03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (3329)

26. mál, varnir gegn mengun

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hef hér á þskj. 26 leyft mér að flytja till. til þál. þess efnis, að ríkisstj. sé falið að láta undirbúa löggjöf um ráðstafanir til varnar gegn mengun. Það fer ekki á milli mála, að mengunarvandamálið, ef svo má segja, er eitt alvarlegasta vandamál, sem mannkynið stendur nú andspænis. Fram að þessu hafa margir talið það okkur Íslendingum nokkuð fjarlægt. Ýmislegt bendir þó til þess, að það hafi nálgazt okkur ískyggilega mikið. Við getum því vissulega ekki leitt það hjá okkur, heldur er brýn nauðsyn á, að við séum vel á verði í þeim efnum, verjumst mengunarhættunni eftir því sem kostur er og gerum í tæka tíð allar skynsamlegar varúðarráðstafanir.

Um þetta vandamál hefur mikið verið rætt og ritað að undanförnu. Fjölmiðlar hafa flutt okkur ískyggilegar fréttir af því. Heimsþekktir vísindamenn hafa mælt alvöruþrungin varnaðarorð. Það væri að sjálfsögðu auðvelt að rekja hér margar umsagnir slíkra manna. Ég mun þó ekki fara út í það á þessu stigi, enda geri ég ráð fyrir því, að hv. alþm. hafi fylgzt allvel með því, sem sagt hefur verið um þessi mál að undanförnu, og ég vona, að flestir alþm. hafi fullan skilning á þessu máli og sé ljós sú nauðsyn, sem á því er, að þessu máli sé sinnt í tæka tíð hér hjá okkur, á meðan vandamálið er viðráðanlegt. Ég skal því reyna að stilla máli mínu í hóf. En ég hef að sjálfsögðu með því að flytja þessa till. viljað vekja athygli á þessu máli almennt og skapa þannig tilefni til þess, að það verði tekið til almennrar umræðu á hv. Alþingi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hvers kyns mengun í lofti, í vatni og á gróðri er orðin eitt allra mesta vandamál í þéttbýlum og iðnvæddum löndum. Eitrun lofts og vatns er orðið alvarlegt böl hjá iðnaðarþjóðum. Andrúmsloft sumra stórborga er orðið svo mengað, að til stórkostlegra vandræða horfir. Má heita, að þar sé orðið illbúandi. Geta naumast aðrir áttað sig á því en þeir, sem þangað hafa komið og þar hafa búið. Er stjórnendum þessara stórborga ekki annað meira áhyggjuefni. Fiskur drepst víða í ám og vötnum af völdum mengunar. Særinn við strendur landa er sums staðar orðinn hættulega mengaður, og það er ekki aðeins sjórinn við strendur landanna, sem er orðinn þannig mengaður, heldur berast ískyggilegar fregnir af því hvað eftir annað, að sjálf úthöfin séu orðin alvarlega menguð. Hafa jafnvel fréttir borizt af því ekki alls fyrir löngu, að úrgangsefni ýmiss konar séu flutt út á haf og kastað þar, og sjórinn þannig hafður fyrir ruslatunnu. Það er enginn vafi á því, hve þetta er hættulegt, og um þessi mál hafa, eins og ég sagði áðan, einmitt sérstaklega rætt heimsþekktir vísindamenn og bent á þá stórkostlegu hættu, sem þessu væri samfara fyrir allt líf í sjónum. Og þeir hafa einmitt í því sambandi mælt mjög alvöruþrungin orð, sem ástæða er fyrir menn að hlusta á.

Það er einnig kunnugt, að gróður eitrast og eyðileggst í nágrenni iðjuvera og stórborga, og jafnvel er talið, að lífi fólks sé hætta búin. Kunnáttumenn spá því, að í sumum stórborgum verði orðið nær ólíft eftir nokkur ár, ef svo heldur fram sem nú horfir. Það fer því ekkert á milli mála, að hin sívaxandi mengun og mengunarhætta er að verða einn mesti bölvaldur mannkynsins. Og þetta er ekki aðeins vandamál stórþjóða og milljónaborga. Það er t.d. orðið vandamál hjá nágrannaþjóðum okkar, og þær munu þegar hafa gripið til ýmiss konar ráðstafana hjá sér til varnar gegn mengun og ráðgera að taka þessi mál til alveg sérstakrar athugunar.

