25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (2685)

15. mál, námskostnaðarsjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. er hreyft mjög merkilegu nauðsynjamáli — því máli, hvernig hægt sé að stuðla að því, að ekkert ungmenni þurfi að fara á mis við menntun vegna bágborins efnahags eða slæmrar aðstöðu til þess að sækja skóla. Hins vegar er þetta mál mun flóknara, en fram kemur í frv., brtt., sem fram við það er komin og grg. og segi ég þetta vegna þess, að þessi mál hafa verið til mjög rækilegrar athugunar í menntmrn. undanfarin tvö ár og eru enn, án þess þó að rn. hafi, enn sem komið er, tilbúnar endanlegar hugmyndir eða till. um, hvernig úr þessum vanda skuli bæta og tryggja sem bezt réttlæti. Að málið er flókið og vandasamt kemur ekki hvað sízt fram í því, að 1. flm. frv., hv. 1. þm. Vestf. Sigurvin Einarsson, hefur sjálfur ásamt fleiri hv. þm. í menntmn. flutt brtt. við sitt eigið frv. Í frv. var gert ráð fyrir því, að hlutverk Námskostnaðarsjóðs skyldi vera að veita námsstyrki þeim nemendum í skólum landsins, sem verða að dveljast fjarri heimilum sínum meðan á námi stendur, m.ö.o. markmið frv. var einvörðungu að stefna að því að bæta úr skorti eða kostnaðarauka, sem þeir verða fyrir, sem hafa erfiða aðstöðu til þess að sækja skóla. Hins vegar er vandamálið auðvitað miklu stærra og víðtækara. Það þarf einnig að huga að þeim áhrifum, sem mismunandi efnahagur hefur á aðstöðu manna til þess að sækja skóla, og miðar brtt. að því að betrumbæta frv. að því leyti.

Það er nokkuð óvenjulegt, að aðalflm. frv. flytji brtt. við sitt eigið frv. Það er afar lítill vandi að halda smáræðustúf um þetta, en ég geri það ekki. Ég tel málið vera miklu vandasamara og í rauninni meira alvörumál en svo, að ástæða sé til þess að við hafa nokkurt gamanmál í því sambandi eða gera nokkra tilraun til þess að efna ti1 umr. af því tagi, sem af því mundi hljótast. Erindi mitt er að segja frá því, að þetta mál allt í heild er í athugun í menntmrn. í framhaldi af því, að fyrir tveimur árum var tekin upp fjárveiting í tilraunaskyni, 10 millj. kr., til þess að nota til námsstyrkja, sem áttu að jafna aðstöðu manna til þess að sækja skóla. Samdar voru umfangsmiklar reglur til þess að tryggja það, að þessi litla fjárveiting kæmi að sem beztum notum. Við samning þeirra reglna og framkvæmd þeirra komu í ljós margvísleg og mjög flókin vandamál. Það reyndist afar erfitt að nota þessar 10 millj. þannig, að viðunandi mætti teljast, ekki aðeins vegna þess, að upphæðin var lítil, heldur komu ótal framkvæmdaörðugleikar í ljós — m.ö.o., hugmyndir manna um það, hvað væri jöfnuður á aðstöðu til þess að hljóta menntun, gátu verið mismunandi og mátti færa rök fyrir mismunandi skoðunum í því efni. Þessi upphæð var aukin í 15 millj. á þessu ári, og er nú verið að semja reglur um það, hvernig þessum 15 millj. skuli úthlutað. Það verður án efa unnt að sníða ýmsa agnúa af þeim reglum, sem settar voru í fyrra, af því að upphæðin jókst úr 10 millj. í 15 millj., en það verður engan veginn hægt að tryggja það réttlæti í þessum efnum, sem æskilegt er talið, með þessari upphæð. Og jafnvel þó að hún yrði tvöfölduð, yrði samt um að ræða ótalmörg álitamál, sem taka þyrfti ákvörðun um og er þetta mál allt í rækilegri athugun.

Þetta vildi ég láta koma fram, að það er fullur vilji af hálfu menntmrn. og af hálfu ríkisstj. til þess að halda áfram á þeirri braut, sem þegar hefur verið lagt út á — stíga hvert sporið á fætur öðru í þá átt, sem við teljum, að stefni að auknum jöfnuði Ekki aðeins á aðstöðunni til þess að sækja skóla, heldur einnig til þess að bæta úr því misrétti, sem mismunandi efnahagur kann að valda á getu ungmenna til þess að sækja skóla.

