ekki tekið tillit til neinna annarra hluta heldur en þess eins, hvers eðlis starfið er og hvar sé eðlilegt, að því sé skipað í hið fasta launakerfi. Þetta er í rauninni svipað og gert hefur verið við alla kjarasamninga til þessa. En í þessum kjarasamningi er þetta miklum mun fastmótaðra, og það er auðvitað eðlilegt miðað við það, að nú hafa orðið verulegar launabreytingar, að spurningar vakni þá um þessi sérstöku hlunnindi, sem verið hafa. En það er eitt ákvæði í samningunum, sem gerir ráð fyrir því, sem ekki hefur heldur áður verið í kjarasamningum, að það sé heimilt, ef menn hafi einhver sérstök fríðindi, og það á fyrst og fremst við innheimtumenn ríkissjóðs, sem eru launaðir með sérstökum innheimtuþóknunum, að hækka ekki launin eftir kjarasamningunum, nema þessar innheimtuþóknanir séu færðar niður til samræmis við, að þær verði eðlilegar miðað við þann launaflokk, sem starfið er í. Með hliðsjón af þessari forsendu fyrir samningunum má segja, að ekki sé beinlínis tekið tillit til þess, hvort embættismaður hefur haft bifreið eða hefur ekki haft bifreið, þ.e.a.s. laun mannanna, sem lenda í sama launaflokki, eru metin með hliðsjón af þeirri ábyrgð og menntun, sem störfunum fylgja, án hliðsjónar af því, hvaða hlunnindi maðurinn hefur áður haft. Og þetta skiptir máli í sambandi við bifreiðamálin. Það var hópur ríkisforstjóra og annarra embættismanna, sem hafði bifreiðar. Þessar bifreiðar hafa verið seldar og það var auðvitað ætlazt til þess af þessum mönnum, að þeir fengju það að einhverju leyti uppi borið eða jafnvel að öllu leyti í hinum nýju kjarasamningum, en það er mjög mikið álitamál og raunar mjög ósennilegt, að þeir háfi fengið það. A.m.k. er ekki tekið tillit til þess á þann veg, að sá embættismaður, sem hafði bifreið, fái hærri laun nú heldur en annar embættismaður, sem ekki hafði bifreið.

Spurt er hér að því í þessari fsp., hvort tekið sé tillit til þeirra kjara, er embættismenn ríkisins hafa nú um bifreiðanotkun. Mér er ekki alveg fullljóst, hvað við er átt með þessu. Bifreiðarnar höfðu verið teknar af embættismönnunum áður heldur en þessir kjarasamningar tóku gildi. En ég geri ráð fyrir, að við það sé þó átt, hvort tekið hafi verið tillit til þess hjá þeim embættismönnum, sem bifreiðar höfðu, þegar starf þeirra nú var metið. Ég tel, að þetta hafi ekki verið gert, þannig að embættismennirnir, sem bifreiðarnar höfðu og þessi miklu hlunnindi, það sé alveg undir hælinn lagt, hvort þeir hafa fengið þetta uppi borið eða ekki. Þeir hafa auðvitað fengið það að vissu leyti í hærri launum, en eins og ég sagði áðan fá aðrir hliðstæðir embættismenn, sem nú lenda eftir starfsmati í sama launaflokki, í rauninni hærri kjör en þeir höfðu áður miðað við þá, sem bifreiðanna nutu. Ég tel því í rauninni, að það verði að svara þessari spurningu neitandi, þannig að það sé undir hælinn lagt, hvort þessir embættismenn allir og ríkisforstjórar hafi fengið þetta bætt nema að litlu leyti. Hitt er annað mál, að það voru ýmsir, sem ekki höfðu bifreiðar, heldur