09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

1. mál, fjárlög 1971

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér sýnist, að gert sé ráð fyrir nokkuð snöggsoðinni afgreiðslu fjárlagafrv. við 2. umr. Og það er ekki mjög auðvelt fyrir einstaka þm. að gera sér grein fyrir þeim þskj., sem fyrir liggja frá hv. fjvn. Hv. frsm. minni hl. gat þess í ræðu sinni, að afgreiðslu mála í fjvn. hefði borið svo bráðan að, að hann og félagar hans hefðu ekki haft tækifæri til að bera sig saman við flokksmenn sína um meiri háttar atriði í þessari afgreiðslu, enda mun aðallega hafa verið að henni unnið eftir að þingfundum lauk í s. l. viku þangað til þeir hófust aftur í þessari viku. Og það, sem hann sagði, er að sjálfsögðu rétt. Það er þá einnig svo, að ekki hefur heldur verið ráðrúm til þess í hinum einstöku þm.-hópum kjördæmanna að gera sér grein fyrir meðferð málsins í fjvn, fyrr en henni var lokið og tel ég, að þetta sé ekki heppilegt, að þm. hafi svo stuttan tíma, sem raun er á, til þess að gera sér grein fyrir starfi hv. fjvn., en ætlunin mun vera, að atkvgr. fari fram á morgun eftir því, sem ég hef heyrt. Um þetta skal ég nú ekki hafa fleiri orð, en koma þá að því, að við höfum þrír þm., hv. 3. þm. Norðurl. e., hv. 5. þm. sama kjördæmis og ég, orðið ásáttir um að flytja á þskj. 224 og 227 þrjár brtt. við fjárlagafrv. Og þessar brtt. eru IV og VII á þskj. 224 og IV á þskj. 227. Ég vil taka það fram strax, að við óskum ekki eftir, að þessar brtt. komi til atkv. við 2. umr., heldur að þeim verði frestað, og viljum mælast til þess við hv. fjvn. og hæstv. fjmrh., að þær verði teknar til nánari athugunar af þessum aðilum á þeim tíma, sem líða mun milli umr.

Ég skal þá fyrst, þó að það fari ekki eftir röð í fjárlagafrv., víkja að till. á þskj. 224, VII, sem varðar ferjubryggju á Árskógssandi á Árskógsströnd við Eyjafjörð. Í fjárlagafrv., eða a. m. k. í till. fjvn., er kafli, þar sem gert er ráð fyrir fjárveitingum til ferjuhafna, og hefur svo oft verið áður í seinni tíð. Þetta eru yfirleitt ekki stórar upphæðir, en fyrirsögn þessa kafla skýrir, hvað við er átt. Á Árskógssandi er lítið sjávarþorp og útgerð, og fyrir nokkrum árum var gerð þar bryggja, þar sem heitir við Flatasker, og er þarna jöfnum höndum aðstaða fyrir fiskibátana á Árskógssandi og aðstaða fyrir ferju, sem gengur á milli Hríseyjar og Árskógssands, þannig að þetta er ferjubryggja. Hreppsnefnd Árskógshrepps mun á sínum tíma, í októbermánuði, hafa ritað vitamálastjóra um fyrirætlanir sínar þarna um auknar framkvæmdir, og það var gert ráð fyrir því, að þeirri málaleitun, sem þar var fram borin yrði sinnt af hafnamálaskrifstofunni. Er þetta mál hins vegar nokkuð seint fram borið við þm. og fjvn., en þó var þetta erindi fram komið um það leyti, sem álit komu frá fjvn. En hér er um það að ræða að fjarlægja flúð eða grynningar milli hafnargarðs og lands, sem er til ákaflega mikils baga. Það er búið að vinna nokkuð að þessu, en verkinu er þó enn ólokið. En í þessu bréfi er frá því skýrt, að það hafi oftar en einu sinni komið fyrir, að bátar hafi rekizt á þessar grynningar og orðið fyrir skemmdum, og það er óskað eftir því, að veitt verði nokkurt fé til þessa verks. Jafnframt er þess getið, að af hálfu hafnarmálaskrifstofunnar hafi verið gefið einhvers konar vilyrði um, að til þessara framkvæmda kæmi fé úr ferjubryggjusjóði eða af þeim peningum, sem ætlaðir eru til að byggja ferjubryggjur, og við höfum einmitt leyft okkur að fara fram á það, að veittar yrðu þarna til þessarar nauðsynlegu umbótar á Árskógssandi 100 þús. kr. úr ferjubryggjusjóði. En fénu á að verja, eins og ég sagði áðan, til þess að ljúka við að nema brott þessar grynningar, sem valdið hafa miklum óþægindum, jafnvel skemmdum á bátum, sem leggjast að þessari bryggju.

