16.12.1970
Neðri deild: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

172. mál, almannatryggingar

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir, og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess óbreytts. Efni frv. er, eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. trmrh. hér í gær, að verið er að lögfesta þá venju, sem skapazt hefur við útreikning á tryggingarskyldu tímabili ýmissa starfshópa. Venjan hefur verið sú, að vinnuvika hefur verið talin 48 stundir og þá talin með eftir- og næturvinna, en samkv. úrskurði, sem ríkisskattanefnd kvað upp á þessu ári, var gengið út frá, að tryggingarvikan skyldi reiknuð út eftir dagvinnutímum eingöngu. Þetta mundi hafa í för með sér ýmsar breytingar frá því, sem verið hefur, og er því þetta frv. fram borið til þess að lögfesta þá venju, sem um þetta hefur gilt áður.

Ég tel ekki, að þurfi fleiri orð um þetta. Þetta kom greinilega fram í framsöguræðu hæstv. ráðh., en eins og ég sagði í upphafi, hefur heilbr.- og félmn. á fundi sínum í gær samþ. einróma að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.