22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil taka hér undir með öðrum þm. af Austurlandi og fagna því, að þetta frv. um virkjun Lagarfoss er lagt hér fyrir Alþ. og að ríkisstj. skuli hafa tekið ákvörðun um það, að ráðizt verði í þá virkjun, sem frv. fjallar um. Það er, eins og hér hefur verið sagt, um gamalt baráttumál Austfirðinga að ræða. Það er rétt, að við þm. Austf. höfum allir í mörg ár klifað á því við stjórnvöld og yfirmenn í raforkumálum, að það væri orðin knýjandi nauðsyn á því að ráðast í þessa virkjun, en því miður hefur okkar sókn gengið grátlega seint. Það hefur sem sé farið þannig allan þennan langa tíma, að alltaf hefur verið talað um nýja og nýja athugun, og það hafa verið skipaðar margar nefndir, málið dregizt og raforkuþörf Austfirðinga hefur verið leyst með síauknum dísilvélakosti.

En nú er þessu tímabili lokið, og það liggur fyrir að taka hér formlegar ákvarðanir um það á Alþ., að ráðizt verði í virkjun Lagarfoss, þó að þar sé að vísu aðeins um byrjunarframkvæmd að ræða. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni, að þessum áfanga er þó náð. Ég vil fyrir mitt leyti leggja áherzlu á það, að um leið og ráðizt er í virkjun Lagarfoss, þá verður að hafa það í huga, að það þarf jafnhliða að gera ráðstafanir í þá átt að nýta þá miklu möguleika, sem þar skapast. Það má ekki við það una, að raforkunotkun á Austurlandi verði aðeins bundin við það stig, sem hún er á nú. Þarna er auðvitað um gífurlega mikla möguleika að ræða til að auka hagkvæmari raforkunotkun. Það er býsna athyglisvert í þessu sambandi, sem fram kemur í grg. þessa frv. og staðfestir það, sem við þm. Austf. höfum æðioft drepið á í viðræðum okkar við yfirvöld raforkumála, að það er ekkert um það að villast, að vegna ástandsins, sem við höfum búið við í raforkumálum, hefur raforkunotkun ekki verið með eðlilegum hætti í þessum fjórðungi. Í grg., sem fylgir þessu frv., segir m. a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Að tekinni þeirri grundvallarákvörðun, sem hér um ræðir,“ — þ. e. um það að ráðast í virkjun Lagarfoss — „myndu Rafmagnsveitur ríkisins stefna að sem hagfelldastri uppbyggingu orkumarkaðar á Austurlandi með hliðsjón af væntanlegum innsetningartíma virkjunar og með tilliti til hagsmuna orkunotenda.“

Ég þarf ekki að lesa meira. Í þessu felst bein viðurkenning á því, að þegar hér verður um orku að ræða frá vatnsvirkjun, þá telja raforkuyfirvöld fyrst ástæðu til þess að fara að beita sér að hagkvæmari notkun raforkunnar. Menn viðurkenna það, að auðvitað hefur heildarreksturinn verið í því formi, að allt væri miðað við það, að menn notuðu eins litla raforku og hægt væri að komast af með, af því að hún væri óheyrilega dýr. Það þarf auðvitað að miða við það t. d., að ráðizt verði almennt í upphitun húsa með raforku á Austurlandi, þegar ný virkjun er komin í gagnið. Það þarf vitanlega að reikna með því, að það verði um verulegt framhald að ræða á nýjum verksmiðjurekstri og að þó nokkuð af verksmiðjurekstri, sem fyrir er á Austurlandi, verði raunverulega tengdur við orkuveitusvæðið auk þess, sem það hlýtur vitanlega að skapast á Austurlandi aðstaða til fjölbreyttari iðnrekstrar en þar er nú. Í sambandi við þetta frv. hefur verið á það minnzt hér í umr., að það kæmi til athugunar að íhuga nokkru betur eignar- og rekstraraðild að hinni nýju virkjun á Austurlandi. M. a. hefur verið lesið hér upp bréf frá einni lítilli rafveitu á Austurlandi, rafveitunni á Reyðarfirði, þar sem þess er farið á leit, að sú rafveita geti e. t. v. orðið eignaraðili að þessari virkjun. Og hv. 3. þm. Austf., Jónas Pétursson, lagði hér einnig á það áherzlu í sinni ræðu, að hann teldi, að það þyrfti að athuga sérstaklega um þessa hlið málsins.

Í sambandi við þetta vil ég fyrir mitt leyti leggja áherzlu á það, að það verði án frekari tafa af nýjum og nýjum athugunum ráðizt í að gera þá virkjun, sem gert er ráð fyrir með þessu frv., og á þeim grundvelli, sem miðað er við í frv. Ef menn teldu það síðar hagkvæmara, að Austfirðingar, sveitarfélög á Austurlandi, yrðu aðilar að Austurlandsveitu með ríkinu, þá er vitanlega hægt að breyta þar um rekstrar- og eignaraðild, þó að Lagarfossvirkjun væri komin upp. Það er til allmikið rafveitukerfi á Austurlandi nú þegar, og hér yrði því ekki aðeins um það að ræða að breyta um eignaraðild frá því, sem er markað í þessu frv., að Lagarfossvirkjun, heldur á veitukerfinu í heild. Þetta mál hefur verið allmikið til umræðu meðal Austfirðinga, og menn hafa vitanlega rekið sig á það, að það er hægara sagt en gert að ætla að breyta því eignar- og rekstrarformi, sem þarna hefur verið byggt upp, og taka þar upp nýtt form. Þar koma upp margvísleg vandamál, sem eru þess eðlis, að eigi að fara að athuga um það að greiða úr þeim vandamálum og ljúka þeim öllum á viðunandi hátt, þá er ósköp hætt við því, að það dragist að ráðast í Lagarfossvirkjun í nokkur ár enn.