Ég vil geta þess, að núverandi þjóðfélagskerfi gerir ýmsar ráðstafanir til þess að jafna þann mun, sem er á efnahag manna og þann mun, sem er á aðstöðu manna til þess að sækja skóla. Þar vil ég fyrst og fremst vekja athygli á því, að hér er skólavist ókeypis frá því, að skyldunám hefst og þangað til lengsta háskólanámi lýkur. Þetta á sér engan veginn stað í öllum nálægum löndum og raunar færri nálægum löndum en fleiri. Í þessu er fólgið meginframlag íslenzka ríkisins til þess að gefa öllum, sem hug hafa á skólanámi, kost á því að hljóta það nám. En það er engan veginn svo, að við þetta sé látið sitja. Um er að ræða ýmiss konar ráðstafanir á félagsmálasviðinu, sem m.a. er ætlað að auðvelda fjölskyldum sem hafa fyrir börnum að sjá, það að láta þau hljóta skólamenntun. Tilgangur fjölskyldubóta, sem greiddar eru til og með 15 ára aldri og tilgangur barnalífeyris, sem nú er ætlunin að hefja að greiða allt að 16 ára aldri, er m.a. sá að auðvelda barnmörgum fjölskyldum að láta börn sín sækja skóla. En í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því, að þegar fjölskyldubætur á sínum tíma og barnalífeyrir voru miðaðar við 15 ára aldur, hefur án efa þar verið höfð hliðsjón af því, að skólaskylda var þá til 15 ára aldurs og er það enn. Nú eru uppi áætlanir um, eins og hv. þm. er kunnugt, að lengja skólaskyldu til 16 ára aldurs. Ég tel alveg rökrétta afleiðingu af því vera, að bæði barnalífeyrir og fjölskyldubætur séu lengd um eitt ár, eins og nú er raunar fyrirhugað og nái þannig a.m.k. til skólaskyldunnar.

En meira er gert en þetta til þess að jafna efnahagsmun í þessu sambandi og það er atriði, sem almenningi og jafnvel alþm. virðist ekki vera fullkunnugt um. Gildandi skattalög veita heimild til verulegs frádráttar vegna barna, sem eru í skóla og getur sá frádráttur orðið allt að 39 þús. kr. vegna hvers skólanemanda, sem foreldrar hafa á framfæri í skóla. Hér er auðvitað um að ræða mjög mikilvægt framlag af hálfu ríkisins til þess að jafna efnahagsmun foreldra, sem eiga börn í skóla. Það er líka um að ræða verulegar ráðstafanir nú þegar til þess að jafna aðstöðumuninn og vil ég í því :sambandi nefna niðurgreiðslu á fæði í heimavistum og greiðslu á flutningi nemenda frá heimili til skóla. Þetta er sú aðstoð til jöfnunar á aðstöðumun, sem var í gildi, áður en 15 millj. km. styrkurinn kom til skjalanna. Hann kemur síðan til viðbótar því. Að því er snertir það nám, sem er lengst og dýrast, háskólanámið, þá er, eins og allir vita, í gildi mjög víðtækt kerfi ti1 námslána og námsstyrkja ti1 þess að bæta úr efnahagsmun, sem kann að vera hjá þeim aðilum, sem vilja stunda háskólanám.

Ég bendi á, að nú þegar hafa verið gerðar og eru gerðar margvíslegar ráðstafanir af hálfu hins opinbera til þess að jafna efnahagsmun og aðstöðumun þeirra, sem vilja sækja skóla allt frá barnaskóla og til loka háskólanáms. Engu að síður er mér algerlega ljóst, að það, sem þegar hefur verið gert, er ekki nóg og þess vegna hefur athugunum á þessu máli verið haldið áfram í menntmrn. og þess vegna get ég í sjálfu sér mjög vel skilið og læt í ljós ánægju mína yfir þeim áhuga, sem kemur fram á þessu máli með flutningi þessa frv. og þeirrar brtt., sem við það hefur þegar verið flutt. Þær hugmyndir, sem fyrst og fremst eru uppi um þetta efni, eru þær að láta greiðslu fjölskyldubóta og barnalífeyris fylgja skólaskyldunni, eins og þegar hefur fyrsta sporið verið stigið í áttina að. Það er í alla staði eðlilegt, að menn njóti bæði fjölskyldubóta og barnalífeyris fyrir börn, meðan þau eru í skylduskóla og það ætti að vera verulegt framlag til þess að auðvelda foreldrum þá fjárhagsbyrði, sem af því er að hafa börn á skyldunámsstigi og raunar er ekki nema sjálfsagt, að ríkið komi til móts við barnmargar fjölskyldur í þessu efni, þegar það skyldar börn og unglinga til þess að vera í ríkisskóla.

