15.12.1970
Efri deild: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja um þetta, en að gefnu tilefni og vegna fsp. til mín um, hvert yrði hlutverk Rafmagnsveitna ríkisins, ef heimildin um þátttöku sveitarfélaganna yrði notuð, þá vil ég segja það, að í mínum huga er það í raun og veru næsta eðlilegt, að heimamenn og sveitarstjórnir geti átt aðild að Rafmagnsveitum ríkisins og það geti orðið samvinna og samstaða á milli þessara aðila og þess vegna sé það verkefni út af fyrir sig — alveg jafnmikilvægt eftir sem áður fyrir Rafmagnsveitur ríkisins. Upphaflega voru rafmagnsvirkjanirnar og rafmagnsveiturnar sveitarstjórnarmál. Ég hef verið því hlynntur að rýmka aðild t. d. að Laxárvirkjun, sem nú hefur verið rætt um, að Húsavík gerist aðili að, en ríkið og Akureyrarbær eru nú sameignaraðilar að, og jafnvel hefði ég ekkert á móti því, þó að fleiri sveitarfélög bættust þar í hópinn.

Ég skal ekki orðlengja þetta núna og ekki gefa neinar frekari yfirlýsingar, en láta það koma fram, að ég tel nokkra þörf á því að endurskoða löggjöfina um Rafmagnsveitur ríkisins og Orkustofnun og hefði hug á því, að það yrði gert, án þess að ég sé með nokkra sérstaka gagnrýni á það, sem þar mætti betur fara. En ég hygg, að það sé tímabært og eðlilegt, að við látum framkvæma í samráði við þessar stofnanir endurskoðun á löggjöfinni, sem yrði þá að sjálfsögðu ekki fyrr en á næsta þingi, þegar það kemur saman, ef það vinnst þá tími til þess á því tímabili.