11.03.1971
Neðri deild: 60. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (2523)

247. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Samkv. l. nr. 10 1961 um Seðlabanka Íslands er bankastjórn Seðlabankans heimilt að fengnu samþ. ráðh. að leyfa öðrum bönkum að verzla með gjaldeyri en þeim, sem nú hafa þann rétt innan takmarka, sem bankastjórnin ákveður. Þrír bankar, Búnaðarbanki Íslands, Iðnaðarbanki Íslands h.f. og Verzlunarbanki Íslands h.f., hafa fyrir alllöngu sótt um það til Seðlabankans að fá rétt til gjaldeyrisviðskipta samkv. ákvæðum þessarar gr. Um langt skeið undanfarið hafa átt sér stað viðræður um þessi mál milli viðskrn., Seðlabankans og þeirra banka, sem nú hafa einkarétt til þess að verzla með erlendan gjaldeyri, Landsbanka Íslands og Útvegsbaka Íslands og fyrrnefndra þriggja banka, sem sótt hafa um leyfi til gjaldeyrisviðskipta. Hinn 1. marz s.l. tilkynnti Seðlabankinn viðskrn., að í framhaldi af athugunum þeim, sem hann hefði gert á málinu og þeim viðræðum, sem fram hefðu farið, hefði hann ákveðið að veita fyrrgreindum bönkum réttindi til gjaldeyrisviðskipta með ákveðnum skilyrðum og óskar eftir samþykki rn. á þessari ákvörðun. Eftir að hafa lagt málið fyrir ríkisstj. tilkynnti viðskrn. Seðlabankanum í gær, að ég samþykkti ákvörðun Seðlabankans.

Ákvörðun Seðlabankans felur í sér, að Búnaðarbanki Íslands, Iðnaðarbanki Íslands h.f. og Verzlunarbanki Íslands h.f. fái allir leyfi, er feli í sér, að þeir fái í áföngum rétt til þess að reka alhliða gjaldeyrisviðskipti. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að þróunin í átt til fullra gjaldeyrisréttinda verði mismunandi hröð hjá þessum þrem bönkum og verði farið eftir tveimur meginsjónarmiðum. Í fyrsta lagi verði stefnt að því, að þróun gjaldeyrisviðskipta verði ekki hraðari, en tæknileg og fjárhagsleg geta hinna nýju gjaldeyrisbanka leyfir. Gjaldeyrisviðskipti eru tæknilega vandasöm og fela auk þess í sér verulegar fjárhagslegar skuldbindingar gagnvart útlöndum fyrir hlutaðeigandi banka. Þess vegna er mikilvægt, að í þessu sambandi sé farið að með fullri gát, þar sem mistök gætu orðið viðkomandi banka fjárhagslega dýr og auk þess valdið álitshnekki fyrir íslenzka banka erlendis, en þeir njóta þar nú almenns trausts. Í öðru lagi er æskilegt, að þróun gjaldeyrisviðskipta hjá hinum nýju gjaldeyrisbönkum verði ekki hraðari en svo, að það valdi ekki óeðlilega mikilli röskun á bankaviðskiptum. Gjaldeyrisviðskipti eru tiltölulega dýr þjónusta og mjög ör þróun í þessum efnum gæti leitt til slæmrar nýtingar afkastagetu í gjaldeyrisdeildum bankanna. Með tilliti til þess, hversu miklu stærri og fjárhagslega sterkari Búnaðarbankinn er, en bæði Verzlunarbankinn og Iðnaðarbankinn, er eðlilegt, að uppbygging í gjaldeyrisviðskiptum verði hraðari hjá honum en hinum bönkunum.