bifreiðastyrki. Og í ýmsum tilfellum voru þessir styrkir hærri en sem svaraði raunverulegri akstursþörf. Það hefur verið ákveðið nú í sambandi við kjarasamningana og með hliðsjón af því ákvæði þeirra, að rétt sé að taka tillit til sérstakra hlunninda, eftir að þessir kjarasamningar hafa verið gerðir, að þessir sérstöku samningar um afnot bifreiða, sem eru umfram eðlilega akstursþörf í þágu embættisins, verði endurskoðaðir með þeim hætti, að það falli niður í áföngum, það falli niður í sömu áföngum og í sömu hlutföllum og gildisákvæði samningsins segja til um, að launin skuli hækka, þannig að þau lækka á þremur árum í það, sem talið er vera vafalaus akstursþörf í þágu starfs. Þetta hefur bíla- og vélanefndinni verið falið að meta, og það mat hefur þegar farið fram. Og fyrsta lækkunin af þessu, miðað við hækkunina, sem varð 1. júli s.l., hefur þegar komið til framkvæmda. Það eru auðvitað engin hlunnindi, þó að manni sé svo aftur greiddur eðlilegur bifreiðastyrkur í stað þess, að hann kaupi leigubifreið til afnota, þegar það er talið óumflýjanlegt, að maðurinn hafi bifreið í þágu síns starfs. Þarna verða menn að gera greinarmun á. Það er rétt, að til þess að einfalda þessa lausn mála, sem tvisvar sinnum áður hefur verið reynt að koma á, að losna við þessar forstjórabifreiðar, en án árangurs, þá varð að gera ýmsar ráðstafanir. Og það voru settar ákveðnar reglur um þetta mál, sem ég skal ekki rekja hér, en þar sem m.a. var gert ráð fyrir að lána þessum embættismönnum með vissulega góðum kjörum, en í eitt skipti fyrir öll lán til þess annaðhvort að kaupa þá bifreið, sem þeir höfðu með höndum til afnota, eða nýja bifreið. Og það var ekki talið neitt álitamál, að það væri skynsamlegt til þess að komast út úr þessu vandræðakerfi. Þessar reglur voru settar í samráði við undirnefnd fjvn. Alþ., sem ég veit, að hv. fyrirspyrjandi man gerla eftir, og voru þær einróma samþykktar, að því er ég bezt veit, af þeirri hv. n. og tóku gildi miðað við 1. júlí, þegar nýju kjarasamningarnir skyldu taka gildi samkv. samkomulaginu við BSRB.

Varðandi það atriði, hvort ég hafi hugsað mér að birta þessar reglur, sem gilda nú, þá furðar mig nokkuð á þeirri fsp., vegna þess að þessar reglur hafa verið birtar fyrir löngu, og til nánari upplýsinga fyrir hv. fyrirspyrjanda vil ég geta þess, að reglur þessar um bifreiðaafnot, sem eins og ég segi voru settar af rn. í fullu samráði við og með samþykki fjvn. eða undirnefndar hennar, voru birtar annars vegar í Stjórnartíðindum, B-deild, nr. 6/1970, og einnig í Lögbirtingablaði, nr. 10/1970, og tilkynnt öllum rn. og stofnunum með sérstöku umburðarbréfi frá fjárlaga- og hagsýslustofnuninni. Og á grundvelli þessara reglna er nú þegar búið að selja allar forstjórabifreiðar og aðrar bifreiðar til einkaafnota, 94 að tölu, og allar aðrar ríkisbifreiðar, sem eru í eigu ríkisins og eru sem sérstakar vinnubifreiðar, sem auðvitað hljóta alltaf að vera til staðar, þær hafa verið merktar og bönnuð afnot þeirra utan reglulegs vinnutíma.

