09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

1. mál, fjárlög 1971

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 227 brtt. þess efnis, að varið verði 500 þús. kr. til byggingar sjómannastofu á Akranesi, gegn jafnmiklu framlagi annars staðar frá. Þá er að sjálfsögðu átt við það, að framlagið komi frá viðkomandi byggðarlagi. Á Akranesi er mikill útgerðarstaður. Sjómenn, sem þaðan róa, eru ekki allir heimamenn. Allmargir eru aðkomumenn, og í landlegum og á hvíldardögum eiga þeir yfirleitt ekki í neitt hús að venda, heldur verða að hafast við í lúkarnum um borð í bát sínum, sem oft er að sjálfsögðu heldur dauflegur staður. Það dregur eflaust enginn í efa, að það er mikil nauðsyn á sjómannastofu á slíkum stað vegna þessara aðkomumanna, en jafnframt vegna sjómanna, sem þarna búa, heimamannanna, enda horfir það að sjálfsögðu til menningarauka, að þeir hafi eitthvert félagsheimili að dveljast á og nota þá undir sína félagsstarfsemi og skemmtanahald og til síns tómstundalífs. Ég álít sem sé, að slík sjómannastofa mundi koma að gagni til þess einnig. Og með tilliti til þessa vænti ég þess, að þessi till. eigi skilningi að mæta hjá hv. þm.