Ég skal þá næst koma að IV á þskj. 224, en það er till. um það, að framlag til efnarannsóknastofu Norðurlands eða Rannsóknastofu Norðurlands verði hækkað upp í 500 þús. kr. Í fyrra voru veittar 250 þús. kr. til þessarar rannsóknastofu. Fjvn. hefur lagt til, að framlagið yrði hækkað um 50 þús., en það sýnist okkur, að þetta sé um of skorið við nögl. Þessi Rannsóknastofa Norðurlands, efnarannsóknastofa Norðurlands, sem hér er um að ræða, er á vegum Ræktunarfélags Norðurlands, sem er merk stofnun, sem lengi hefur starfað og margir kannast við. Hún hefur haft aðalbækistöðvar sínar á Akureyri, en að rannsóknastofunni standa ásamt Ræktunarfélaginu sjálfu að ég ætla, búnaðarsamböndin á Norðurlandi. Þessi rannsóknastofa tók til starfa árið 1965 og hefur haft með höndum mjög merkileg verkefni í þágu landbúnaðar, einkum á Norðurlandi. Og ég skal lauslega gera grein fyrir þessum viðfangsefnum rannsóknastofunnar samkv. erindi, sem stjórn Ræktunarfélagsins hefur sent hv. fjvn. og fleiri aðilum. Á þessum árum, sem rannsóknastofan hefur verið starfandi á vegum Ræktunarfélagsins og búnaðarsambandanna, hafa verið tekin til efnagreiningar um það bil 13 þús. jarðvegssýni úr Norðlendingafjórðungi og bændum sendar niðurstöður þeirra með leiðbeiningum um áburðarnotkun á hverja túnspildu, sem sýni hefur verið tekið úr, auk þess sem hverjum bónda hafa verið sendar ábendingar um áburðarþörf, sem gefa þær upplýsingar, sem aflað er við töku sýnanna ásamt niðurstöðum efnagreininganna, mikilsverðar almennar upplýsingar um ýmsa þætti, er jarðrækt og íslenzkan landbúnað varða. Er nú þegar búið að vinna úr ýmsu af þessum gögnum, en meira bíður þó þess, að svo rýmkist um starfsaðstöðu og fjárhag, að betur megi gera. Á vegum Rannsóknastofu Norðurlands voru gerðar fyrstu athuganir á brennisteinsskorti í íslenzkum túnum, en brennisteinsskortur hafði valdið allverulegu uppskerutjóni á ýmsum stöðum á Norðurlandi og það er rétt að vekja athygli á því í þessu sambandi, að eiginlega höfðu menn ekki gert ráð fyrir því, að um brennisteinsskort gæti verið að ræða í íslenzkum túnum, vegna þess að landið er eldfjallaland. En við rannsóknir þessarar stofnunar kom í ljós, að svo var, og hefur verið tekið tillit til þessarar niðurstöðu, þessarar uppgötvunar í jarðræktarmálum.

Þegar á fyrsta ári rannsóknastofunnar voru tekin til efnagreiningar um 500 heysýni frá ýmsum stöðum á Norðurlandi. Athugað var í þessum sýnum steinefnamagn og fékkst þannig nokkurt yfirlit yfir magn helztu steinefna í heyi. Steinefnaathugunum á heyi var síðan haldið áfram í nokkrum mæli á hverju ári, en á s. l. ári var ráðinn að rannsóknastofunni fóðurfræðingur, og hafa nú rannsóknir á fóðri verið stórauknar.

