15.03.1971
Neðri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í C-deild Alþingistíðinda. (3186)

244. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér í sambandi við þetta frv. á þskj. 468 að vekja athygli á einu málsatriði, sem ekki hefur komið fram í þessum umr. til þessa. Hæstv. ráðh. gat þess réttilega, að í þessum lögum væru sérstök ákvæði um verkamannabústaði, þar sem gert er ráð fyrir sérstakri lánaaðstoð til þeirra, sem geta notið verkamannabústaðalána samkv. þessum lögum. Hins vegar er það svo, að til þess að tekjulitlir menn geti notið þessarar aðstoðar, sem veitt er til byggingar verkamannabústaða, þá þurfa hlutaðeigandi sveitarfélög að leggja fram allmikið fé til þess að þetta geti átt sér stað. Ég vil vekja athygli á því, að ég held, að sumir fámennir kauptúnahreppar séu þannig á vegi staddir, að þeir muni eiga mjög erfitt með að inna af hendi slík framlög, vegna þess að tekjur þeirra eða þær tekjur, sem almenningur getur greitt í sveitarsjóðina, eru það litlar á þessum stöðum. Og ef sveitarfélag er ekki þess umkomið að leggja fram þá upphæð, sem áskilin er í ákvæðunum um verkamannabústaði, þá njóta fátækir menn í þessum sveitarfélögum ekki þeirra hlunninda að fá lán út á verkamannabústaði með þeim kjörum, sem hæstv. ráðh. minntist á og eru hagstæð kjör. Þess vegna finnst mér alveg sérstaklega vegna þessara staða, að það sé nauðsynlegt, að hér komi einhver viðbótaraðstoð í líkingu við verkalýðslánin, sem áður voru, eða þau lán, sem hv. flm. þessa frv. leggja til að veitt verði. Hitt er svo líka að sjálfsögðu rétt, sem komið hefur fram bæði hjá hv. frsm. og hv. þm. Vesturl., Halldóri Sigurðssyni, að það getur komið illa við marga, sem voru byrjaðir á byggingum íbúða, að þessi ákvæði um verkalýðslánin eru með svo stuttum fyrirvara niður felld.