03.12.1970
Sameinað þing: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (3492)

61. mál, haf- og fiskirannsóknir

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þessi þáltill. fjallar um, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta gera fimm ára áætlun um haf- og fiskirannsóknir við Ísland, enn fremur um fiskileit, veiðitilraunir og aðra slíka þjónustu við fiskveiðiflotann. Áætlunin sé gerð af sérfræðingum í nánu samstarfi við samtök sjómanna og útvegsmanna og verði lögð fyrir Alþ., svo fljótt sem verða má.

Ég er alveg sannfærður um það, enda skýrist það alltaf betur og betur, að velmegun Íslendinga og efnalegt sjálfstæði veltur framvegis eins og fram að þessu meira á því en nokkru öðru, að vel takist að hagnýta auðæfi hafsins og landgrunnsins. Það væri freistandi að eyða nokkrum tíma til þess að færa rök fyrir þessari ályktun, en ég fell ekki fyrir þeirri freistingu núna, vegna þess að ég veit, að hæstv. forseta er mikið áhugamál að koma áfram þáltill. Ég mun því segja það eitt nú til stuðnings þessu, að við búum ekki við stórfellda yfirburði í neinu öðru en því, sem í hafinu býr. Við búum ekki við stórfellda yfirburði í neinu öðru nema það skyldi þá vera í því, að við eigum óvenjulega fallegt og sérkennilegt land, sem ekki er mjög mengað. Í flestu öðru stöndum við svona álíka að vígi og margar aðrar þjóðir, sem sé svona sæmilega að vígi. En í sjávarútvegi og öllu því, sem lýtur að auðæfum hafsins, eigum við að geta búið við stórfellda yfirburði, ef við förum skynsamlega að.

Þetta hefur kannske aldrei verið augljósara en nú, eftir að búið er að gera nokkurt yfirlit um mögulega orkunýtingu í fallvötnum á Íslandi og þegar farið er að gera því skóna, að Íslendingar verði að nýta alla sína orku á næstu 20 árum og selja hana, mest útlendingum, fyrir slikk. Sá þjóðarauður, sem við höfum talið, að væri í fallvötnunum, væri sem sé í raun og veru ekki meiri en svo, að við yrðum að flýta okkur að nýta hann allan á næstu 20 árum og selja hann fyrir lítið, ef hann ætti ekki að verða lítils virði á næstunni í samanburði við kjarnorku. Auðvitað eru þessar kenningar alger fásinna og út í bláinn, að slíkt komi til greina, hvað þá að skynsamlegt væri að fara þannig að. En þetta sýnir manni þó framan í það, að þarna er að dómi sumra a.m.k. alls ekki sá stórfelldi þjóðarauður í ónotaðri orku, sem við höfum haldið. Og ef við svo ættum enga aðra leið til þess að gera þessa orku að peningum en þá að taka hér inn útlenda stóriðju og orkan öll samanlögð sé eitthvað álíka og þarf handa 20 álbræðslum svipuðum eins og þessi verður, sem við höfum, eftir að hún hefur verið stækkuð, þá er komin fram nýstárleg mynd. En þegar þessar myndir eru dregnar upp og aðrar slíkar, sem eru nú sums staðar upp dregnar, og þótt þær séu ekki alveg sannar, þá skýrist það þó fyrir mönnum betur en nokkru sinni fyrr, hvað Íslendingar eiga undir hafinu framvegis og þeim auðæfum, sem í því finnast.

Rétt er að gera sér grein fyrir því, að hagnýting hafsins og landgrunnsins verður að byggjast framvegis miklu meira á þekkingu en nokkru sinni áður. Menn verða að þekkja hafið eins og bezt má verða og lífið í sjónum og sjálfan hafsbotninn. Skynsamlegar fiskveiðar og önnur hagnýting sjávargæðanna samhliða nauðsynlegri verndun þeirra auðæfa, sem í hafinu er að finna, hljóta því í vaxandi mæli að byggjast á þekkingu, sem hverjum einstaklingi verður alveg ofviða að afla sér á eigin spýtur og á eigin kostnað.

Ég vil leggja sterka áherzlu á, að þetta á ekki aðeins við rannsóknir á hafstraumum, hafsbotninum, fiskistofnunum, stærð þeirra og öðru, sem snertir verndun þeirra og viðhald, heldur á þetta einnig við um sjálfar fiskveiðarnar. Ég er alveg sannfærður um, að þess er ekki langt að bíða, að fiskveiðar, sem eru byggðar á því, að hver einstaklingur leiti að fiskinum handa sér, verða taldar úreltar. Ef vel á að takast, verður fiskveiðiflotinn að hafa í sinni þjónustu leitarskip, sem kynna sér hafið og finna fiskinn, sem fylgjast með göngum og vita, hvar fiskinn er að finna. Slík þjónusta hlýtur að koma í vaxandi mæli. Það verður sem sé að leggja stóraukið fé til sjálfra grundvallarrannsóknanna á hafinu og fiskstofnunum og einnig til hagnýtrar leitar í þjónustu fiskveiðanna.

Það má ekki horfa í að leggja fram það fé, sem þarf til þess að rannsaka hafið og hafsbotninn og lífið í sjónum, og það verður í vaxandi mæli að veita fiskveiðiflotanum þjónustu við fiskileit og öflun þeirrar þekkingar, sem þarf við nýtízku fiskveiðar, en einstaklingum er um megn að kosta.