Hafin er nú vinna við stórt rannsóknarverkefni, nýtt. Valdir hafa verið í rannsóknina 22 bæir víðs vegar á Norðurlandi, og er ætlunin að taka jarðvegs- og heysýni á öllum túnum til rannsóknar. M. a. er áætlað að mæla snefilefnamagn þeirra, en slíkar rannsóknir eru svo til óplægður akur í landbúnaðar- og rannsóknarmálum. Þá er ætlunin að fylgjast ítarlega með heilsufari búfjár á þessum bæjum og, ef þörf verður, að taka blóð, þvag og mjólk til efnagreiningar. Rannsóknum þessum verður haldið áfram í nokkur ár og er það von þeirra, sem að þessu standa, forstöðumanns rannsóknastofunnar, Ræktunarfélagsins og búnaðarsambandanna, að niðurstöður þessara rannsókna geti orðið grundvöllur að bættri fóðrun og betra heilbrigði í búfé landsmanna.

Það hefur verið gerð grein fyrir því, að áætlað er, að útgjöld rannsóknastofunnar verði á árinu 1971 um 1.3 millj. kr. og er það von þeirra, sem hér standa fyrir þessum vísindalegu rannsóknum, að Alþ. sýni skilning á þessu merkilega starfi í þágu landbúnaðarins á Norðurlandi, sem einnig gæti orðið mikilsvert fyrir landbúnaðinn í öðrum landshlutum. En að öðru leyti en því, sem ríkissjóður leggur fram, er þessi starfsemi borin uppi af bændum þar nyrðra og samtökum þeirra.

Ég vil þá að lokum leyfa mér að koma að þeirri brtt., sem fer fram á stærst fjárframlag, en það er brtt. á þskj. 227 og varðar Akureyrarhöfn. Á sínum tíma eða árið 1969 var lögð fram hér á hinu háa Alþ. fjögurra ára áætlun hafnarmálastjórnarinnar um hafnargerðir hér á landi og sú áætlun er hv. þm. kunn. Þessi áætlun, þessi fjögurra ára áætlun frá hafnarmálastjórninni er að vísu ekki bindandi á sama hátt og t. d. vegáætlun, en í henni felst þó samþykki hafnarmálastjórnarinnar á þeim mannvirkjum, sem þar eru tilgreind og nánar lýst í áætluninni á árunum 1969–1972. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir miklu hafnarmannvirki á Akureyri sunnan á Oddeyri og segir svo um þetta í grg. hafnarmálastjóra: „Með tilliti til þýðingar Akureyrarbæjar sem flutningamiðstöðvar fyrir Norðurland, er nauðsynlegt, að komið verði upp góðri aðstöðu til afgreiðslu venjulegrar stykkjavöru í bænum. Eru uppi hugmyndir um að byggja hafskipabakka sunnan á Oddeyrinni með vörugeymslum og tilheyrandi útigeymslusvæði á bak við. Jafnframt er nauðsynlegt, að innan tíðar verði hafizt handa um byggingu nýrrar bátahafnar, þar sem núv. bátakví við Torfunef hlýtur að hverfa mjög bráðlega.“

Þetta var árið 1969 og á grundvelli þessara hugmynda, sem hér eru nefndar, er áætlað, að á áætlunartímabilinu verði byggður sunnan á Oddeyri 120 metra stálþilsbakki og að dýpkað verði framan við þetta stálþil. Þarna er einnig áætlun um bátahöfn, en ég ræði það ekki, því að það mál er ekki til meðferðar hér, og hefur verið fallizt á, að þeirri framkvæmd verði frestað fram yfir áætlunartímabilið, ef sæmilega verður stutt að hinni aðalframkvæmdinni. Það hefur þegar verið nokkuð mikið unnið að hafnarbakkanum og uppfyllingunni og dýpkuninni og er gert ráð fyrir því að halda verkinu áfram á næsta ári. Þetta er ákaflega mikið mannvirki og dýrt, og mun kosta upp komið eitthvað yfir 30 millj. kr. Eimskipafélag Íslands sótti á sínum tíma um að fá að byggja vöruskemmu eina mikla á þessari uppfyllingu, og er verkið þegar hafið. En framhald þeirrar byggingar er undir því komið, að hægt sé með nægilegum hraða að koma upp þessum hafnarbakka. Ég skal taka það fram, að það er gert ráð fyrir því, að síðar meir verði hafnarbakkinn lengri heldur en þetta, en þetta er hinn svonefndi 1. áfangi þessa mannvirkis, sem brýn nauðsyn er á að koma upp. Það væri mjög alvarlegt mál, ef það færi svo, að vegna fjárskorts yrði að stöðva þessa framkvæmd, því að þá mundi, að því er mér er tjáð, einnig stöðvast þær byggingarframkvæmdir, sem Eimskipafélagið hefur hafið á þessum stað.

