01.02.1971
Neðri deild: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (2948)

150. mál, náttúruvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Allir þeir, sem láta sér annt um náttúruvernd, hljóta að fagna því frv., sem hér liggur fyrir, svo langt sem það nær. Þetta er spor í rétta átt, þó hvergi nærri nógu stórt spor, að mínum dómi. Ég mun þó ekki að þessu sinni ræða í einstökum atriðum það, sem á skortir, að frv. geti tryggt viðunandi lausn á því vandamáli, sem knúið hefur á um flutning þess. Hins vegar vil ég ræða annað mál í þessu sambandi.

Hv. framsögumaður sagði hér áðan: „Frv. þetta er augljóslega skylt þeim deilum, sem staðið hafa um framhaldsvirkjanir í Laxá.“ Og þetta er rétt. Ég vildi nota þetta tækifæri til að ítreka það, sem ýmsir hafa áður sagt, að á meðan ríkisvaldið og hið opinbera heldur uppteknum hætti, að sýna lítinn sem engan skilning, litinn sem engan stuðning, heldur þvert á móti oft og tíðum fullan fjandskap þeim málstað, sem þetta frv. er helgað, horfir ekki vænlega um framgang þessa málstaðar. Afstaða hins opinbera verður að gjörbreytast, ef þessi málstaður á að sigra. Og það er að mínum dómi táknrænt um afstöðu hins opinbera, að á sama tíma og þetta frv. kemur fram, þá stendur hið opinbera í málarekstri gegn 65 Þingeyingum og virðist stefna að því að fá þá dæmda í tukthús fyrir það eitt að berjast af einurð fyrir þessum málstað. Eftir að þessir Þingeyingar höfðu æ ofan í æ árangurslaust krafizt réttar síns gagnvart lögbrotum hins opinbera og yfirgangi, eins og hann birtist í framferði Laxárvirkjunarstjórnar, gripu þeir til þeirra aðgerða norður við Miðkvísl í sumar, sem frægar eru orðnar. Þær aðgerðir voru þrautaráð og studdust við skýlausan rétt þeirra, sem að þeim stóðu. Og þegar þeir fylgdu þessum aðgerðum eftir með formlegri kæru á hendur hinum seka, á hendur hinum raunverulega lögbrjót, .þ.e. Laxárvirkjunarstjórn, þá var þeirri kæru vísað frá. Þess í stað hafa þeir Þingeyingarnir verið kærðir sjálfir fyrir lögbrot eða m.ö.o. fyrir að krefjast réttar síns.

Og víkjum þá aftur að málstaðnum. Hver er hann, þessi málstaður þeirra Þingeyinganna? Hann er málstaður allrar þessarar þjóðar og í raun og veru málstaður alls lífsins á þessum hnetti. Það er ekki langt síðan það rann upp fyrir verkfræðingum og hagfræðingum á Vesturlöndum, að þeir eru komnir á fremsta hlunn með að spilla svo þessum hnetti, að öllu lifi verði útrýmt á tiltölulega fáum áratugum. Í stóru iðnaðarlöndunum vestan hafs og austan er ástandið orðið þannig, að sérfræðingar telja, að manninum sjálfum verði varla líft þar nema nokkra áratugi, þó svo að hann kosti öllu til að tóra. Þar sem harkalegast hefur verið að unnið, svo sem í New York, Chicago, Cleveland og Los Angeles, svo að nefndir séu nokkrir staðir í Ameríku, er talið, að 5—15 ár með sama áframhaldi nægi til þess að eitra andrúmsloft og umhverfi svo, að enginn haldi lífi nema með því að anda í gegnum gasgrímu. Stærstu stöðuvötn N.-Ameríku og helztu fallvötn hafa verið eitruð svo, að þeir fáu fiskar, sem í þeim lifa, eru sjálfir eitraðir. Þannig er það t.d. um „Erievatnið“, sem áhrifamikil kvikmynd var sýnd um hérna í sjónvarpinu ekki alls fyrir löngu og Lake Michigan og fleiri stórvötn þar vestra. Og svipaða sögu er að segja frá V Evrópu.