Hér á landi var það að vísu svo, að það var lítið rætt um mengun til skamms tíma, og flestir hér munu hingað til hafa litið hana sem fjarlægt fyrirbæri. En þó hafa menn vaknað til umhugsunar um þessi mál á allra síðustu tímum. Það hefur vaxið hér áhugi og skilningur á gildi óspilltrar náttúru, og hefur komið til aukinn áhugi fyrir náttúruvernd. Það hefur svo leitt til þess, að menn hafa farið að hugleiða þessi mál nokkru meira en áður.

Það er sjálfsagt rétt, að enn höfum við hér á landi að miklu leyti sloppið við hættulega mengun. Þó er sannleikurinn sá, að það mál er engan veginn enn fullkannað. Það má vel vera, að mengun hér sé orðin meiri en menn almennt gera sér grein fyrir. Það er a.m.k. víst, að hér hefur orðið vart nokkurrar mengunar, enda þótt hún sé smámunir hjá því, sem annars staðar er. Enn þá er sem betur fer loftið hér yfirleitt hreint og tært, og landið er enn tiltölulega hreint og vötn og sjór að ætla má að mestu leyti laus við hættulega mengun. En hættan er hér augljós og vaxandi, eftir því sem verksmiðjum fjölgar og iðnvæðing færist í aukana. En mjög er nú um það rætt, að hér þurfi að koma á fót stórfyrirtækjum, og m.a. hefur í því sambandi alveg sérstaklega verið rætt um olíuhreinsunarstöð, en það mun viðurkennt, að af slíkum olíuhreinsunarstöðvum geti stafað mikil mengunarhætta, a.m.k., ef ekki eru gerðar viðeigandi varúðarráðstafanir. Þess vegna er vissulega ástæða til að íhuga þessi mál mjög nákvæmlega, áður en ráðizt verður í þvílík stórfyrirtæki. Og það er áreiðanlegt, að hér þarf að vera vel á verði og gera í tæka tíð viðeigandi varnarráðstafanir.

Raunar er það svo, eins og áður er sagt, að hér munu engar fullnægjandi rannsóknir hafa farið fram til þessa á mengun. Helzt mun hér hafa verið athugað um mengun neyzluvatns og vatns, sem notað er í sambandi við fiskvinnslu. Munu þær athuganir hafa leitt í ljós talsverða mengun sums staðar. Einhver mengun mun og hafa komið í ljós í sjó í nágrenni þorpa og bæja.

Í sambandi við það, sem ég sagði um neyzluvatn, er rétt að minna á það, að það var að frumkvæði sveitarfélagasambandsins og vegna ályktunar, sem gerð var á fulltrúaráðsfundi þar 1966, skipuð af félmrh. haustið 1967 þriggja manna nefnd til að athuga og gera tillögur um nauðsynlegar lagabreytingar til að tryggja verndun grunnvatns gegn hvers konar mengun. Þessi nefnd lauk störfum í árslok 1967 og sendi þá til ráðherra tillögur í frv.- formi ásamt ítarlegri grg. svo og uppkast að reglugerð. Þetta frv. fól í sér lagaheimildir til friðlýsingar neyzluvatnssvæða. Þetta frv. var lagt fyrir Alþ. haustið 1968, en dagaði þá uppi og mun ekki hafa verið endurflutt síðan, hvað sem því veldur. En það verður að segjast eins og er, að það er nokkuð óskiljanlegt, ekki sízt þar sem upp á síðkastið hafa farið fram miklar umr. um þessi mál öll og mengunarvandamálin verið mjög á dagskrá.

Ég sagði áðan, að það væri kunnugt um það, að einhverrar mengunar mundi hafa orðið vart í sjó í nágrenni þorpa og bæja. Þess er nú skemmst að minnast í því sambandi, að sjóbaðstað Reykvíkinga, Nauthólsvík, hefur verið lokað vegna óþrifa eða mengunar þar. Kunnugir telja, að allmikið kveði að því á fjörum í nágrenni höfuðborgarinnar, að þar reki ýmiss konar úrgang, sem reynzt gæti skaðlegur og mengað umhverfi sitt. Á s.l. sumri mun hafa farið fram allumfangsmikil rannsókn á vegum Reykjavíkurborgar á mengun sjávar umhverfis Reykjavík. Þessar athuganir á mengun, sem ég hef minnzt á, viðvíkjandi neyzluvatni og vatni í sambandi við fiskvinnslu munu einkum hafa farið fram á vegum tiltekinna rannsóknarstofnana, sem hafa eitthvað fylgzt með í þeim málum.