Í öðru lagi er svo þess að geta, að eins og kunnugt er er á Akureyri dráttarbraut nýgerð og stór skipasmiðja, sú stærsta á landinu, sem hefur skilyrði til að smíða stór skip, og var á sínum tíma gerður við þessa skipasmíðastöð samningur um smíði tveggja strandferðaskipa, en þarna er hægt að smíða stærri skip en þau, og upp í dráttarbrautina er hægt að taka til viðgerðar skip að stærð milli 2 og 3 þús. lestir að ég ætla. Þessi framkvæmd er vel á veg komin og hafa þegar verið tekin upp stór skip til viðgerðar. Dráttarbrautin er orðin dýrt mannvirki, en það kemur í ljós við reynslu, að skipaeigendum þykir ekki þarna nægilega örugglega um búið og það er hætta á því, ef ekki verður úr bætt, að svo geti farið, að dráttarbrautin og skipasmiðjan mikla missi þarna af viðskiptum, sem hún annars mundi fá vegna hinnar góðu aðstöðu að öðru leyti á Akureyri. Þess vegna leggur nú hafnarstjórnin á það mjög mikla áherzlu að bæta hér úr því nauðsynlegasta og er gerð áætlun um þessar umbætur, sem samtals mundu nema, það, sem nauðsynlegt er talið, 10 millj. kr. í stofnkostnaði og er þar hluti ríkissjóðs 4 millj., því að ríkið greiðir 40% af mannvirkjum af þessu tagi. Nú hefur hv. fjvn. lagt til, að veittar verði nokkrar fjárupphæðir til þessara tveggja hafnarmannvirkja, sem að vísu kunna að þykja töluvert háar við fyrstu sýn miðað við ýmsar fjárveitingar til annarra hafna, og er þó fjárveitingin eða till. um fjárveitingu til hafnarbakkans svona álíka eins og til sumra annarra hafna, nýrri hafna, en hér er um óvenjulegt mannvirki að ræða, sem kostar ákaflega mikið fé, en mundi hins vegar gerbreyta hafnaraðstöðunni á Akureyri, sem er hin eðlilega vöruflutningamiðstöð Norðurlands á sjó að því leyti, sem skip frá útlöndum koma ekki til annarra hafna beint, og bæði þetta að koma upp hafnarbakkanum og endurbæta dráttarbrautina er ákaflega brýn nauðsyn. Við höfum leyft okkur að leggja til, að báðar þessar upphæðir, sem hv. fjvn. leggur til, að veittar verði til þessara mannvirkja, verði hækkaðar til mikilla muna, og ef ekki verður séð fyrir því á einhvern hátt, að hafnarsjóði Akureyrar verði gert mögulegt að framkvæma þetta á næsta ári, þá er þar allmikið í húfi. Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en ég vil, eins og ég sagði í upphafi um allar till. þrjár, mælast til þess varðandi þessar till., að það verði tekið til alvarlegrar athugunar af þeim aðilum, sem fjalla einkum um málið á milli umr. eins og ég nefndi áðan, að leysa þetta vandamál Akureyrarhafnar á þann hátt, að hafnarstjórnin eða hafnarsjóðurinn telji sér fært að framkvæma þessa mannvirkjagerð nú á næsta ári. En eins og ég sagði áðan, þá óska ég ekki eftir því, að þessar till. okkar komi til atkv. við þessa umr., þó að við flytjum þær nú.