17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

1. mál, fjárlög 1971

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég hef, eins og þm. ber, lesið oft og kynnt mér vel fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir, og það verð ég að segja, að ég hefði haft hug á því að flytja brtt. við það fleiri en eina, en það er aðeins ein, sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 272 ásamt hv. þm. Einari Ágústssyni. Ég hefði svo sannarlega haft hug á því að flytja margar brtt. í sambandi við ýmsar fjárfrekar framkvæmdir í kjördæmi því, sem ég er fulltrúi fyrir, en ég hef ekki farið inn á þá braut. Hins vegar ákvað ég með sjálfum mér að athuga, hvaða mál það væri, sem ég teldi að væri ekki nægilega góð skil gerð í fjárlagafrv., sem verður afgreitt nú fyrir helgi, og eftir því sem ég hef athugað þetta frv., þá finnst mér það vera framlag til launagreiðslna Kleppsspítalans. Og því hef ég á þessu þskj. ásamt áðurnefndum þm. flutt brtt. við launagreiðslur þessa sjúkrahúss, sem hljóða á þann veg, að í staðinn fyrir kr. 69 millj. 596 þús. komi kr. 72 millj. 596. Ég hefði vel getað hugsað mér að hafa þessa upphæð hærri en 3 millj. kr., sem ég kem hér með, en ég mun staldra þó við þessa upphæð. Ég vil fylgja þessari till. úr hlaði með nokkrum orðum og varpa þannig nokkurri birtu yfir ástandið í þessum málum, eins og það er í dag.

Í bréfi til fjvn. hafa yfirlæknar þessa spítala lýst ástandinu í sambandi við starfsfólkið. Ég held, að bréf þetta hafi ekki komið fyrir augu alþm. og ég tel fyllstu ástæðu, hvernig sem atkvgr. fer í dag eða á morgun, að hv. alþm. eyði nokkrum mínútum til þess að hlusta á það, hvernig ástandið er varðandi starfsfólk á þessu sjúkrahúsi. En í nefndu bréfi segir svo:

„Vegna skorts á starfsfólki hefur jafnan vantað mikið á, að veitt væri sú þjónusta á spítalanum, sem nauðsynleg er, og jafnvel hefur reynzt fullerfitt að fullnægja þjónustunni, svo sem lög gera ráð fyrir, vegna þess hversu vinnuálagið hefur verið mikið. Þess í stað hefur jafnan verið látið sitja í fyrirrúmi að leysa brýnustu neyð sjúklinga og aðstandenda þeirra. Jafnvel þótt læknafjöldi við spítalann hafi aukizt verulega á undanförnum árum, hefur það ekki orðið til þess, að hægt væri að komast yfir öll þau störf, sem ætlazt er til að sinnt sé, þegar jafnan hefur verið pressað mjög hart á utan frá að koma inn sjúklingum, sem vaxandi læknafjöldi hefur getað hjálpað yfir sárustu neyðina.“ Síðan segir í þessu bréfi: „Ekki hefur verið hægt að hafa nema eina hjúkrunarkonu á næturvakt yfir allan spítalann og er það þó auðvitað fráleitt á svo stóru sjúkrahúsi, sem Kleppsspítalinn er, sem tók á móti á 9. hundrað sjúklingum á s. l. ári, mörgum hverjum mikið veikum og utan venjulegs vinnutíma. Auk þessarar einu hjúkrunarkonu, sem hefur vakt á spítalanum 12 tíma sólarhringsins,“ — Ég les þessa setningu aftur. „Auk þessarar einu hjúkrunarkonu, sem hefur vakt á spítalanum 12 tíma sólarhringsins, hefur verið notazt við ófaglært fólk, en þá hefur ekki verið hægt að hafa næturvakt á öllum deildum, vegna þess að heimild hefur brostið til þess að greiða laun nógu margra starfsmanna. Er slíkt auðvitað algerlega óforsvaranlegt.“

Ég vil bæta þessu við þennan lestur: Um langt árabil hefur verið geigvænlegur skortur á sjúkrarúmum fyrir geðsjúklinga hér á landi, sem leitt hefur til þess, að allt of margir sjúklingar hafa verið teknir inn á Kleppsspítalann. Nú eru þar um 240 sjúklingar á plássi, sem er talið hæfilegt fyrir 203. Raunar er plássið ekki nema fyrir 162, þar eð gamli spítalinn er ekki lengur boðlegur sem sjúkrahús vegna eldhættu og vegna þess að ekki er hægt að hita hann nægilega upp. Það er fleira en þrengsli, sem háð hefur starfsemi spítalans. Þar er allt of fátt starfsfólk, eins og vikið var áðan að í upplestri bréfs yfirmanna sjúkrahússins. Fjárlög heimila enn ekki nema 157 starfsmenn, sem sinna sjúklingum beint. Yfirlæknar spítalans gera hins vegar ráð fyrir, að ekki verði komizt af með minna en 213 starfsmenn til þessara verka, ef vel á að vera. Til viðmiðunar má geta þess, að sjúkrahús í Danmörku, sem er ívið minna en Kleppsspítalinn, gerir ráð fyrir 214 starfsmönnum til þess að sinna sjúklingunum beint. Á hinu danska sjúkrahúsi, sem miðað er við og er í Postrup, munu innlagningar vera álíka margar árlega og á Kleppsspítalanum, en eftirmeðferðardeild danska sjúkrahússins mun hafa mun færri sjúklinga og færri viðtöl heldur en er á Kleppsspítalanum. Til þess að geta ráðið þessa bráðnauðsynlegu viðbótarstarfsmenn þyrfti að gera ráð fyrir 15 millj. kr. hærri fjárveitingu til Kleppsspítalans vegna launa. Þetta er samkvæmt upplýsingum frá prófessorunum, sem þar vinna. Þá má og benda á, að áætlun vegna viðhalds er miklu lægri í fjárlögum, og út í það fór ég ekki neitt í þessari brtt. minni, en yfirlæknir, forstöðukona og umsjónarmenn gerðu ráð fyrir. Prófessor Tómas Helgason hefur upplýst mig um það, að til þess að ná þeim mismun þurfi 7 millj. kr. viðbótarfjárveitingu auk tveggja millj. kr. vegna nauðsynlegrar endurnýjunar á eldhúsi. Mér er líka kunnugt, að allir rekstrarliðir spítalans eru áætlaðir of lágir, þannig að mismunur á þeim upphæðum, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, og þeim upphæðum, sem yfirlæknar spítalans gerðu ráð fyrir, að þyrfti til viðunandi rekstrar, skipta tugum millj. kr.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu lengri, en ég verð að segja í lok þessarar stuttu ræðu, að það verður ekki annað sagt en að þeirri þjóð, sem stærir sig fyrst og fremst af andlegum verðmætum, en við höfum nú lengst af gert það, sé til minnkunar að vilja ekki kosta hinu sama til meðferðar þeirra, sem eru andlega sjúkir, og hún kostar til meðferðar hinna líkamlega sjúku. En þegar borinn er saman kostnaður við sjúkrahúsin, ríkissjúkrahúsin, þá kemur þetta alveg glöggt í ljós. Ég lýk máli mínu með því að skora á hv. þm. að greiða þessari brtt. atkv.