Ég tel, að mjög sómasamlega hafi verið séð fyrir þörfum háskólastúdenta, eins og ástand lána- og styrkjamála er nú og þó sérstaklega miðað við þær áætlanir, sem uppi eru um áframhald á aukningu á opinberum framlögum í Lánasjóð ísl. námsmanna, þ.e.a.s. að gefnar hafa verið bindandi yfirlýsingar um það, hver stefna ríkisvaldsims skuli vera í þeim efnum, og ég tel, að þar þurfi ekki um að bæta. En eftir stendur framhaldsskólastigið, þ.e.a.s. nemendur, sem eru í framhaldsskólum eftir að hafa lokið skyldunámi og þangað til þeir kunna að hefja háskólanám. Það er vandinn. Og þetta stig mundi vera þriggja ára stig, ef frv. um grunnskóla og skólakerfi nær fram að ganga á næsta þingi, sem ég vona, að verði. Og þá tel ég, að samfara lögfestingu þeirra frv. um 1engingu skólaskyldunnar um eitt ár þurfi að koma sérstakar ráðstafanir til þess að aðstoða þá nemendur, sem stunda vilja framhaldsnám, sem gera má ráð fyrir að verði í framtíðinni enn þá fleiri, en þeir hafa verið að undanförnu.

Þessi vandi um stuðning við framhaldsskólanemendurna hefur farið vaxandi á undanförnum árum vegna þess, að tala framhaldsskólanemendanna hefur farið vaxandi á undanförnum árum, stórvaxandi og það hefur auðvitað kallað á auknar ráðstafanir gegn vandanum og aukið stærð hans. En það má hins vegar ekki verða ti1 þess, að menn hrökkvi frá því að gera tilraun til þess að leysa hann. Þetta mætti gera með ýmsu móti. Ég skal ekki ræða það í einstökum atriðum, en aðeins nefna þær hugmyndir, sem helzt hafa verið uppi í því sambandi. En þær eru að gera ráð fyrir, að í raun og veru haldi greiðsla fjölskyldubóta og barnalífeyris áfram allt til loka þess tíma, sem þeir eru í skóla, m.ö.o., að allir nemendur í framhaldsskólum skuli hljóta hliðstæða aðstoð og felst í greiðslu fjölskyldubóta til barna og unglinga, meðan þeir eru í skylduskólanum og greiðsla barnalífeyris fari fram, á meðan menn eru í skylduskólanum og þá geri ég ráð fyrir því, að næsta spor verði að færa greiðslu fjölskyldubóta upp um eitt ár, þ.e.a.s. samræma greiðslu fjölskyldubóta skólaskyldualdrinum. Síðan tel ég, að í stað þess að heimila þann skattafrádrátt, sem nú er heimilaður vegna nemenda í skóla, þá eigi að hætta honum, en ríkið að taka tilsvarandi fjárhæð og sparast við það og leggja í Námskostnaðarsjóð ásamt upphæð, sem svarar til fjölskyldubóta og barnalífeyris fyrir nemendur á framhaldsskólastiginu og hefja síðan sjálfstæðar fjárveitingar í sjóðinn. Ef þetta þrennt dugir ekki, upphæð, sem svarar til fjölskyldubóta á nemendur, sem eru í framhaldsskólum, upphæð, sem svarar til barnalífeyris til nemenda, sem eru í framhaldsskólum og upphæð, sem svarar til þess, sem ríkið sparar við það, að skattfrádrætti er hætt vegna nemenda í framhaldsskólum. Það hafa þegar verið gerðar áætlanir um, hversu miklum fjárhæðum þetta mundi nema. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara svo ýtarlega út í málið að nefna það hér, en þær eru verulegar. Og þeim mætti síðan jafna á alla nemendur, sem eru við nám í framhaldsskólum. Þar vaknar sú mjög viðkvæma spurning, hvort jafna eigi slíkri upphæð jafnt á alla nemendur í framhaldsskólum eða taka tillit til efnahags foreldranna. Eins og menn vita er ekki tekið tillit til efnahags foreldranna eða aðstandenda við úthlutun lána og styrkja úr Lánasjóði ísl. námsmanna. En það er mjög umdeilt atriði. Stefna stúdentanna sjálfra hefur verið sú að taka ekki tillit til efnahags aðstandenda, en svo mörg rök, sem má færa fyrir báðum sjónarmiðum í því tilliti, má færa enn fleiri rök fyrir ólíkum sjónaniðum í þessu efni, ef um væri að ræða styrk eða laun til framhaldsskólanemenda, svo að ég skal ekki fara 1engra út í það að ræða það efni hér.

