15.03.1971
Efri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2460)

17. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Frsm. meiri hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 456 stendur meiri hl. heilbr—. og félmn. að því að leggja til, að umræddu frv., 17. máli hv. Ed., verði vísað til ríkisstj. Við höfum rætt þetta nokkuð í n. og einnig borið undir hæstv. fjmrh. það, sem lagt er til í frv., að 2.5% af ágóða Áfengis—- og tóbaksverzlunar ríkisins renni óskert í gæzluvistarsjóð. Þetta þýðir, að nokkru hærri tala en verið hefur frá því l. voru sett 1964 muni renna fast ákveðin í sjóðinn árlega. Hæstv. ráðh. tjáði mér, að hann væri því hlynntur, að framlag ríkisins yrði aukið og með velvilja hans var framlagið á fjárl. yfirstandandi árs samþ. 12 millj. kr.

Það kemur einnig fram í nál. okkar, að við erum sammála um það nm., að nauðsynlegt sé, að gæzluvistarsjóði sé tryggð veruleg aukning og okkur virðist sem svo, að hún þurfi að vera eitthvað á 2. tug millj. Hins vegar höfum við ekki fallizt á það að binda þetta við fasta prósentutölu á hverju ári af ágóða Áfengis– og tóbaksverzlunar ríkisins. Nú vill svo til, að ég ásamt fyrra flm., átti þess kost fyrir nokkrum dögum að fara austur á Litla–Hraun og í viðtali við fanga þá, sem þar voru, kom það fram, sem við reyndar vissum fyrir, að vínið var aðalorsök ógæfu þeirra og öll meðferð þessara manna og fleiri, sem hafa orðið Bakkusi að bráð og fallið í glímunni við hann, er mikið vandamál. Það vandamál er sérstætt og mikið og þarf að taka til sérstakrar meðferðar hér á hv. Alþ. Hvað gæzluvistarsjóður getur lagt því til liðsinnis, skal ég ekki segja um á þessu stigi, en það er nauðsynlegt, að tekjuöflun hans og þetta vandamál í heild sé tekið til sérstakrar meðferðar og á þessu stigi viljum við því ekki binda prósentuvísitölu gæzluvistarsjóðs fasta af nettóágóða Áfengisverzlunar ríkisins. Því leggjum við til, herra forseti, eins og áður segir, að frv. verði vísað til hæstv. ríkisstj. til nánari meðferðar.