Það vill nú svo vel til, að hér á hinu háa Alþ. eru ríkisforstjórar, sem hafa notið þeirra hlunninda að hafa bifreið áður að fullu á kostnað ríkisins, og þeir þekkja það betur en ég, hvort það muni ekki hafa verið ærið mikil hlunnindaskerðing, sem var í því fólgin að taka af þeim þessar bifreiðar, jafnvel þó að þeir hafi fengið nokkurn bílastyrk á móti og fengið lán, sem hér um ræðir. Og ég skal ekki meta það, hvort þeir telji, að launahækkunin, sem þeir fengu nú, vegi upp á móti þessum hlunnindaskerðingum. En hvað sem því líður, þá tel ég; að hér hafi ekki verið um annað að ræða, og þetta er mál, sem hefur verið reynt að koma í framkvæmd, eins og ég segi, um áratugabil, og ég tel, að það hafi vel tekizt til um það, að þetta lánaðist með þessum hætti.

Þá er spurt, hvort gert sé ráð fyrir því, að opinberir starfsmenn fái eftirleiðis sérstaka greiðslu fyrir einstök störf, sem þeir vinna vegna starfa síns, svo sem nefndarstörf, og unnin eru í venjulegum vinnutíma, eins og áður var, meðan laun þeirra embætta voru lægri en nú er. Í kjarasamningunum, sem nú hafa verið gerðir, er gengið út frá því sem skilyrðislausu, að hver ríkisstarfsmaður skuli skila 40 stunda vinnuviku. Þetta hefur valdið því, að hjá sumum lengdist vinnuvikan, hjá öðrum styttist hún, en samtals nemur þetta fyrir ríkið mjög svipaðri tölu vinnustunda og áður, meðan vinnutíminn var frá 36 og upp í 44 stundir. Öll störf, sem unnin eru innan þessa reglulega vinnustundafjölda, sem ríkisstarfsmaðurinn á að skila, verða að sjálfsögðu ekki greidd. Þessum vinnustundum er skylt að skila. Hitt held ég að liggi nokkuð í augum uppi, enda hefur aldrei neinum dottið það í hug í sambandi við neina samninga, að það væri ekki hægt að banna ríkisstarfsmönnum að taka að sér fremur en öðrum mönnum einhver nefndarstörf eða önnur störf, ef þeir skila þessari vinnuskyldu sinni. Það er gert ráð fyrir því í samningunum, að opinberir starfsmenn almennt ef þeir vinna umfram þessar 40 stundir, þá eigi þeir rétt á eftirvinnugreiðslu, og gildir að sjálfsögðu það sama, hvort sem þessir menn taka laun sín hjá ríkinu eða ekki. Hitt er annað mál, að samkv. lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er það matsatriði, hvort þessi aukastörf samrýmast aðalstarfinu. Það er atriði, sem hvert rn. verður að meta fyrir sig. En sé það talið óumflýjanlegt og æskilegt, að opinberir starfsmenn séu tilnefndir í nefndir, og sums staðar er beinlínis gert ráð fyrir því, að þeir séu í vissum nefndum, þá er ekki gert ráð fyrir, að það sé afnumið. Krafan er aðeins þessi, að þeir skili refjalaust þeim 40 stundum, sem þeim er ætlað að skila. Ég skal að vísu taka það fram, að það er ekki alltaf miðað við það, að þeir vinni raunverulega þessar stundir á sínum vinnustað. Ég tek sem dæmi kennara. Margir þeirra, m.a. prófessorar og fleiri, kenna í rauninni miklu færri stundir en þetta. En það er talið að þeir skili því, sem upp á vantar, í vísindastörfum og undirbúningi til kennslu með ýmsum hætti. M.a. er gert ráð fyrir því, að innan þessa tíma falli aukagreiðslur til kennara vegna stílaleiðréttinga og annars, sem borgað hefur verið sérstaklega og var gert, meðan launin voru lægri, allt slíkt verði afnumið og falli niður.