Æðimikið hefur verið unnið að því að rannsaka fiskistofnana og hafið, og ber að meta og virða mikils það, sem gert hefur verið. En samt kemur alltaf betur og betur í ljós, að það nær mjög skammt, og því fer fjarri, að hægt hafi verið að kanna hafið og fiskstofnana sem skyldi eða veita fiskiflotanum þá þjónustu, sem þörf er á, og því er þörf nýrra stórátaka í þessum efnum.

Við vorum hér rétt áðan að ræða um aðra þáltill., og þar kom fram hjá einum hv. þm., að þegar hann spurðist fyrir um það hjá fiskifræðingum okkar og þeirri stofnun, sem hefur með höndum þessi mál, hvernig ástatt væri um spærlinginn og sandsílið og hvað skynsamlegt mundi vera að gera í sambandi við þá fiska, þá kom það undir eins fram, sem við vissum fyrir fram, að þekking er ekki nægilega mikil til þess, að hægt sé að svara slíkum spurningum. Þó er þar um að ræða verulegan þátt í fæðu hinna stærri fiska, sem við fram að þessu höfum lifað á. Þannig mætti endalaust telja dæmi þess, hvernig ástatt er í þessum efnum.

Nú verður að hefjast ný sókn í landgrunnsmálinu og varðandi hafsbotninn, sem áður hefur ekki komið mjög mikið inn í þessa mynd. Þá koma til nýir rannsóknarþættir, sem verður að sinna, og því hljótum við að stórauka rannsóknir í tengslum við sjálft landgrunnsmálið.

Ég hef ekki lagt það í vana minn að stuðla svo mjög að því, að menn læsu Morgunblaðið, en ég vil nú gera þá undantekningu að vísa hv. þm. á ritgerð í Morgunblaðinu 11. okt. s. 1. eftir Svend Malmberg haffræðing. Þessa ritgerð ættu allir þm. að lesa með athygli, því að höfundur opnar þarna ný svið og sýnir fram á, að ef við ætlum að fylgja eftir landgrunnsmálinu og búa okkur undir að vera færir um að gera okkur grein fyrir þeim möguleikum, sem framtíðin ber í skauti sér á hafsbotninum og í hafinu, þá verðum við að endurskoða öll þessi mál frá rótum og leggja út í nýjar rannsóknargreinar, sem ekki hafa áður komið til.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þeim fyrirætlunum, sem hæstv. ríkisstj. hafði uppi um að selja Hafþór við þessar ástæður, mun hafa verið breytt, og Hafþór, sem er þægilegt, lítið en gott og vel útbúið rannsóknarskip, verður ekki seldur, en heldur áfram í þjónustu þessara málefna. Sannleikurinn er sá, að mikil nauðsyn er á því að stórauka þann flota, sem að þessu starfar.

Ég tel, að þessi rannsóknarmál séu á því stigi, að lífsnauðsyn sé að gera á þeim heildarúttekt, og þess vegna legg ég til með þessari þáltill., að fimm sérfræðingum verði falið að gera fimm ára áætlun um verkefni á sviði haf- og fiskirannsókna og þjónustu við fiskveiðiflotann og að sú áætlun verði gerð í nánu samstarfi við samtök sjómanna og útvegsmanna. Ég legg hina allra þyngstu áherzlu á, að þessi áætlun verði gerð í nánu samráði við samtök þeirra manna, sjómanna og útvegsmanna, sem búa yfir stórfelldri þekkingu nú þegar um ýmis atriði, sem þarna verða að koma til greina. Ég held því hiklaust fram, að því aðeins sé góðs árangurs að vænta af þessu starfi, að áætlunin verði gerð í nánu samstarfi sérfræðinga og sjómanna.

Það hefur verið gerð áætlun um rannsóknir á fallvötnum landsins, og álít ég, að þar hafi verið mjög skynsamlega að farið að gera einmitt áætlun um og skoða ofan í kjölinn, hversu miklu vatnsafli við eigum yfir að ráða og annað, sem lýtur að hagnýtingu þess. Ég tel, að nú verði að gera hafrannsóknum hliðstæð skil og megi ekki seinna vera, að þau mál séu tekin álíka myndarlegum tökum. Það verði nú reynt að gera sér grein fyrir því með ráði beztu manna, hvar við stöndum í þessu efni og hvaða starfrækslu við verðum að koma á fót, til þess að sæmilega sé fyrir þeim séð.

Okkur er lífsnauðsyn að vita, hvernig ástatt er með fiskistofnana og annað líf í sjónum. Hvað má veiða og hvað þarf að vernda? Og þá ekki síður að taka þá rannsóknaþætti, sem snerta baráttu okkar fyrir landgrunninu og hagnýtingu þess í þágu okkar sjálfra.

Það er sannfæring mín, að viðhorf allt sé nú orðið svo gerbreytt varðandi fiskistofnana og annað, sem býr í sjónum, fiskveiðarnar og möguleikana til þess að fá vitneskju um hafið sjálft og hafsbotninn, að það verði að skoða þessi rannsóknarmál frá alveg nýjum sjónarhóli og gersamlega í nýju ljósi, og á þetta vil ég leggja alveg sérstaka áherzlu með flutningi þessarar þáltill. Ég vona, að henni verði vel tekið og að úr framkvæmdum verði eins og þar er gert ráð fyrir. Að sjálfsögðu gæti komið til greina að haga þessari athugun öðru visi en þarna er upp á stungið, en áríðandi er, að sérfræðingar vinni að þessu verki í samráði við samtök sjómanna og útvegsmanna. Það tel ég þýðingarmikið.