28.01.1971
Neðri deild: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2507)

184. mál, skólakerfi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Reglugerð sú við nýju skólakostnaðarlögin, sem hv. síðasti ræðumaður lýsti eftir, var gefin út í morgun. Það skal fúslega játað, að það hefur tekið miklu lengri tíma en við í rn. höfðum gert ráð fyrir á sínum tíma að koma þessari reglugerð saman. En það á sér skýringar. Í fyrsta lagi er það að segja, að þessi reglugerð er sérstaklega vandsamin, í raun og veru aðeins á færi örfárra embættismanna að semja slíkt plagg sem þessi reglugerð er. Þá hefur verið lögð á það rík áherzla, að þegar reglugerðin loksins kæmi, væri hún óumdeild hjá þeim aðilum, sem hún skiptir mestu, m.ö.o. að menntmrn., fjmrn. og Samband ísl. sveitarfélaga hefðu komið sér endanlega saman um það, hvernig reglugerðin skyldi vera, á grundvelli gildandi laga. Þegar þrír aðilar þurfa að koma sér saman um margbrotin og flókin efni, eins og hér er um að ræða, er eðlilegt, að það taki tíma, en samkomulag náðist nú loksins fyrir nokkrum dögum, þannig að ekki ætti framar að vera neinn ágreiningur um, hvernig skilja skuli skólakostnaðarlögin, á milli menntmrn., fjmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga. Málið hefur verið þraut rætt í samstarfsnefndinni svokölluðu, sem komið var á fót á milli þessara þriggja aðila, að því er varðar atriði í sambandi við skiptingu skólakostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga.

Sú óvissa, sem ég engan veginn skal draga úr, að átt hefur sér stað, eins og hv. þm. nefndi, ætti þegar þessi reglugerð kemur til framkvæmda og bókstafur hennar verður öllum hlutaðeigandi ljós, a.m.k. að minnka og ég vona, að sá tími komi bráðlega, að hægt verði að segja með sanni, að hún sé alveg úr sögunni. En auk þess er þess að geta til skýringar á þeim drætti, sem orðið hefur og ég fyrir mitt leyti harma, að í sögu rn. hafa aldrei verið eins mikil umsvif og einmitt á þessum vetri, eins og m.a. þau tvö frv., sem nú hafa komið fyrir þingið, bera glöggt vitni um og segi ég það þeim embættismönnum til afsökunar, sem þurft hafa meiri tíma, en upphaflega var ráðgert til þess að semja það plagg, sem hér er um að ræða.