31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (2538)

300. mál, niðursuðuverksmiðja á Siglufirði

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er af því að ég á sæti í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, sem hafa stýrt þessu fyrirtæki, að ég vildi gjarnan segja hér örfá orð og segja álit mitt á því, hvernig ég tel skynsamlegast að leysa þetta mál Niðurlagningarverksmiðjunnar.

Þessi niðurlagningarverksmiðja hefur verið rekin um nokkurra ára skeið og þar hefur farið fram talsverð starfræksla, eins og hér hefur komið fram — verið upplýst. Miklar tilraunir hafa verið gerðar til að selja vörur hennar erlendis, en með nokkuð misjöfnum árangri, en þó með þeim árangri, að starfræksla hefur heldur vaxið og nú hefur tekizt að selja á fleiri mörkuðum en áður, eins og þegar hefur verið upplýst. Fer fram á þessu ári mesta starfræksla, sem þarna hefur átt sér stað.

Þessi verksmiðja mun teljast vel búin að vélum og tækjum sem niðurlagningarverksmiðja, ekki sem niðursuðuverksmiðja, heldur sem niðurlagningarverksmiðja. Meðan Síldarverksmiðjum ríkisins vegnaði vel fjárhagslega, vantaði þessa verksmiðju ekki rekstursfé og það var hægt að útvega þau tæki, sem til þurfti. En síðan Síldarverksmiðjur ríkisins komust í algjört fjárþrot, sem allir þekkja, hefur það háð þessari verksmiðju að vera bundin við Síldarverksmiðjur ríkisins.

Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hefur gert till. um það og gerði meira að segja till. um það fyrir nokkrum árum, að setja þessari verksmiðju sérstaka stjórn, blanda ekki stjórn hennar inn í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins. Okkur fannst sjálfum nokkur hætta á því, að hún yrði út undan, þegar hún væri aukaverkefni á vegum Síldarverksmiðja ríkisins. Enn fremur finnst okkur, að þessi verksmiðja hafi ekki fengið í bankakerfinu það rekstursfé, sem hún með réttu hefði átt að fá og m.a. hafi mætt allt of mikið á hæstv. ríkisstj. að útvega fé. Verksmiðjan hafi ekki fengið þá fyrirgreiðslu í bönkum, sem hún hefði átt að geta fengið nálega vélrænt, að okkar dómi.

Ég tel, að það væri skynsamlegt að setja nýja löggjöf um niðurlagningarverksmiðju á Siglufirði í þá stefnu, að ríkið héldi áfram að reka verksmiðjuna á sínum vegum, en henni væri ætlað nokkurt viðbótarfjármagn í aukinn stofnkostnað og rekstur, sem hún þarf á að halda og hún þannig efld fjárhagslega og fengin sérstök stjórn. Þetta tel ég, að ætti að vera í nýju frv. um Niðurlagningarverksmiðju rúkisins.

Ég tel, að það séu ákaflega sterk rök fyrir því, að ríkið reki a.m.k. eina slíka verksmiðju. Það er geysilega margt ógert í tilraunaskyni í niðurlagningu og niðursuðu, mjög margt og ég hef ekki trú á því, að það sé á færi einstaklinga eða verksmiðju, sem væri rekin eingöngu með peningasjónarmið fyrir augum, að gera þær tilraunir, sem þarf. Ég tel því nauðsynlegt, að ríkið reki a.m.k. eina myndarlega verksmiðju í þessari grein og ég álit, að Siglufjörður eigi það inni hjá þjóðarbúinu, að réttmætt sé að sá staður sé valinn til að efla slíkan iðnað. Álít ég, að það eigi að halda áfram með þennan rekstur, gera hann sjálfstæðan og hlynna að honum fjárhagslega.

Það má í raun og veru segja, þó margt hafi gengið öðruvísi en menn hafa viljað, þá sé búið að skapa þarna nokkuð góðan grundvöll til þess að byggja á. Það er að vísu nokkuð takmarkað enn, sem hægt er að taka þarna fyrir, en það er mjög miklu auðveldara að byggja ofan á það, sem fyrir er nú, og taka t.d. upp nýjar greinar og eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, þyrfti að færa starfræksluna út.

Ég óttast það mjög, að kasti ríkið þessari verksmiðju frá sér á þá lund, sem mér finnst nánast þetta frv. gera ráð fyrir og setji hana hálfgert á hrakhóla, geti farið illa. Það er algjör óvissa um, hvernig þetta verður, ef farið verður svona að og ég tel það ekki skynsamlegt, heldur eigi hreinlega að hlynna að Niðurlagningarverksmiðju ríkisins. Menn geta haft um þetta mismunandi meiningar, eins og hér hefur komið fram. Þetta er mín skoðun og ekki sízt byggð á því, að ég tel alveg óhjákvæmilegt, að ríkið reki eitt fyrirtæki af þessari gerð, mest til að hafa með höndum með öðru tilrauna— og brautryðjandastarf. Það verður aldrei hægt að koma nægilegum skriði á niðurlögnina, nema ríkið hjálpi til á þá lund. Það er einnig hjálp við einkaatvinnureksturinn, að ríkið taki að sér að ryðja þannig brautirnar. Það var okkar reynsla, þegar hraðfrystiiðnaðurinn var byggður upp, að þannig væri skynsamlegt að fara að. Síðar, þegar meiri skriður væri kominn á mörg og stór fyrirtæki, gæti komið til greina að breyta til.

Ég sé ekki, að það ætti neitt að þurfa að tefja málið að snara sér í að breyta frv. út frá þessu sjónarmiði, sem ég var að nefna.