11.11.1970
Efri deild: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í C-deild Alþingistíðinda. (3242)

95. mál, sauðfjárbaðanir

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram þetta frv., sem felur í sér nokkrar breytingar á gildandi lögum um sauðfjárbaðanir.

1. gr. þessa frv. er í samræmi við frv., sem flutt er af hæstv. ríkisstj. og er nú til meðferðar í Nd. og felur í sér ákvæði um það, að sauðfjárbaðanir skuli næst fara fram veturinn 1971–1972 á tímabilinu 1. nóv–1. apríl, en eftir það er heimilt að baða aðeins annað hvert ár, en á sama tíma vetrar. Um þetta atriði og þá meginreglu, sem fylgt hefur verið, ber því ekkert á milli þessara till., sem ég geri hér, og frv. hæstv. ríkisstj. Að öðru leyti felur ákvæði 1. gr. í mínu frv. í sér nokkra orðalagsbreytingu frá gildandi lögum, en þar er ekki um verulegar efnisbreytingar að ræða.

2. gr. frv. er flutt eftir sérstakri ábendingu, sem fram kom á Búnaðarþingi. Í henni felst lítil efnisbreyting frá gildandi lögum, en þó nokkru skýrara tekið til orða um skyldu héraðsdýralækna til þess að vera eftirlitsmenn með sauðfjárböðun. Í gildandi lögum segir, að héraðsdýralæknir eigi að hafa eftirlit með böðun í því héraði, sem hann er búsettur, en hér er ákveðið, að þessi skylda verði lögð dýralæknum á herðar í því umdæmi, sem þeir hafa til umsjónar og eftirlits, en hérað í landfræðilegri merkingu og venjulegri merkingu þess orðs fer ekki alls staðar saman við umdæmi dýralæknis. Ég get skýrt þetta með staðbundnu dæmi. Við teljum okkar sýslu, Austur-Skaftafellssýslu, eða Hornafjarðarhérað ná að Lónsheiði, — þar sé héraðaskiptingin. Hins vegar nær umdæmi Hornafjarðardýralæknis austur fyrir Berufjörð, og eftir orðalagi gildandi laga liggur því næst að álykta sem svo, að héraðsdýralækni á Hornafirði beri ekki skylda til að hafa eftirlit með böðun sauðfjár á Berufjarðarsvæðinu,þeim hluta dýralæknisumdæmisins. Með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, er stefnt að því að taka af öll tvímæli í þessu efni.

En aðalbreytingin, sem þetta frv. felur í sér frá gildandi lögum, felst í 3. gr. frv., og sú grein er þannig:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. gr., 2. málsgr., er sýslunefnd heimilt að veita undanþágu frá böðun sauðfjár í héraði eða í tilteknum byggðarlögum, þar sem fylgt hefur verið settum reglum um böðun og óþrifa í sauðfé hefur ekki orðið vart í mörg ár, enda mæli yfirdýralæknir og hlutaðeigandi héraðsdýralæknir með því, að slík undanþága sé veitt. Eigi skal þó veita undanþágu frá böðun nema í eitt skipti í senn, þannig að ekki líði lengri tími en 4 ár milli þess, að böðun sauðfjár fer fram hjá sérhverjum sauðfjáreiganda.“

Það er tvímælalaust rétt og nauðsynlegt, að fullkomið eftirlit sé haft með því, að útrýma óþrifum í ull eða húð sauðfjár með böðun og að böðun fari fram svo oft sem eftirlitsmenn telja nauðsynlegt til þess að ná þeim árangri, og ég held, að bæði dýralæknar og sauðfjáreigendur hafi að undanförnu lagzt á eitt í þessu efni. Ég held, að það sé almennur skilningur á því hjá sauðfjáreigendum, að þetta þurfi að vera í fullu lagi, og þeir eiga í þessu efni nokkurs að gæta, þar sem góð þrif sauðfjárins hafa áhrif á arðsemi þess.

