22.02.1971
Efri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (2591)

211. mál, höfundalög

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess nú þegar við þessa 1. umr. að taka undir það með hv. 1. þm. Norðurl. v., að það er fagnaðarefni, að þetta frv. er fram komið og ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir að hafa beitt sér fyrir samningu þess. Það hefur engan veginn verið vansalaust nú um alllangt skeið, hversu úrelt að ýmsu leyti sú höfundalöggjöf hefur verið, sem við höfum búið við. Höfundar hugverka hafa að sjálfsögðu fundið alveg sérstaklega til þessa og raunar hafa opinberir aðilar gert það öðru hverju. Vafalaust var það vegna þess, þegar menn nokkru fyrir 1960 fundu til þess, að höfundalöggjöfin var orðin úrelt, að þá var hafizt handa um það að endurskoða þá löggjöf. Eins og hæstv. ráðh. sagði, samdi þá dr. Þórður Eyjólfsson mjög rækilega álitsgerð og nýtt frv. til höfundalaga. Ég held, að það hafi legið ljóst fyrir, að ástæðan til þess að það frv. var þá lagt til hliðar eða náði ekki fram að ganga var fyrst og fremst sú, að ýmis ákvæði þess höfðu verulegan kostnað í för með sér og þá e.t.v. alveg sérstaklega fyrir ákveðnar ríkisstofnanir eins og ríkisútvarpið og e.t.v. fyrir fleiri aðila. Síðan hefur þetta legið nokkuð í láginni, enda þótt eigendur margvíslegs höfundaréttar hafi verið mjög óánægðir með það, hversu margir þættir löggjafarinnar um höfundarétt hafa verið orðnir úreltir. En nú hefur verið samið nýtt frv., eða hið fyrra frv. Þórðar Eyjólfssonar endurskoðað og samið nýtt frv., og við fljótlegan yfirlestur sýnist mér, að það sé í mjög mörgum atriðum til mikilla bóta frá þeim höfundalögum, sem í gildi hafa verið og ég fagna þessu.

Þar sem þetta frv. fer til n., sem ég á sæti í, sé ég ekki ástæðu til þess að fara að gera mörg einstök atriði þess að umtalsefni á þessu stigi málsins. Það er að vísu miður farið, að þetta frv. skyldi ekki koma nokkuð fyrr fram á þinginu, því að það er svo margþætt og sérhæft að ýmsu leyti og vandmeðfarið, að það gefur auga leið, að það er orðinn skammur tími til stefnu fyrir þá n., sem um þetta kemur til með að fjalla, að gera því rækileg og æskileg skil, ef svo er til ætlazt, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Það má e.t.v. segja, að þetta mál hafi nú beðið svo lengi, að það skipti ekki höfuðmáli, hvort það nær fram að ganga nú á þessu þingi eða á næsta þingi og gæti þá væntanlega fengið rækilegri athugun en hægt yrði að gera nú. En þó býst ég við, að ýmsum, sem eftir réttarbótum hafa beðið ærið lengi, þyki það nokkru máli skipta, að ekki dragist nú mjög úr hömlu að ganga frá höfundalögum, sem segja megi, að séu í samræmi við nútímaviðhorf og nútímasjónarmið, að því er tekur til þessara mikilvægu efna.

Þegar farið er að athuga nánar einstök atriði þessa frv., þá geri ég ráð fyrir, að nokkur vafaatriði komi upp, eins og gengur, þegar um slíka löggjöf sem þessa er að ræða. Ég vil aðeins benda á tvö atriði, sem ég er nokkuð kunnugur, þar sem mér virðist, að n. ætti sérstaklega að huga að, hvort ekki þyrfti að breyta eða bæta nokkuð um ákvæði í frv. Það er annars vegar, að það hefur tíðkazt allmikið á síðari árum, að tveir eða jafnvel fleiri legðu hönd að og væru í rauninni sameiginlegir höfundar bóka, til að mynda á þann veg, að annar segir fyrir eða skýrir ritara frá ævi sinni eða hugsunum, ef um viðtalsbækur er að ræða. Ég hygg, að það þurfi að líta sérstaklega á þetta atriði og setja þar um einhverjar reglur, því að það mun hafa verið svo hér fram að þessu, að þeir menn, sem lögðu til oft á tíðum merkilegt efni til slíkra endurminninga og viðtalsbóka, hafa gjarnan lítið eða ekkert fengið fyrir sitt framlag, en riturunum eða skrásetjurunum þá gjarnan verið borgað það, sem á annað borð hefur verið greitt fyrir slíkt. Þetta er eitt af þeim atriðum, sem ég tel, að þurfi að hyggja að.

Annað, sem ég gæti aðeins nefnt nú, er það, að mér sýnist í fljótu bragði, að þau ákvæði, sem þarna eru um það, að höfundur bókar geti ekki selt ritið eða verk sitt öðrum útgefanda, fyrr en hið fyrra upplag er uppselt hjá fyrri útgefanda, þurfi nokkurrar endurskoðunar við. Ég veit dæmi þess, að þegar til að mynda er um safnrit að ræða, sem hefur kannske komið út á allmörgum árum, þá getur staðið þannig á, að uppseldur sé meiri hluti safnritsins, en útgefandi eigi þó óseld eitt eða tvö hefti e.t.v. af 5 eða 6 eða 10. Þá tel ég alveg óeðlilegt, að hann geti komið í veg fyrir það, að slíkt ritverk væri gefið út að nýju og um þetta þyrfti að setja, held ég, nánari ákvæði en þarna eru.

Það eru sem sagt vafalaust ýmis vafaatriði í sambandi við setningu slíkrar löggjafar sem þessarar, sem þarf að líta á og trúlega þarf málið að fá athugun hjá ýmsum félagssamtökum, sem það snertir alveg sérstaklega. Það þarf þess vegna að gefa sér nokkurn tíma til þess að vinna að þessu máli. Ég legg svo á það áherzlu, að það er orðin brýn nauðsyn, að ný höfundalöggjöf verði sett og ég lít þannig á, að þetta frv. sé í meginatriðum og í öllum aðalatriðum stórt skref í rétta átt í þessu efni og á því megi alveg tvímælalaust byggja mjög vel viðunandi höfundalöggjöf.