Til þess að stöðva þróunina í Ameríku er talið að verja þurfi álíka upphæð árlega og Bandaríkin vörðu til herkostnaðar í síðari heimsstyrjöldinni. Til þess að bæta ástandið, svo að það geti talizt viðunandi á ný eftir svo sem 15 ár, er talið að verja þurfi árlega tvöfaldri þeirri upphæð.

Tæknin hefur leitt mannfólkið í vítahring. Fyrir hvern ávinning, sem mannkynið hefur fengið, hefur það mátt gjalda tvöfalt verð. Það er t.d. athyglisvert núna, þegar hamrað er á því hér á Íslandi, að við þurfum að flýta okkur að virkja fallvötnin og selja orku þeirra fyrirfram fyrir spottprís, vegna þess að kjarnorkurafstöðvar muni framleiða ódýrari orku, þá er það athyglisvert, að Bandaríkjamenn hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að eitrun andrúmslofts frá kjarnorkuverunum sé svo erfitt vandamál, að ekki sé hægt að reikna með því, sem þeir kalla „hagstæðan rekstur“ slíkra raforkustöðva. Kjarnorkuraforkustöðvarnar vestra gefa frá sér svo mikið af geislavirku joði, að krabbamein í skjaldkirtli hefur af þessum sökum margfaldazt vestra á fáum árum. Hreinsun þessa geislavirka joðs úr loftinu frá kjarnorkuverunum er svo dýr, að rafmagnsframleiðslan borgar sig ekki.

Bandarískir hagfræðingar hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að tækniframfarirnar, sem við nefnum svo, hafa þegar til stykkisins kemur, ekki reynzt neinar framfarir. Þeir telja, að það hafi komið í ljós, svo að ekki verði um villzt, að sjálfur hnötturinn okkar með öllum sínum gögnum og gæðum, standi ekki undir vöxtum að kapítali. Hnötturinn hefur gert uppreisn gegn kerfinu. Menn hafa vaknað af draumi um dásamlegar og óendanlegar tæknilegar framfarir og við þeim blasir hryllileg tæknileg eyðilegging. Frekja mannsins með reiknistokkinn og vaxtatöfluna hefur raskað jafnvægi lífsins á jörðinni.

Þetta hafa menn uppgötvað úti í heimi og hrokkið upp af blundinum. Og allmargir hér heima á Íslandi hafa líka vaknað við ramakveinin utan úr heimi. En því miður ekki nógu margir enn þá. Nú hafa góðir menn norður í Þingeyjarsýslu unnið að því af dirfsku og því kappi og þeirri orku, sem efnin leyfa, að vekja hina. Og til þess hafa þeir m.a. orðið að nota dínamít norður við Miðkvísl.

Eftir að fulltrúar Þingeyinga höfðu setið á svonefndum sáttafundi í Laxárdeilunni í vetur, fengu þeir bréf undirskrifað af tveimur ráðuneytisstjórum, þar sem þeir eru víttir harðlega fyrir framkomu sína á þessum fundi, fyrir afstöðu sína þar og fyrir þau vinnubrögð, sem þeir beita í viðleitni sinni að vernda óspillta íslenzka náttúru. Það mætti vera mönnum umhugsunarefni í þessu sambandi, að annar þeirra ráðuneytisstjóra, sem undirskrifaði þetta bréf og þóttist þess þannig umkominn að vanda um við Þingeyingana, var sjálfur yfirverkfræðingur við virkjun Efra–Falls í Sogi. Og það, sem ég segi hér, kom fram í útvarpi í vor og það hefur ekki verið borið til baka. Í því starfi leyfði þessi verkfræðingur, að dreift var nokkrum tunnum af skordýraeitrinu DDT á bakka Þingvallavatns og Sogs. Þetta skordýraeitur útrýmdi mýinu við Sogið og heldur sennilega áfram að dauðhreinsa vatnið, — hvað lengi? Það er ekki gott að segja. En það hefur sýnt sig, að DDT–eitrið situr í bökkum þeirra vatna, þar sem því hefur verið dreift og heldur áfram að drepa skordýr ófyrirsjáanlega lengi, kannske svo öldum skiptir. Og með þessu var sem sé rofin sú hringrás, sem er undirstaða alls lífs við Sogið og í því.