Það hlýtur þó að liggja í eðli málsins, að ekki er hægt að ákveða áfangaskiptingu af þessu tagi nema að nokkru leyti fyrir fram, þar sem farið verður eftir þeirri reynslu, sem fæst í framkvæmd. Er það ætlun Seðlabankans að ákveða í upphafi aðeins, hvaða hluta réttindanna viðkomandi bankar skuli fá þá, en taka ákvörðun um síðari áfanga eftir því, sem reynsla segir til um. Stefnt er að því, að nýju bankarnir þrír fái allir rétt til þess að annast venjulega gjaldeyrissölu, hvort sem um er að ræða bréflegar eða skriflegar yfirfærslur, sölu á erlendum tékkum, erlendar innheimtur o.s.frv. Hins vegar mun réttur bankanna til þess að opna reikninga hjá erlendum bönkum vera takmarkaður og er gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn veiti leyfi til slíkra reikningsopnana hverju sinni. Er þessi takmörkun á opnun reikninga bæði gerð í sparnaðarskyni og til þess að koma í veg fyrir óeðlilega samkeppni. Af þessum takmörkunum mun hins vegar leiða það, að nýju gjaldeyrisbankarnir verða að nokkru leyti að afla sér gjaldeyris með því að kaupa ávísanir og yfirfærslur í gegnum annan hvorn af eldri bönkunum. Er gert ráð fyrir því, að þeir geri um þetta samning annaðhvort við Landsbankann eða Útvegsbankann, en þeir hafa báðir næga starfsgetu til þess að annast slík viðskipti. Er gert ráð fyrir því, að Búnaðarbankinn opni fljótlega reikninga í öllum helztu viðskiptalöndum Íslendinga. Á hinn bóginn er ekki talið heppilegt né nauðsynlegt, að minni bankarnir tveir byrji gjaldeyrisviðskipti með meira en tvo til þrjá erlenda reikninga hvor um sig, t.d. í Lundúnum, New York og einu Norðurlandanna. Ætti það að nægja til þess, að þeir gætu afgreitt meginhluta erlendra ávísana sjálfir, en í því er fólginn mikill sparnaður.

Þar eð erlendar ábyrgðir eru hvort tveggja í senn vandasamasta og áhættusamasta þjónusta, sem gjaldeyrisbankarnir veita, er ekki talið æskilegt, að nýju gjaldeyrisbankarnir taki upp þessa þjónustu, fyrr en þeir hafa fengið góða reynslu í öðrum þáttum gjaldeyrisviðskipta. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir því, að hinum nýju gjaldeyrisbönkum verði leyfð opnun á ábyrgðum erlendis þegar í upphafi, heldur mundi Seðlabankinn taka ákvarðanir um heimild til þeirra síðar, þegar þeir hefðu aflað sér meiri reynslu og sérhæfingar í þessum efnum. Engar takmarkanir eru settar í upphafi á rétt nýju gjaldeyrisbankanna til þess að kaupa erlenda seðla, ferðatékka og ávísanir. Hins vegar er ekki talið æskilegt, að þeir fjalli fyrst í stað um meðferð útflutningsskjala eða ábyrgðir og innheimtur vegna útflutnings. Þeir gætu hins vegar að sjálfsögðu tekið við slíkum afgreiðslum frá viðskiptamönnum sínum og látið það ganga í gegnum annan hvorn gjaldeyrisviðskiptabankann eða Seðlabankann.

Seðlabankinn hefur í hyggju að stefna að því, að hin nýju leyfi til gjaldeyrisréttinda taki að einhverju leyti gildi 1. júlí n.k. Megin vandamálin í sambandi við innheimtu gjaldeyrisréttinda til nýrra banka eru fólgin í röskun samkeppnisaðstöðu, sem fylgja mun í kjölfar, slíkrar breytingar. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt, að hinir nýju gjaldeyrisbankar beini í vaxandi mæli fjármagni sínu til útflutningsatvinnuveganna og undirstöðufyrirtækja í innflutningsverzlun og iðnaði, en létti að sama skapi byrðum af eldri gjaldeyrisbönkunum í þessum efnum. Í þessu felst, að verulega yrði dregið úr þeirri sérhæfingu bankanna í útlánum, sem hefur einkennt íslenzka bankakerfið til þessa. Í öðru lagi er nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að losa einstaka banka við byrðar af erlendum skuldum. Hafa um þetta farið fram viðræður á milli Seðlabankans, gömlu gjaldeyrisbankanna og hinna þriggja banka, sem gert er ráð fyrir, að fái gjaldeyrisréttindi. Þessar viðræður hafa fyrst og fremst snúizt um það, að hinir nýju gjaldeyrisbankar verði alhliða viðskiptabankar í miklu ríkara mæli en nú á sér stað, en þó einkum og sér í lagi, að þeir veiti sjávarútveginum aukna þjónustu miðað við það, sem verið hefur.

