28.01.1971
Neðri deild: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (2511)

184. mál, skólakerfi

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans við fsp. minni hér áðan. Ég efast ekki um, að vitneskjan um reglugerðina mun gleðja þá skólamenn og fleiri, sem fóru þess á leit við mig, að ég beindi þessari fsp. til hans – gleðja þá og fleiri slíka, sem hafa átt við vandræði að stríða vegna skipulagsleysis í þeim málum, sem fsp. mín snerti. Ég efast ekki um, að hún muni gleðja þá menn, þó að sjálfsögðu því aðeins, að hún leysi vandann og málunum verði skipað með þeim hætti, sem þeir hafa óskað eftir.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs hér aftur, var þó einnig sú, að mér kom í hug á þessu stigi málsins, að ekki væri kannske úr vegi, að ég léti ljós mitt skína í sambandi við einn lið, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. drap hér á áðan og það er það ákvæði í 63. gr. frv., þar sem segir:

,;Í samræmi við markmið grunnskóla skal námsskrá kveða á um: a) þjálfun í notkun móðurmálsins og fræðslu um íslenzkar bókmenntir og menningu.“

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, eða allt frá því að ég fór að fást við kennslu, að móðurmálskennslan í skólunum væri ekki með þeim hætti sem skyldi. Í barnaskólum og gagnfræðaskólum fer allt of mikill tími af móðurmálskennslunni í það, sem við nefnum málfræðistagl, meira og minna þýðingarlaust málfræðistagl og stafsetningarkennslu. Kennurum er samkv. reglugerð uppálagt að búa nemendur undir próf, sem gera að sjálfsögðu ákveðnar kröfur í þessum efnum og við kennarar finnum að sjálfsögðu til ábyrgðar gagnvant nemendum og leggjum þess vegna sérstakt kapp á það, að þeir standist þau próf, sem þeir stefna að og stöðvist ekki við þau á menntabrautinni. En fyrir bragðið tel ég, að raunveruleg kennsla, að því er móðurmálið snertir, þjálfun í meðferð þess og ýmislegt annað, sem snertir móðurmálið, fari forgörðum í þessari kennslu. Íslenzku kennurum gefst ekki tóm til þess að auka til að mynda áhuga nemenda á íslenzkum bókmenntum eða þjálfa þá í að setja fram hugsanir sínar. Ritgerðirnar eiga að vísu að vera ein í viku, en það vill nú verða misbrestur á því og þar að auki er yfirleitt ekki tóm fyrir kennarana að fara nógu rækilega í þær, til þess að nemandinn hafi af þessu verulegt gagn. Í fáum orðum sagt, ég tel, að íslenzku kennsla í skólum okkar sé allt of mikið stagl. Ég hef sjálfur að vísu aðeins kennt í gagnfræðaskólunum.

Ég drap á stafsetningarkennsluna. Kröfur varðandi stafsetningu eru allt of strangar. Að mínum dómi er það engin goðgá, þó að menn hafi ekki alveg á valdi sínu, hvar eigi að vera y eða z og allt of mikill tími fer einmitt í þetta stagl. Ég hef stundum sagt, að vegna þess, hve lögð er mikil áherzla á þetta stagl við kennsluna, þá sé kerfið a.m.k. — ég vil ekki segja kennararnir, — en kerfið einna mestur skaðvaldur íslenzkrar tungu, sjálft kerfið. Að mínum dómi ætti að ljúka stafsetningar kennslunni á barnaskóla stiginu, eins og það hefur verið og í allra síðasta lagi við unglingapróf. Ég tel, að það verði litlu bætt við stafsetningar kunnáttu nemenda eftir unglingapróf. Mín reynsla er sú í gagnfræðaskólunum, að maður staglar sömu atriðin aftur og aftur fram til gagnfræðaprófs og það bætist lítið sem ekkert við þetta. Á þeim sama tíma hefði maður getað verið að kenna nemendum bókmenntir, fjalla um móðurmálið á lifandi hátt í staðinn fyrir að vera upptekinn við það allan tímann að búta það niður í flokkun sagna, flokkun nafnorða og dýsingarorða. (Gripið fram í: Það eruð þið, sem eruð að leysa það í sundur.) Já, ég hef nú stundum orðað þetta þannig, að þetta sé svipað því að athuga kvenlega fegurð t.d. með athugun á innyflunum, dæma fegurðina eftir botnlanganum, en ekki eftir heildinni.

Þó að ég hafi ekki kennt í barnaskóla, þá hef ég gert tilraunir með að kenna börnum stafsetningu og gera þá til þeirra þær sömu kröfur og maður gerir til gagnfræðaskólafólks. Í þessum tilfellum tel ég ekki um neinar sérstakar afburðagáfur að ræða, en ég náði alveg sama árangri með þessi börn undir barnaskólaprófið, svo að maður nú tali ekki um unglingaprófið, eins og maður hafði náð með beztu nemendur undir landsprófið sjálft. Ég er sem sagt á því, að stafsetningarstaglinu eigi að ljúka við barnaskólapróf og þá eigi að fara að kenna verulega móðurmálið og leggja stund á bókmenntir, þá eigi að lesa góðar bókmenntir og þá fyrst og fremst bókmenntir okkar. Ég held, að þangað sé að sækja eiginlega allan þann efnivið, sem við þurfum til þess að glæða með ungu fólki tilfinninguna fyrir móðurmáli okkar og þá um leið að bæta það sem Íslendinga, þó að ég hafi ekkert á móti seinni tíma höfundum. (Gripið fram í: Þeim betri.) Ég álít, að okkur nægðu bara 3—4 beztu fornsögurnar til þess að leggja þessa undirstöðu. Út frá þessu er mín reynsla sú, að þegar farið er að taka íslenzkuna þessum tökum, þá gefst manni jafnframt ærið tilefni til þess að fjalla um fleira en það, sem snertir þjóðmenningu okkar og þroska þar með nemendurna að því er varðar þann þáttinn í menningu okkar, sem sé ekki aðeins móðurmálíð, heldur söguna og margt, margt fleira.

Þetta eru ábendingar, sem ég hef viljað koma á framfæri hér og ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að málfræðistaglinu, sem við nefnum, kennararnir,— og stafsetningarstaglinu, á að ljúka við barnapróf og þá á að hefja raunverulega móðurmálskennslu, og allur tími íslenzku kennara að fara í að þroska málkennd og tilfinningu fyrir því, sem fagurt er í tungu okkar og bókmenntum.