Ég álít því, að það sé mest í samræmi við þær samþykktir, sem Austfirðingar almennt hafa gert í þessu máli, og í samræmi við vilja þeirra, að ráðizt verði í Lagarfossvirkjun samkv. þessu frv., og ríkið, sem hefur þegar tekið í sínar hendur svo að segja öll raforkumálin á Austurlandi, framkvæmi þessa virkjun. Síðar verði athugað um það, ef menn óska sérstaklega eftir því að breyta þarna eignar- og rekstraraðild frá því, sem nú er. þetta vil ég fyrir mitt leyti leggja höfuðáherzlu, því að samkv. þessu frv. er við það miðað, að hin nýja Lagarfossvirkjun verði tekin í notkun að tveimur árum liðnum eða í lok ársins 1972. Það má því ekki verða hér neinn dráttur á framkvæmdum. Það þarf að ráðast í framkvæmdirnar strax og vinna að þeim alveg ósleitilega, ef á að ná þessu marki. Ég vil vænta þess, að þeir aðilar, sem kunna að hafa skoðun á því, að annað rekstrarform en það, sem við höfum búið við í þessum efnum, væri heppilegra, geri ekkert, sem gæti orðið til þess að tefja framkvæmdir í málinu.

En í þessum efnum vil ég segja það, að ég tel, að í þessum efnum sé orðin brýn nauðsyn á því, að núverandi lög um Rafmagnsveitur ríkisins séu tekin til endurskoðunar. Það er mín skoðun, að verði það form ríkjandi áfram, að Rafmagnsveitur ríkisins eigi og reki orkuverin á Austurlandi og aðaldreifiveitur á því svæði, þá sé nauðsynlegt í þeim fjórðungi og auðvitað alveg eins í öðrum fjórðungum, þar sem svipað stendur á, að koma því þannig fyrir, að samtök heimamanna, t. d. samband sveitarstjórnanna á Austurlandi hafi aðstöðu til þess að vera virkir þátttakendur í stjórn fyrirtækisins á sínu svæði, hafi rétt til þess að tilnefna fulltrúa í stjórn og hafi þannig aðstöðu til þess að hafa veruleg áhrif á rekstur fyrirtækisins. Eðlilega mundi yfirstjórn raforkumála áskilja sér rétt til þess að ráða því, hvort ráðizt væri í meiri háttar nýjar framkvæmdir eða meiri háttar breytingar eða ekki, en undir rekstrarstjórnina mundu að sjálfsögðu falla margþætt viðfangsefni, sem upp koma á hverjum tíma í rekstri slíks fyrirtækis sem rafveitustjórnarinnar fyrir allt Austurland.

Ég tel, að það sé mikil þörf á því að. gera breytingar á gildandi l. að þessu leyti, en hitt er ég ekki eins viss um fyrir mitt leyti, að það sé hin æskilega stefna að margdeila upp Rafmagnsveitum ríkisins í ótalmargar smærri héraðs- eða sveitaveitur. Það er að vísu rétt, að það koma að sjálfsögðu gjarnan fram hjá fólkinu úti á landi, þegar því þykir, að seint gangi að sannfæra forystumenn suður í Reykjavík, sem hafa yfirstjórn á þýðingarmiklum framkvæmdamálum, kröfur um það, að bezt væri að slíta þetta allt í sundur og hafa þar einir og sjálfir með málin að gera. Þetta er ekkert sérstakt með raforkumál. Þetta kemur í ljós í flestöllum málaflokkum, þar sem reynir verulega á hagsmunaaðstöðu fólksins á hinum ýmsu stöðum. Þetta gæti t. d. átt við í sambandi við skóla- og fræðslumál og fjöldamörg önnur. Það ríkir þar ekki fullkomið samkomulag um það, hvernig yfirstjórnin er á þeim málum. En menn munu reka sig á það, að það mundu einnig fylgja því margvísleg vandkvæði, ef þessu yrði öllu deilt upp í smáhverfi eða smástjórnir og yfirstjórnin væri harla lítil.

En aðalatriðið í þessu máli tel ég þó vera það, að það þurfi að hefjast handa nú þegar um virkjun þá í Lagarfossi, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Það hefur enginn aðstæður til þess að ráðast í hana, eins og sakir standa, nema Rafmagnsveitur ríkisins, eins og gert er ráð fyrir í frv., og ríkið verður að útvega það fjármagn, sem til þarf. Ef til þess á að koma að breyta eignar- og rekstrarforminu á rafmagnsveitunum fyrir austan, þá getur það orðið eigi að síður á eftir, þegar Lagarfossvirkjun er orðin að veruleika, en það þarf ekki að fara að togast á um það atriði nú og setja þar með þessa framkvæmd í hættu eða eiga það á hættu, að hún dragist enn úr hömlu. Nógur er drátturinn, sem orðinn er og nóg er það tap, sem orðið hefur af þeim drætti. Ég mun svo styðja að því, eins og ég get, að þetta frv. fái fljóta afgreiðslu í þinginu.