Grundvallarhugmyndin, sem verið er að fjalla um og hugleiða alla kosti og galla við, er sem sagt þessi, að eftir að skólaskylda hefur verið lengd um eitt ár og eftir að einu ári hefur verið bætt við fjölskyldubætur, eins og nú er meiningin að gera við barnalífeyrinn, þá verði tekið að greiða til framhaldsskólanemenda hliðstæðar upphæðir og fjölskyldubætur, barnalífeyrir og skattahlunnindi nú nema auk fjárveitinga úr ríkissjóði, sem mundu verða ákveðnar hverju sinni. Ástæðan til þess, að ég tel miklu réttlátara að hætta við skattafrádrátt vegna nemenda, sem nú á sér stað og nemur verulegum upphæðum, en taka í staðinn upp beinar greiðslur úr ríkissjóði til nemendanna, er sú, að nú hagnast menn þeim mun meir á skattafrádrættinum, sem þeir hafa hærri tekjur. Núverandi kerfi ívilnar í raun og veru þeim tekjuhærri miðað við hina tekjulægri, vegna þess að frádrátturinn lækkar skattinn hlutfallslega meira, eftir því sem tekjurnar eru hærri og menn komast hærra í skattstigann, svo að sú upphæð, sem ríkið núna ver til námsfólks í formi skattafrádráttar, nýtist að mínu viti miklu, miklu verr en hún ætti að nýtast.

Þetta eru þær grundvallarhugmyndir, sem á döfinni eru um þetta efni og ég er sannfærður um, að ef þær komast til framkvæmda í einu eða öðru formi, yrði bætt úr þeirri gloppu, sem er á núverandi kerfi til aðstoðar við nemendur, þ.e.a.s. annars vegar við nemendur á skyldustiginu og hins vegar við nemendur á háskólastiginu. Ég geri mér vonir um, að fullnaðarathugun á þessum efnum geti verið lokið eftir nokkrar vikur og þá munu að sjálfsögðu niðurstöður þeirra athugana liggja fyrir í rn. til ráðstöfunar fyrir þá, sem þar fara með foráð, þegar kosningu er lokið. Málið er ekki nógu vel undirbúið til þess, að við getum mælt með því, að þetta þing taki afstöðu til þess og þess vegna hefur meiri hl. menntmn. lagt til, að þessu máli yrði vísað til ríkisstj., en ég tel, að málið geti fyrir næsta þing orðið svo rækilega undirbúið, að hverjir þeir, sem þá fara með völd, geti lagt fram um það mjög rökstuddar og ýtarlegar till. A.m.k. er unnið að því, að svo geti orðið. Það er m.ö.o. málið sjálft, sem í mínum og okkar augum skiptir mestu máli, að sé rækilega kannað og skynsamleg og ábyrg lausn á því undirbúin.

Ég skal að síðustu lýsa yfir því, að verði þessu máli vísað til ríkisstj., mun hún skoða það sem staðfestingu Alþ. á því, að þeim athugunum, sem þegar eru í gangi á þessu mikilvæga máli, skuli haldið áfram og hverjir svo sem fara með völd í rn., skulu undirbúnar till. lagðar fyrir næsta þing um lausn á þessu vandamáli. M.ö.o., ég vil undirstrika það, að verði málinu vísað til ríkisstj., felst í því jákvæð afstaða Alþ. og áskorun á ríkisvaldið um það að finna jákvæða lausn á þessu vandamáli.