Það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til þess, að aukavinnugreiðslur, sem höfðu verið viðurkenndar í ýmsum stofnunum, m.a. rannsóknastofnunum atvinnuveganna, til þess að bæta kjör vísindamanna, — það voru raunverulega kjarabætur, þótt þær væru unnar, — það verði niður fellt og það munu verða gerðar ráðstafanir til þess, að allri aukavinnu eða yfirvinnu, þó að hún formlega megi greiðast, verði hætt, þar sem ekki er brýn nauðsyn fyrir stofnanirnar, að aukavinnan sé unnin. Til þess að samræma greiðslur fyrir nefndarstörf, þá vil ég aðeins skýra frá því í þessu sambandi, að þetta skiptir máli, að fyrir 2–3 árum varð um það samkomulag milli allra rn., að settir yrðu tveir sérstakir trúnaðarmenn á vegum fjmrn. til þess að samræma greiðslur fyrir þessi störf og sjá um að þær væru innan hæfilegra marka.

Þá er talað í 3. fsp. um laun innheimtumanna ríkissjóðs, hvort ekki hafi verið gert ráð fyrir, að þessi innheimtulaun féllu niður. Það var ekki beinlínis gert ráð fyrir því, að þessi innheimtulaun öll féllu niður. En það var gert ráð fyrir, að það væri heimilt að taka tillit til þessara innheimtulauna, sem hvorki var gert, þegar bæjarfógetar og innheimtumenn ríkissjóðs voru flokkaðir samkv. launalögum 1955 né samkv. kjaradómi 1963 eða kjaradómi 1967. Það er í fyrsta sinn við þennan starfsmatssamning núna, sem gert er ráð fyrir, að megi taka tillit til þessa. Það er hins vegar mikið starf að gera sér grein fyrir þessu og með hverjum hætti þetta skuli gert, vegna þess að innheimtumenn ríkissjóðs hafa margvísleg innheimtulaun. Þeir hafa innheimtulaun fyrir að innheimta skatta ríkissjóðs. Þeir hafa auðvitað samningsbundin innheimtulaun við Tryggingastofnun ríkisins, þar sem er þeirra sérstaki samningur við Tryggingastofnunina og fjmrn. hefur ekkert með að gera. Og þeir hafa lögum samkv. t.d. sérstaka prósentu, 6%, fyrir að innheimta sóknargjöld. Þetta er allt flókið mál, en það er ætlunin, að þetta verði skoðað niður í kjölinn með hliðsjón af þessari heimild kjarasamningsins eins og hann er. Hins vegar er því ekki að leyna, að héraðsdómurum finnst, að þetta hafi gengið nokkuð treglega, og nú fyrir tveimur dögum fékk ég heimsókn frá stjórn þess félags undir forustu formanns þess, sem á nú sæti hér á hinu háa Alþ., þar sem kvartað var yfir því, að rn. borgaði enn þá gömlu launin þessum innheimtumönnum, sem ég tjáði þeim, að yrði gert, þangað til komið hefði verið eðlilegum hætti á þessi innheimtulaun. En hvort þau verða felld niður eða ekki, þori ég ekki á þessu stigi að segja. Ég tel hins vegar, að þau séu í ýmsum tilfellum óhæfileg. Þau eru ákaflega mismunandi eftir embættum, þó að í sannleika sagt skeri sig þar úr vissir embættismenn, sem ég skal ekki nafngreina hér, en hv. þm. er vafalaust kunnugt um. Annar þeirra embættismanna, sem langhæst laun hefur á þessum sviðum, tekur þessar þóknanir alls ekki frá ríkissjóði, heldur eru það greiðslur fyrir uppboðsgerðir og ýmsar fógetagerðir, sem eru greiddar samkv. sérstökum töxtum, sem fjmrn. hefur sem slíkt ekkert með að gera. En ég tel það mikilvægt og sjálfsagt, að þessu ákvæði samningsins, sem sett var inn í hann eftir ósk samninganefndar ríkisins, að taka mætti tillit til þessara aukastarfa, því verði framfylgt. Þetta á einnig við um héraðslækna og héraðsdýralækna, sem hafa aukagreiðslur, sem ríkið greiðir þeim að vísu ekki, en þeir hafa aukatekjur samkv. taxta. Sömuleiðis hafa prestar aukatekjur, en það skal tekið fram, að það er ekki ætlunin að breyta þeim aukatekjum, heldur voru þeir strax í upphafi flokkaðir í launaflokk, sem að vísu þeir telja nú allt of lágan, og ég hef fengið heimsókn frá þeim. Þó að ýmsum finnist, að laun þessi séu nú há, þá vantar ekki heimsóknirnar frá ýmsum, sem telja þó sinn hlut ekki sérlega bærilegan. En þeir voru flokkaðir það lágt í launakerfinu með hliðsjón af því, að þeir hefðu þessar aukatekjur, og því ekki ætlunin að taka neitt tillit til þeirra. En það er bæði þetta og margt annað í sambandi við þessa samninga, sem eru mjög flóknir og flokkaröðunin geysilega umfangsmikil, sem hefur valdið miklum árekstrum víða, sem hefur leitt til þess, að þetta hefur ekki allt getað gerzt í einu. En þar sem, eins og ég segi, ekki er búið að taka þetta til meðferðar og fá endanlega niðurstöðu, þá verða þessir aðilar að búa við þau laun, sem þeir höfðu, áður en kjarasamningarnir gengu í gildi.