Það er og kunnugt, og hefur raunar verið rætt um það nýlega á hv. Alþ., að fram hafa farið athyglisverðar athuganir á gróðri í nágrenni álverksmiðjunnar. Athuganir Ingólfs Davíðssonar grasafræðings benda til þess, að þar geti verið um hættulega flúormengun að ræða. Sérstaklega benda til þess þær athuganir, sem hann hefur gert á gróðri í Hafnarfirði. Það mál mun nú vera í nánari rannsókn, og skal ég ekki ræða það sérstaklega hér. E.t.v. hafa fleiri slíkar rannsóknir varðandi þessi mál farið hér fram, þó að mér sé ekki kunnugt um það. En ég verð að segja, að frá leikmanns sjónarmiði lítur þetta þannig út, að þörf sé meiri rannsókna á því, hver mengun sé hér, og í annan stað virðist af því, sem þegar er kunnugt, sú ályktun liggja nærri, að mengunar muni gæta hér nú þegar meira en menn hafa gert sér grein fyrir hingað til. Hér þarf því að bregðast við skjótt og gera viðeigandi ráðstafanir. Í þessum efnum megum við vissulega ekki fljóta sofandi að feigðarósi, og í því sambandi eigum við að láta víti annarra þjóða verða okkur til varnaðar. Og ég kem að því aftur og undirstrika það, sem ég sagði áðan, að því meiri ástæða er einmitt nú til árvekni í þessum málum, að það er verið að tala um og bollaleggja um að setja hér upp ýmiss konar iðjuver og þá alveg sérstaklega olíuhreinsunarstöð. Auðvitað dettur mér ekki í hug að halda því fram, að vegna mengunarhættu í sambandi við iðjuver megum við eða getum lagt hendur í skaut og hætt að hugsa um slíkt með öllu. Auðvitað verðum við að iðnvæðast, en það verður að halda þannig á málum, að það sé fyrst og fremst athugað, áður en í slíkt er ráðizt, hver hætta stafar af, og um leið og stofnað er til þvílíkra fyrirtækja gerðar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess að afstýra hættu, eftir því sem kostur er.

Ég hygg, að allir geti orðið sammála um það, að við megum ekki glata þeim auði, sem við eigum í óspilltri náttúru. Við megum ekki láta mengun spilla hér okkar hreina andrúmslofti. Við megum ekki láta mengun spilla lífinu í sjónum við strendur þessa lands. Við megum ekki láta óhreinindi og mengun eyðileggja hinar dýrmætu ár okkar og fiskivötn. Hér ber því allt að sama brunni, að hér má ekki sofa á verðinum. Það þarf þegar að rannsaka, hvernig ástatt er. Það þarf að rannsaka löggjöf alla, sem að þessu lýtur, og það þarf að hefjast handa um setningu nauðsynlegrar löggjafar og fylgja henni fram undanbragðalaust.

Ég veit vel, að það eru ýmsir aðilar, sem sinna þessum málum, og ég veit, að það er til ýmiss konar löggjöf, sem grípur inn á þessi mál. Má þar náttúrlega fyrst nefna lög um hollustuhætti og Heilbrigðiseftirlit ríkisins, þar sem sú stofnun á einmitt m.a. að hafa glöggar gætur á þessum málum. Og enn fremur má náttúrlega nefna lög um náttúruvernd, sem koma mjög inn á þetta efni. Og þar er auðvitað fjallað um mál, sem mjög eru skyld þessum efnum, sem hér er um að ræða. En ég undirstrika það, sem ég sagði, að Heilbrigðiseftirliti ríkisins ber auðvitað sérstaklega að fylgjast með í þessum efnum, en það er gert ráð fyrir því í þessum lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem sett voru hér á árinu 1969, að það verði sett ein heilbrigðisreglugerð fyrir landið allt, sem gildi fyrir öll sveitarfélög, og í þeirri reglugerð á að taka fram um efnisatriði heilbrigðiseftirlitsins, svo sem um valdsvið heilbrigðisnefnda, hreinlæti utanhúss, t.d. á götum, lóðum og fjörum, um vatnsveitur, salerni, frárennsli, um hirðingu á sorpi, um eftirlit með matvælaframleiðslu, um varnir gegn mengun o.fl. Það er, eins og ég drap á áður, kunnugt, að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur haft með höndum eitthvert eftirlit í sambandi við frystihúsin og það vatn, sem notað er þar við matvælaframleiðslu. Rannsóknastofnun iðnaðarins mun hafa fengið það hlutverk að fylgjast með hugsanlegri mengun af völdum álverksmiðjunnar. Það er ekki langt síðan hér var sett sérstök eiturefnalöggjöf, sem auðvitað kemur mjög inn á þetta efni, sem hér er fjallað um, mengun og mengunarhættu.

