04.02.1971
Efri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

Starfshættir Alþingis

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég stend nú eiginlega ekki upp til þess að mótmæla aths. hv. 11. þm. Reykv., en ég er nú formaður einnar n., heilbr.- og félmn., sem hefur fengið allmörg mál til meðferðar. Þrjú þmfrv. þar eru óafgreidd. En þó vil ég segja, að eitt þeirra hefur þó haft þau áhrif, að tillit til þess var tekið við afgreiðslu fjárlaga. Hins vegar höfum við ekki formlega skilað frá okkur nál. varðandi prósentu í því frv., en 1. flm. þess frv. er einmitt hv. 11. þm. Reykv. En hitt vildi ég undirstrika og vekja athygli hv. þings á því, að við erum beðnir um eða það er venja, að við sendum umsagnir, og það er athyglisvert, hversu margar opinberar stofnanir á vegum ríkisins virða okkar beiðni um umsagnir á frv. ekki meira en það, að þær svara ekki, og væri vel til athugunar að hætta að eyða tíma í það að skrifa bréf og senda frv. opinberum stofnunum til umsagnar og bíða og reka á eftir umsögnum æ ofan í æ og tefja þar með afgreiðslu mála á hv. Alþ. Þetta er einu sinni staðreynd sem ég hef orðið átakanlega var við núna undanfarið. Og þetta er alvarlegt mál. Það er jafnvel verst að bíða eftir umsögnum frá opinberum aðilum. Það væri athugandi fyrir hæstv. ríkisstj. að beina þeim tilmælum til ríkisstofnana, að þær svöruðu nefndarformönnum, þegar umsagnar er leitað um ákveðin frv., því að ella sýnist það ekki hafa neinn tilgang. (BJ: Það er engin afsökun.) Það er ekki afsökun kannske út af fyrir sig, en við bíðum og rekum eftir umsögnum og þess vegna er það ákveðinn þáttur í drætti mála. Það getur vel verið, að við eigum alls ekki að bíða neitt, eftir að við gefum þeim ákveðið tímamark. En sú venja hefur þó skapazt, og það er þá til athugunar að afnema hana. En þessi dráttur á svörum við beiðni okkar formanna í nefndum á sinn þátt í því, að afgreiðsla mála gengur tregar.