Þá komum við að hlunnindunum, sem voru undanþegin skattaálagningu, og lýst var furðu yfir því hér í gærkvöld, án þess að ég ætli nú að fara að efna til umr. hér, að það hefði ekki verið kunnugt fjmrn., að ríkisskattanefnd hefði heimilað þessum innheimtumönnum ríkissjóðs til að mæta afföllum að draga 25% frá innheimtulaunum sinum, sem ekki kæmu til skatts. Ég legg á það ríka áherzlu, sem ég hygg þó, að allir hv. þm. viti mætavel, að ríkisskattanefnd ber ekki sína úrskurði undir fjmrh. og er ekkert honum háð. Þó að skattalögin sem slík heyri undir hann, þá er þetta sjálfstæður dómstóll, sem á að úrskurða um það, hvað sé skattskylt og ekki skattskylt, en ekki fjmrn. Það getur vel verið, að það sýni litinn áhuga frá minni hendi eða rn. að hafa ekki vitað um þetta fyrr en á s.l. ári, að ríkisskattanefnd hafði heimilað þetta. En það vill bara svo til, að ríkisskattanefnd sendir ekki rn. sína úrskurði, og sannast sagna hafði mér ekki hugkvæmzt, að þessi frádráttur væri leyfður. En þá þegar er rn. vissi um þetta, var ríkisskattanefnd skrifað, ekki til að fyrirskipa henni að breyta þessu, vegna þess að til þess höfum við ekkert vald, heldur til að láta í ljós þá skoðun, að þessu ætti að breyta. Og ríkisskattstjóri hefur tjáð mér, að þetta mál verði tekið nú til meðferðar aftur, ekki sízt með hliðsjón af hinum nýju kjarasamningum, og þess sé að vænta, að úrskurður um það efni verði kveðinn upp af ríkisskattanefnd nú innan skamms. En eins og ég segi, ég get ekki svarað því, hvernig sá úrskurður verður, og hef ekkert vald til að breyta honum, ef ríkisskattanefnd að einhverju leyti lætur þessi hlunnindi standa. En mín persónulega skoðun er sú, að þessi hlunnindi eigi að falla niður.