Það eru þannig í gildi hér ýmis lög, sem snerta þessi mál og veita ýmsar og sjálfsagt víðtækar heimildir til aðgerða í þessum efnum. En ég held, að það sé þörf á alveg sérstakri löggjöf um þessi mál. Ég held, að það þurfi að fela einhverjum ákveðnum aðila, ráði eða stofnun, meðferð þessara mála eða yfirstjórn þessara mála. Annars er hætta á, að eyður verði, að mismunandi framkvæmd verði hjá hinum ýmsu aðilum, sem urri þessi mál eiga að fjalla, að einn vísi e.t.v. frá sér til annars, að einn treysti á annan í þessu sambandi o.s.frv. Ég held, að það sé brýn nauðsyn, að við tökum þessi mál mjög alvarlegum tökum. Ég held, að við getum í því efni tekið okkur Dani til fyrirmyndar. En þar er mengunin orðin alvarlegt vandamál. Þar var s.l. sumar sett á stofn sérstakt opinbert ráð eða nefnd til þess að koma fastri skipan á þær ráðstafanir, sem Danir telja að gera verði til þess að verjast menguninni og standa betur að vígi í þeirri baráttu. Þetta mengunarráð í Danmörku er þegar tekið til starfa og hefur þegar gert ýmiss konar ráóstafanir, sem m.a. hefur verið skýrt hér frá í blöðum, að ég hygg á þessu sumri. En þetta mengunarráð, ef kalla má það því nafni, hefur alveg sérstaklega tekið til rannsóknar afrennslisvatn frá iðnverum, skolpleiðslur, staðsetningu sorphauga og fleira af því tagi. Enn fremur hefur það alveg sérstaklega tekið til athugunar, að ég hygg, olíumengunina og þá ekki hvað sízt í höfnum, og það hefur verið bent á nauðsyn þess, að komið væri upp sérstökum geymum fyrir úrgangsolíu frá skipum og öll skip væru skylduð til þess að tæma og hreinsa alla úrgangsolíu í slíka geyma. Og fleira mætti segja um það. En eins og kunnugt er af fregnum, þá er olíumengunin í höfunum orðin eitt mesta áhyggjuefnið.

Ég skal nú ekki rekja þessi mál neitt sérstaklega frekar hjá Dönum, en það er einmitt áslæða til þess að kynna sér það, hvað þeir hafa gert og hvað þeir hyggjast gera, og það mundi að sjálfsögðu verða gert í sambandi við setningu þvílíkrar löggjafar, sem hér er lagt til, að unnið verði að. Og ég hygg reyndar, að það sé mjög sömu sögu að segja frá öðrum Norðurlandaþjóðum í þessu efni.

Ég held sem sagt, að það sé mikil þörf á því að setja hér stranga allsherjarlöggjöf um þessi mengunarvandamál og gera það í tæka tíð, áður en þau eru orðin eins brennandi hjá okkur og hjá nágrannaþjóðum okkar. Og ég held fyrir mitt leyti, að það væri eðlilegast að skipa þessum málum þannig, að setja upp sérstakt mengunarráð eða mengunarmálastofnun, sem hefði mjög víðtækt vald til að stöðva framkvæmdir t.d., víðtækt vald til þess að krefjast öryggisráðstafana í sambandi við framkvæmdir o.s.frv. Ég skal ekki fara lengra út í þá sálma. Ég geri ráð fyrir, að ef þessi till. verður samþ., sem ég vona, þá verði kvaddir til sérfróðir menn til þess að fjalla um þessi mál og til þess að undirbúa löggjöf um þessi efni.

Ég hef með flutningi þessarar þáltill. viljað koma málinu af stað og hef viljað vekja menn til þess að sinna þessu máli. Vel má vera, að það megi breyta þessari þáltill. minni í einhvern annan búning, gera hana ítarlegri og segja nánar fyrir um það, hvernig ætlazt er til, að ríkisstj. sinni þessu verkefni, t.d. með aðstoð sérfræðinga og því um líkt. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að taka allar þvílíkar ábendingar til greina og vona, að sú n., sem fær þessa þáltill. til meðferðar, íhugi þau atriði, og mun ekki standa á mér um samvinnu í því efni, því að auðvitað er orðalag og form þessarar till. ekkert aðalatriði í þessu sambandi.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að umr. um þessa þáltill. verði frestað og henni vísað til allshn.