Það er einnig vitað, að dýralæknar undir forystu yfirdýralæknis hafa svo sem þeim ber, haft gott eftirlit með þessu á undanförnum árum og veitt í þessu efni aðhald. Böðun sauðfjár hefur því verið framkvæmd reglulega, það má segja í marga áratugi, og það mun hafa verið í upphafi þessarar aldar, að þessi regla um böðun sauðfjár var tekin upp. Um langt árabil var það lagaskylda að baða sauðfé á hverjum vetri, og nægir í því efni að vitna til ákvæðis laga frá 1938, og meðan það lagafyrirmæli var í gildi mun því að sjálfsögðu hafa verið fylgt í framkvæmd. En með lögum frá 1959 var gerð sú breyting og sú tilslökun á þessu, að frá þeim tíma hefur verið heimilt að baða aðeins annað hvert ár á þeim svæðum landsins, þar sem fjárkláða hefur ekki orðið vart eða sérstakra óþrifa í sauðfé, en ef fjárkláða verður vart, þá hafa lögin að geyma heimild til þess, að þegar í stað sé fyrirskipuð sérstök böðun á þeim svæðum. Nú er svo komið, að árangur af þessari starfsemi hefur orðið sá, að í sumum héruðum a. m. k. hefur algerlega tekizt að útrýma óþrifum í ull og húð sauðfjár. Í sum héruð landsins hefur fjárkláði aldrei borizt, og þar er þetta viðfangsefni vissulega auðveldara en þar sem fjárkláða hefur orðið vart. Og enn styður það að þessum árangri, að á síðari árum hefur verið völ á miklu áhrifaríkara baðlyfi en menn höfðu aðgang að fyrr á árum. Ég held, að þessi staðreynd, að það hefur tekizt að útrýma óþrifum í sauðfé með böðun, a. m. k. í sumum héruðum landsins, sé alveg óvefengjanleg. Um þetta vitnar reynsla bænda á mörgum stöðum, og þetta hefur verið rætt á Búnaðarþingi og fulltrúar þar, sem eru úr öllum héruðum landsins, hafa borið saman ráð sín um þetta efni, og þar hefur komið fram sú skoðun, að þannig sé ástatt, sem ég hef lýst. Og nú hefur verið lögð upp í hendur þingmanna ný sönnun í þessu efni. Það er grg. með frv. hæstv. ríkisstj., sem nú er fjallað um í hv. Nd., en í þeirri grg. segir, að yfirdýralæknir hafi fjallað um frv. og tjáð sig samþykkan því, sem þar segir, þannig að grg. þessa frv. er þá jafnframt dómur yfirdýralæknis í þessu efni, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Færilús og fellilús hefur verið útrýmt í heilum héruðum, og hafa þær í sumum landshlutum ekki sézt síðustu tvo áratugi. Þó munu færilýs ekki með öllu horfnar úr landinu . . .

Þegar ljóst varð, að kláða og óþrifum hafði að mestu verið útrýmt, fór að gæta tregðu hjá fjáreigendum um framkvæmd á lögskipuðum, árlegum böðunum sauðfjár. Töldu margir það vera óþarfa fjárútlát og áníðslu á fénu.

Fyrir tilmæli Búnaðarþings og meðmæli margra sýslunefnda, sem til var leitað, var löggjöf um sauðfjárbaðanir breytt, sbr. lög um sauðfjárbaðanir nr. 23 frá 27 apríl 1959.

Samkvæmt þessum lögum skal allt fé þrifabaðað á tímabilinu 15. okt. til 1. marz. Heimilt er þó að baða aðeins annan hvern vetur, og hefur þeirri reglu verið fylgt síðan lögin tóku gildi, í stað þess að áður var skylda að baða á hverjum vetri.

Margir töldu þessa breytingu varhugaverða, óttuðust að færilýs og kláði mundu magnast að nýju, enda þótt ákvæði séu í lögum þess efnis að taka má mál þessi fastari tökum, ef fjárkláða eða óþrifa verður vart (sbr. 2. gr.). Þau 10 ár, sem liðin eru, síðan áðurnefnd lög komu til framkvæmda, sýna, að ekki hefur borið á því, að færilús eða kláði hafi færzt í vöxt.“