Þá er spurt um það í fimmta lagi, hvort starfsmenn séu ráðnir í þjónustu ríkisins enn þá og launakjör þeirra ákveðin án samþykkis launamáladeildar fjmrn. Síðan launamáladeildin var sett á laggirnar, sem ekki er langt síðan, og þar áður hafði enginn sérstakur aðili fylgzt með launagreiðslum ríkisins, sem auðvitað var hin brýnasta nauðsyn miðað við það, hversu geysilegar fjárhæðir er þar um að ræða, þá hefur verið reynt að koma kerfisbundnu skipulagi á allar launagreiðslur, þær fari sem flestar fram í gegnum embætti ríkisféhirðis, og fylgzt sé sem nákvæmast með því, að greitt sé eftir þeim töxtum, sem gilda. Launadeildin hefur síðan reynt að hafa afskipti af ákvörðun launakjara hjá öllum starfsmönnum ríkisins, er laun sín fá samkv. aðalskrá deildarinnar. Þar eru hins vegar ýmsir, sem taka laun og eru á lausavinnutöxtum hjá stofnunum, eins og hv. fyrirspyrjandi veit manna bezt um, en það hefur verið reynt að koma í veg fyrir það svo sem kostur hefur verið. Og það er mjög vaxandi, að laun séu greidd fremur frá ríkisféhirði heldur en úr sjóði stofnananna, og að því er stefnt að afnema það með öllu. Umfram þetta er það svo hlutverk deildarinnar að fylgjast með framkvæmd kjarasamninganna, þeirra sem ríkið ræður starfsfólk eftir. Það á ekki að gerast nú, að starfsmenn séu ráðnir í störf, sem falla undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á öðrum kjörum en þeim, sem launadeild samþykkir. Og launadeild er ekki kunnugt um, að neinar slíkar ráðningar eigi sér stað eins og nú standa sakir. Hitt er rétt, að ef sérstakar fjárveitingar eru til ákveðinna verkefna og það eru ráðnir menn, lausráðnir, samkv. töxtum eftir atvikum þá hverju sinni, til þess að vinna slík verk, þá hefur fjmrn. ekki ákveðið slík laun, þegar um slík tímabundin verkefni er að ræða, heldur það einstaka rn., sem hefur fengið fjárveitinguna til verkefnisins. Það er á þess valdi að gera það.

Varðandi síðustu spurninguna er því til að svara, að það hafa orðið nokkrir árekstrar milli fjmrn. og utanrrn. um samning, sem gerður var við fríhafnarstjórann á Keflavíkurflugvelli um sérstaka brúttóþóknun af sölu fríhafnarinnar. Ríkisendurskoðunin komst að raun um þetta og vakti athygli rn. á þessu og 10. júní í fyrra var utanrrn. ritað um það og bent á, að þessar greiðslur væru inntar af hendi án allrar heimildar og án samráðs við fjmrn. og það teldi mjög óheppilegt og skapa hættulegt fordæmi, að slíkar greiðslur ættu sér stað, þar sem þær ættu sér ekki fordæmi annars staðar. Var þess vegna óskað eftir því, að þessum samningi yrði sagt upp, a.m.k. þannig, að eðlilegar launagreiðslur gætu átt sér stað frá því að nýju kjarasamningarnir tækju gildi 1. júli. Ríkisendurskoðandi ítrekaði svo þetta bréf til fríhafnarstjórans, sem svaraði því til, að aths. ríkisendurskoðunar væri marklaus, þar sem hann tæki fyrirmæli sín frá utanrrh. Ég hef hins vegar rætt þetta mál einnig persónulega við utanrrh. og hann hefur tjáð mér, að hann muni taka málið til sérstakrar meðferðar, og vænti ég, að það leysist á þann jákvæða hátt, að þessar þóknanir falli niður frá þeim tíma, sem fríhafnarstjórinn tekur að taka laun samkv. hinum nýju kjarasamningum a.m.k.

Þessi orð mín hafa kannske orðið nokkru lengri en ég hefði viljað. En ég tel þetta þó nauðsynlegt, til þess að menn fái svipmynd af þessu. Af því að þetta er nokkuð sitt úr hverri áttinni, fyrirspurnirnar, þá vona ég, að hv. fyrirspyrjandi sé ásáttur með þau svör eins og þau hafa verið gefin, og þar sem hér er ekki tími til frekari umr. um það, þá mun ég ekki orðlengja frekar um það, en mun að sjálfsögðu vera reiðubúinn, eins og ég sagði í umræddri grg. minni, að gefa honum og öðrum þeim, sem til þess hafa verið settir að fylgjast með fjárreiðum ríkisins, allar þær upplýsingar, sem óskað er eftir.