31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2534)

300. mál, niðursuðuverksmiðja á Siglufirði

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal aðeins hafa fá orð um þetta frv. við framsögu þess nú. Niðursuðuiðnaður féll undir iðarn. um áramótin 1969 og 1970. Frá þeim tíma hef ég töluvert orðið var við erfiðleika þessarar verksmiðju og var það fljótt ljóst, að það bæri nauðsyn til þess að koma málefnum hennar fyrir með öðrum hætti, en verið hefur að undanförnu. Hún hefur lifað í skjóli Síldarverksmiðja ríkisins og því erfiðara hefur verið um vik, sem Síldarverksmiðjurnar sjálfar hafa þurft að horfast í augu við meiri erfiðleika. Það var þess vegna stofnað til þess á s.l. ári að athuga nánar aðstöðu þessa fyrirtækis og með hverjum hætti væri hægt að koma því á sjálfstæðan grundvöll fjárhagslega og rekstrarlega. Það hefur verið svo, að lengst af hefur verksmiðjan verið rekin með tapi og stundum miklu. Ég held, að hún hafi aðeins einu sinni skilað einhverjum hagnaði vegna gengisbreytinga, þegar hráefni var keypt á hagstæðara verði vegna þess og hægt var að selja vörurnar á hækkuðu verði í erlendum gjaldeyri. Á hitt ber hins vegar að líta, að málið hefur mikla þýðingu fyrir atvinnulif á Siglufirði og svo ætti aðstaða einnig að verða betri og er þegar ljóst, að hún er nokkru betri, en áður til þess að selja niðursuðuvarning á erlendan markað eftir inngöngu okkar í EFTA og það hefur þegar komið í ljós við sölusamninga, sem gerðir hafa verið á þessu ári. Ég tel þess vegna, að það ætti að vera hægt innan ramma þessarar löggjafar að koma fyrirtækinu á sjálfstæðan rekstrarlegan og fjárhagslegan grundvöll og vinna að því ötullega, að það geti orðið héraðinu eða Siglufirði og íbúum þess til hagsbóta atvinnulega séð um leið og að sjálfsögðu væri þá þjóðhagslega hagkvæmt að eiga slíkan verksmiðjurekstur, sem gæti skilað arði í útflutningsverðmætum.

Ég hef kosið að skipa þessu með þeim hætti, sem í frv. greinir, innan ramma hlutafélaga. Það hefur mörgum stundum fundizt, að jafnvel væri til þyngsla, hversu mikið af ríkisfyrirtækjum væri á Siglufirði og ég tel líka alveg nauðsynlegt, að ef á að endurvekja slíkt fyrirtæki og skapa því sjálfstæða tilveru og rekstur, að það sé fyrir hendi áhugi og vilji einstaklinga eða samtaka einstaklinga til þess að vera með í því að reisa fyrirtæki þannig og gera það þannig úr garði, að það geti rekstrarlega séð verið rekið á hagkvæmum grundvelli bæði atvinnulega og fjárhagslega.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð til þess að tefja ekki þingtímann og leyfi mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.