Nú vilja menn e.t.v. spyrja hver hafi verið tilgangurinn með þessu verki. Ég hef ekki getað fundið aðra skýringu en þá, að viðkomandi verktakar hafi talið nauðsyn á því að útrýma mýinu, svo að það angraði ekki iðnaðarmenn og verkamenn og tefði þá við vinnu sína, enda var þarna um ákvæðisverk að ræða og þar með einhverjir peningar, einhver gróðahlutur, í húfi.

En fyrst ég minnist á Sogið, þá mun það mála sannast, að dæmin þaðan hafi ekki hvað sízt ýtt undir Þingeyingana í baráttu þeirra fyrir lífi í Laxá og Mývatni. Þegar Sogið var virkjað, var því heitið, munnlega að vísu, við veiðimálastjóra, að hætt yrði vatnssveiflum af hálfu virkjunarinnar. Steingrímur Hermannsson, forstjóri Rannsóknaráðs ríkisins, lýsti því í útvarpsþætti í vor, hvernig það loforð hefur verið haldið. Hann stóð með veiðistöng sína á sunnudagsmorgni í hitteðfyrra á eyrunum, þar sem Sogið hefði átt að renna og eyrarnar voru þaktar dauðum lax— og silungsseiðum.

Og nú er Þingeyingum legið á hálsi fyrir það að trúa ekki munnlegum loforðum iðnaðarmálaráðherra og annarra slíkra opinberra aðila og ekki heldur svardögum þeirra um, að undirstöður, sem verið er að steypa undir stíflugarða, verði ekki notaðar undir stíflugarða og um það, að jarðgöng, sem verið er að gera fyrir Suðurárveitu, verði alls ekki notuð fyrir Suðurárveitu. Og þeim hefur verið legið á hálsi fyrir það að efast um, að niðurstöður rannsókna á líffræðilegum áhrifum af stíflugerð við Laxá verði látnar ráða, á sama tíma og niðurstöður rannsókna á eitrun frá álverinu í Straumsvík sýndu ótvíræða eitrun, en því var lýst yfir af opinberri hálfu, að eitrunin réttlætti ekki, að komið yrði upp hreinsitækjum. Í slíkan kostnað mætti ekki leggja, fyrr en afleiðingar eitrunarinnar hefðu komið rækilega í ljós. En réttmæti þessara efasemda þeirra Þingeyinganna ætti þó að verða nokkru ljósara núna, þegar allir íslenzkir líffræðingar að undanskildum tveimur, aðeins tveimur, að því er mér skilst, 37 íslenzkir líffræðingar hafa með yfirlýsingu um flúormengun frá álverinu lagt fram enn eina ótvíræða sönnun um það, hvorum megin hjarta ríkisvaldsins slær í þessum átökum öllum.

Vestan hafs og austan hefur eyðilegging tækninnar vakið slíka skelfingu, að borgararnir sjálfir hafa tekið til sinna ráða og afsagt óhreinkunar spillingarverksmiðjur eins og álver og olíuhreinsunarstöðvar. Valdhafarnir hafa orðið svo hræddir við reiði fólksins, að þeir hafa horft á það þegjandi, að fólkið rífur niður hálfbyggð verksmiðjuhús þessarar tegundar. Í miðju Atlantshafi, hér hjá okkur, eru hins vegar auglýstar lóðir undir þessar verksmiðjur og hér stuðla valdhafar bókstaflega að því að eyðileggja náttúruverðmæti, sem hinn hrjáði lýður iðnaðarríkjanna mundi gefa allan sinn tækniauð til þess að eignast aftur. Þar hefur dómurinn verið kveðinn upp og þar er gildi þeirra verðmæta, sem aðeins verða metin í heilbrigðri lífsnautn og fegurð og hamingju, tekið fram yfir gildi þeirra verðmæta, sem aðeins verða metin í peningum. En þar er þetta orðið of seint. Hér er það hins vegar ekki orðið of seint.

Ég vildi sem sé vekja athygli á þessu og það skulu vera niðurlagsorð þessarar ræðu minnar, að allir góðir Íslendingar standa í þakkarskuld við Þingeyingana fyrir baráttu þeirra. Það er ekki sízt fyrir áhrif þeirrar baráttu, að það er, nú að verða ljóst æ fleiri Íslendingum, hver eru hin raunverulegu verðmæti þessa okkar góða lands.