Þetta er tekið upp úr grg. stjfrv. um þetta efni, og má segja, að þetta sé dómur yfirdýralæknis um þá staðreynd, sem ég gat um, að óþrifa yrði nú ekki lengur vart í sauðfé í sumum héruðum. En þar sem svo er, þá hefur það verið nokkuð til umræðu, a. m. k. í mínu héraði, að það sé áhættulaust að veita nokkru rýmri undanþágu frá lögskipuðum böðunum heldur en gert er í gildandi lögum, og þessi 3. gr. frv., sem felur í sér aðalbreytinguna frá gildandi lögum, miðar að því. Ef horfið yrði að því ráði að heimila slíkt, eins og hér er lagt til, þá kemur það til álita, hver á að hafa valdið til þess að veita slíka undanþágu. Á það að vera yfirdýralæknir, héraðsdýralæknir, ráðh. eða sýslunefnd, héraðsstjórnin heima fyrir? Mér virðast þessi mál ekki vera það stórfelld, að ástæða sé til þess að fara að leggja það fyrir ráðh., hvort í einhverju byggðarlagi eða héraði er veitt undanþága í þessu efni eða ekki. Yfirdýralæknir á vitanlega að hafa heildaryfirlit yfir þetta mál um landið allt, en héraðsdýralæknar hafa hver á sínu svæði langbezta aðstöðu til þess að hafa fullnægjandi eftirlit í þessu efni. Þeir eru jafnan á ferðalagi að athuga búfé manna. Þeir hafa starfi að gegna í sláturhúsum yfirleitt og hafa auðveldan aðgang að því að líta á gærur af sláturfé, og þeir hljóta hver á sínu svæði að vera heimildarmenn yfirdýralæknis í þessu efni. Ég tel því sjálfsagt, og miðað er við það í frv., að til þessara manna sé leitað, bæði hlutaðeigandi héraðsdýralæknis og yfirdýralæknis, um möguleika á að fá undanþágu frá böðun, en ég hef talið rétt, að úrskurður um þetta efni, að fengnu áliti embættismanna, yrði í höndum sýslunefndar, þ. e. a. s. héraðsstjórnarinnar. Það getur víða hagað svo til, að það sé eðlilegt og áhættulaust að veita slíka undanþágu í tilteknum byggðarlögum, þó að það sé ekki rétt eða gerlegt, að slík undanþága sé veitt í heilli sýslu. Víða eru sýslur þannig skiptar, að samgangur fjár á sér ekki stað úr einu byggðarlagi í annað, og þá tel ég eðlilegt, að um þessa skiptingu sé fjallað af héraðsstjórninni heima fyrir og sýslunefnd beri ábyrgð á því, ef einu héraði er veitt undanþága, en öðru ekki. Framkvæmdin samkv. þessum tillögum, sem hér eru fram bornar, yrði því sú, ef að lögum verða, að frumkvæðið kæmi heiman að, sýslunefnd yrði að taka málið til umræðu og athugunar, leita álits héraðsdýralæknis og yfirdýralæknis, og ef álit þeirra væri jákvætt eða benti til þess, að þeir álitu hættulaust að veita þá undanþágu, sem ég ræði hér um, þá félli það að lokum í hlut sýslunefndar að kveða á um þetta, en embættismennirnir hefðu eftir frvgr. eiginlega hvor um sig neitunarvald í málinu, en sýslunefndin bæri þó ábyrgðina um skiptingu innan héraðsins í þessu efni og hefði að lokum úrslitavaldið.

Ég gat þess, að um þessi mál hefur að undanförnu verið nokkuð fjallað á Búnaðarþingi, þar sem fulltrúar bændasamtakanna hafa borið ráð sín saman um þetta efni, og ég hef birt í grg. frv. nokkrar ályktanir, sem um þetta hafa verið gerðar á Búnaðarþingi, og þær eru mjög í samræmi við þá tillögugerð, sem borin er fram í þessu frv. T. d. segir í ályktun Búnaðarþings frá 1967 þannig, með leyfi forseta:

„Þá telur Búnaðarþing það áhættulaust og mælir með því við yfirdýralækni, að hann veiti undanþágu frá böðun í vissum sveitum eða héruðum, þar sem baðanir hafa farið fram undanfarin ár eftir settum reglum og lúsar eða kláða hefur ekki orðið vart um árabil. Aldrei sé þó sú undanþága veitt nema til eins böðunarárs í senn, þannig að 4 ár mætti líða milli baðana hjá þeim, sem hafa farið eftir settum reglum um árabil. Verði vart óþrifa á undanþágutímabilinu, falli undanþágan niður.“

Og á Búnaðarþingi 1969 er enn fjallað um þetta mál, og í ályktun, sem þá var gerð, segir svo: „Enn fremur getur landbrh. veitt undanþágu frá sauðfjárböðunum á afmörkuðum svæðum, ef yfirdýralæknir mælir með því, enda hafi rannsókn eftirlitsmanns á viðkomandi svæði leitt í ljós, að óþrifa í sauðfé hafi ekki orðið vart við síðustu böðun eða síðar.“

Í tíðindum Búnaðarþings er þessi afstaða rökstudd nokkuð í grg., og þar segir svo:

„Eftir að gamatox-baðlyfið var tekið í notkun, gjörbreyttist aðstaðan til útrýmingar á óþrifum í sauðfé. Búnaðarþing telur, að kostnaður við sauðfjárbaðanir, bæði beinn og óbeinn, skipti að minnsta kosti milljónatug að meðaltali á ári og því sé fyllsta ástæða til þess að auka eftirlit með sauðfjárböðunum og bæta framkvæmd þeirra, jafnframt því að gefin sé lagaleg heimild til þess að veita þeim héruðum, sem náð hafa fullnægjandi árangri í útrýmingu óþrifa í sauðfé, undanþágu frá sauðfjárböðunum um lengri eða skemmri tíma.“

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.