18.11.1970
Neðri deild: 20. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (2877)

111. mál, verkfræðiskrifstofa Vestfjarðakjördæmis

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að verða langorður um þetta má, það skýrir sig að mestu leyti sjálft. En það er af þeim rótum runnið, að bæjarstjórn Ísafjarðar gerði fyrir nokkrum árum samþykkt í þá átt, að þessi hugsun væri borin fram í lagaformi á Alþ. Það er skoðun okkar flm., hv. 1. þm. Vestf. og mín, að þá stefnu eigi að taka upp að dreifa ýmiss konar mikilvægum þjónustustofnunum um landsbyggðina, en fram til þessa hafa þær flestar eða nálega allar verið staðsettar í Reykjavík. Þessu frv. er aðeins ætlað það að tryggja bætta sérfræðiþjónustu í verklegum efnum á Vestfjörðum og gefur að skilja, að ef sú hugsun hlyti undirtektir, þá væri ákaflega eðlilegt, að dreifingu þjónustustofnana á þessu sviði, varðandi aðra landshluta, yrði einnig skipað með sama hætti. Og það er vissulega svo, að það teldum við flm. þessa frv., sem eingöngu fjallar um Vestfirði, við teldum það mjög eðlilegt. Efni frv. er það, að stofnuð skuli verkfræðiskrifstofa á Ísafirði til þess að annast þar verkfræðilegan undirbúning og fylgjast með framkvæmd opinberra framkvæmda, mannvirkjagerðar í Vestfjarðakjördæmi. Skrifstofa þessi skuli vera ríkisstofnun og aðalverkefni hennar það að annast verkfræðilegan undirbúning vega– og brúargerða, hafnargerða og lendingarbóta, svo og undirbúning skipulagsmála í þessu kjördæmi, allt undir yfirstjórn þeirra manna í þjónustu ríkisins, sem nú stjórna þessum málum í heild frá skrifstofu sinni í Reykjavik, þ.e.a.s. vegamálastjórinn, vita– og hafnarmálastjórinn og skipulagsstjórinn.

Hér er því um að ræða tillögu um það, að verkefnum þessara skrifstofubákna í Reykjavík verði skipt upp og dreift út um landsbyggðina og að því er varðar þetta mál, eins og það er flutt í þessu frv., þá verði deildir úr þessum skrifstofum ríkisins öllum staðsettar vestur á Ísafirði og þjónusta varðandi alla slíka opinbera mannvirkjagerð innt þar af hendi í heimahéraði. Þá er enn fremur ætlazt til þess, að skrifstofan annist hvers konar verkefni fyrir sveitarfélögin í landshlutanum og enn fremur fyrir einstaklinga, sem óski fyrirgreiðslu af hennar hendi og séu þá gjöld greidd af sveitarfélögunum fyrir þá þjónustu, sem þau njóti frá skrifstofunni og full greiðsla frá einstaklingum fyrir þá fyrirgreiðslu, sem skrifstofan veiti þeim við þeirra framkvæmdir. Enn fremur er það tekið fram í 2. gr., að skrifstofan skuli einnig annast önnur verkfræðistörf við mannvirki og framkvæmdir, sem til sé stofnað á vegum ríkisins eða ríkisstofnana að einhverju eða öllu leyti, svo sem byggingu skóla, sjúkrahúsa, embættisbústaða, sundlauga, félagsheimila o.s.frv. Ég held, að það sé þess vegna ekkert álitamál, að fyrir slíka verkfræðiskrifstofu væru ærin verkefni.

Því verður vafalaust varpað fram, hvort þetta mundi ekki verða miklu dýrara í framkvæmd heldur en með því að hafa skrifstofu vegamálastjórnarannar, vitamálastjórnarinnar og skipulagsstjórans eingöngu hér í Reykjavík, allt á einum stað og skal ég ekkert um það fullyrða, mér finnst það geta orkað tvímælis. Ég held, að sending sérfræðinga út um landsbyggðina til eftirlitsferða og til þess að veita verkfræðilega aðstoð, stundum til langrar dvalar á hinum ýmsu stöðum, þar :sem framkvæmdir eru á döfinni, geti verið ærið dýrar og kannske slagað upp í það skrifstofuhald í landshlutunum, sem hér er lagt til að upp verði tekið. Hitt er, finnst mér, meginatriðið, að það eru allar líkur til þess, að verkfræðileg þjónasta héðan sunnan úr Reykjavík, þegar um er að ræða mannvirkjagerð og framkvæmdir úti á landi, hún er fjarlæg, hún er ófullkomin, hún er dýr og þetta leiðir oftlega til þess, að stofnað er til mannvirkjagerðar úti á landi án nægilegs sérfræðilegs undirbúnings og án þess að hafa sérfræðilega þekkingu svo við hendina sem æskilegt væri. Þar af geta sprottið margs konar mistök og að mannvirkin sjálf verði í senn ófullkomnari og dýrari og það er mikill ljóður á ríkjandi fyrirkomulagi, sem ég held, að líkur væru til að færi betur úr hendi og sparaði kannske offjár, ef vel tækist til um þessa hugmynd, sem hér er borin fram. Það fer ekkert á milli mála, að fólkið í þessum byggðarlögum telur þessa mikla þörf. Bæjarstjórn Ísafjarðar lagði á málið þunga áherzlu á sinni tíð, þegar það beindi því til mín og annarra þáverandi þm. Vestf. En einstaklingar í verkfræðingastétt hafa komið auga á þessi verkefni og t.d. er það svo, að Verkfræðiskrifstofa Sigurðar Thoroddsen hefur haft einn mann þarna, a.m.k. hluta úr árinu, til að koma til móts við þessa miklu og fjölþættu þörf. En þessu væri miklu betur borgið, ef ríkið tæki þetta verkefni að sér og þá ekki aðeins í þessum landshluta. Fyrir mér vakir það, að slíkt væri gert í öllum landshlutum, þó að við höfum eingöngu einskorðað okkar frumvarpsflutning við Vestfirðina.

Aðalatriðið er það að skipta upp vitamálaskrifstofu, vegamálaskrifstofu og skipulagsstjóraskrifstofunni eftir landshlutum og inna þjónustuna þar af hendi. Það veiti betri þjónustu, tryggi betur verkfræðilegan undirbúning undir mannvirkjagerð og auki kannske byggingarhraða eða framkvæmdahraða, af því að sérþekkingin er nærtæk og það finnst mér vera aðalatriðið og það er a.m.k. sú hugsun, sem vakir fyrir okkur flm. Við teljum líka mjög mikla þörf á því, að sveitarfélögin eigi kost á slíkri sérfræðilegri aðstoð, sem frv. gerir ráð fyrir og einstaklingarnir mundu vissulega kunna að meta slíka bætta aðstöðu í sínum framkvæmdastörfum. Það er að minni hyggju of þunglamalegt og stirt að verða að sækja alla verkfræðilega aðstoð til Reykjavíkur. Það er mjög bagalegt oft og tíðum, þegar mannvirkjagerð er hafin. Þetta væri eitt með öðru ráðstöfun í þá átt að gera landsbyggðina byggilegri. Þetta er þess vegna byggðajafnvægismál öðrum þræði.

Ég veit ekki alveg fyrir víst, til hvaða n. eðlilegast væri, að þetta frv. færi, ætli það sé ekki bara fjhn. Já, ég held, að ég leggi það til, herra forseti, að málinu verði vísað til hv. fjhn., þegar umr. lýkur.