Í framhaldi af ákvörðuninni um gjaldeyrisréttindi til handa Búnaðarbanka, Iðnaðarbanka og Verzlunarbanka er nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á gildandi löggjöf um skipan innflutnings– og gjaldeyrismála o.fl. Sú löggjöf er frá 1960 og var þá, eins og eðlilegt er, miðuð við það, að gjaldeyrisbankarnir voru þá aðeins tveir, Landsbankinn og Útvegsbankinn. Í þessu frv. er fyrst og fremst fólgin óhjákvæmileg og sjálfsögð breyting á núgildandi l. í kjölfar þess, að gjaldeyrisbankarnir verða nú 5 en ekki 2. Þannig er í frv. gert ráð fyrir því, að allir viðskiptabankar, sem heimild hafi til að verzla með erlendan gjaldeyri, skuli eiga aðild að svonefndri gjaldeyrisdeild bankanna, sem nú starfar, ásamt Seðlabankanum og viðskrn. Það er hins vegar nýmæli í frv., að gert er ráð fyrir heimild til þess að grípa til sérstakra ráðstafana í gjaldeyrisviðskiptum, ef nauðsyn ber til vegna hættu– eða óvissuástands í gengis– eða gjaldeyrismálum innanlands eða utan, en slíkt ákvæði virðist eðlilegt.

Þá er gerð nokkur breyting á ákvæðum gildandi laga um heimild banka til að taka lán erlendis, en slík breyting er eðlileg, þegar gjaldeyrisbönkunum fjölgar. Það er eðlileg afleiðing þeirrar starfsemi, sem gjaldeyrisviðskiptabankarnir reka með kaupum og sölu á gjaldeyri, að þeir geti eignazt innstæðu erlendis, en einnig er þeim af viðskiptaástæðum nauðsyn að geta tekið erlendis stutt lán, sem þeir fá að jafnaði innan umsaminna yfirdráttarheimilda hjá viðskiptabönkum sínum. Innstæður, sem gjaldeyrisbankarnir eignast erlendis umfram eðlilegar viðskiptaþarfir, eru auðvitað hluti af þeim gjaldeyrisvarasjóði, sem landið ræður yfir. Gjaldeyrisbankarnir geta, ef þeir hafa bolmagn til, varðveitt slíka innstæðu sjálfir, en þó eru ákvæði um, að Seðlabankinn, sem falið er það hlutverk samkv. 1ögum að varðveita gjaldeyrisvarasjóð landsins, geti fengið slíkan gjaldeyri keyptan, ef hann telur það nauðsynlegt, t.d. vegna ástands gjaldeyrismála. Eins er nauðsynlegt, að ákvæði séu í lögum um, að lántökur gjaldeyrisviðskiptabankanna erlendis séu innan þeirra marka, sem eðlilegar viðskiptaþarfir krefjast og að jafnaði ekki umfram það, sem svarar erlendum innstæðum viðkomandi banka á sama tíma. Veita má þó undanþágu frá þessu, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Ef gjaldeyrisviðskiptabankarnir óska að taka lán erlendis, er endurgreiðist á lengri tíma en einn ári, er í frv. gert ráð fyrir því, að sams konar reglur gildi um slíkar lántökur og nú gilda yfirleitt um lántökur erlendis til lengri tíma en eins árs, en þær eru háðar samþykki viðskrn.

Að síðustu skal þess getið, að smávægileg breyting er gerð á gildandi lagaákvæðum um innheimtu gjalds af gjaldeyris– og innflutningsleyfum. Þetta gjald er núna 1/2% af leyfisfjárhæð nema hvað það er 0,1% á olíur og benzín. Þrátt fyrir þetta þykir rétt, að heimilda áfram allt að 1% leyfisgjald, en ekki er fyrirhugað að hækka það frá því, sem nú á sér stað. Samkv. núgildandi l. skal helmingur þessa gjalds renna í ríkissjóð til greiðslu á kostnaði við verðlagseftirlit. Samkv. ákvæðum þessa frv. skal gjaldið látið ganga til gjaldeyrisdeildar bankanna, eftir því sem nauðsynlegt er, til þess að standa straum af rekstrarkostnaði hennar. Að öðru leyti skal gjaldið renna í ríkissjóð. Rekstrarkostnaður verðlagseftirlitsins verður áfram eins og nú greiddur samkv. fjárl.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði, að lokinni þessari 1. umr., vísað til 2. umr. og hv. fjhn.