10.02.1971
Efri deild: 47. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (2391)

65. mál, orkulög

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson) :

Herra forseti. Frv. til l. um breytingu á orkulögum, 65. mál Ed., hefur verið tekið til athugunar hjá iðnn. Frv. gerir ráð fyrir hækkun lána og styrkja til einkavatnsaflsstöðva bændabýla. Iðnn. leitaði umsagna um frv. hjá Orkustofnun og Rafmagnsveitum ríkisins. Svar Rafmagnsveitna ríkisins er prentað sem fskj. með áliti meiri hl. iðnn. á þskj. 349, en þar gerir meiri hl. iðnn. að till. sinni, að málinu verði vísað til athugunar ríkisstj. Svar Rafmagnsveitna ríkisins gefur mjög ítarlegar vísbendingar um kostnað við vatnsaflsvirkjanir og mótorrafstöðvar til heimilisnotkunar.

Einmitt nú, þegar líður á þetta þinghald, þar sem rafvæðing landsins hefur verið mikið áhugamál hv. þm., er ekki óeðlilegt, að hæstv. ríkisstj. skoði í heild þessi mál, þær till., sem fram hafa komið um hugsanlegar framkvæmdir og stefnu í virkjunarmálum. Ekki þarf að efa áhuga hv. 1. flm. þessa lagafrv., sem í þessu lagafrv. kemur fram sem fulltrúi þess landshluta, sem eflaust er hvað erfiðast að tengja við samveitur á næstu árum. Það er ekki vafi á því, að þetta mál á að skoðast í ljósi þeirrar staðreyndar, þegar sú athugun fer fram, sem meiri hl. n. leggur til. En það er ekki víst, að það lagafrv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, sé sú bezta lausn, sem hægt er að finna, því að til þess þarf fagþekkingu á sviði rafvæðingar. Í bréfi frá Rafmagnsveitum ríkisins kemur greinilega fram, hversu óskaplegur baggi það er raunverulega fyrir vatnsaflsbændur fram yfir aðra að þurfa að byggja sínar eigin vatnsaflsstöðvar. Takmarkið verður því að vera samveitur, þar sem hægt er að koma því við. Dæmin úr nefndu fskj. sýna, að fyrir orku frá samveitum greiðir bóndinn 1.86 kr. fyrir hverja kw.–stund, þegar mótororka kostar hann 3.90 kr. og eigin vatnsaflsorka allt upp í 4.50 pr. kw.–stund. Lausn þessa mikla vanda er þjóðhagslega ekki hærri lán eða meiri styrkir, heldur skjót rafvæðing allrar Íslandsbyggðar. Ég vænti, að hv. flm. séu við nánari athugun sammála þessu sjónarmiði og geti fallizt á þessa málsmeðferð iðnn.