06.04.1971
Sameinað þing: 42. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (3659)

295. mál, réttindi Íslendinga á hafinu umhverfis landið

Frsm. minni hl. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég skal virða þann vilja, sem er á því að ljúka þessum umr. fyrir kl. 7, og segja aðeins örfáar setningar. Ég hef ekki heldur tilefni til að segja margt, því að það yrði endurtekning á því, sem ég hef áður sagt, og það vil ég forðast. Ég vil aðeins segja út af því, sem hæstv. utanrrh. sagði, að ég vildi, að hann hefði aldrei sagt það, sem hann lét nú frá sér fara um þetta mál, um siðleysið, vegna þess að það þjónar ekki málstað Íslands að ræða málið þannig.

Ég veit, að hæstv. ráðh. hlýtur að sjá það við íhugun, að þetta er ofmælt, ekki sízt þegar þess er gætt, að fram eru komnar yfirlýsingar frá forsrh. um það, að undir vissum kringumstæðum gæti hann hugsað sér útfærslu fyrir ráðstefnuna. Hv. síðasti ræðumaður hefur að öðru leyti farið inn á þetta á þann hátt, að ég get tekið undir það og því sparað mér að ræða það nánar.

Skoðun okkar er, að nauðsynlegt sé að ákveða strax útfærslu landhelginnar til þess að tryggja málstað Íslands á svipaðan hátt og t.d. Kanada og Brasilía hafa gert, og þessar þjóðir færa vafalaust út núna vegna þess, að þær telja það tryggara fyrir sig, og vitanlega höfum við engar skuldbindingar tekið á okkur í sambandi við þessa ráðstefnuboðun, sem fyrirbyggja það, að við gætum okkar hagsmuna í þessu. Það kemur ekki til mála, að neinar slíkar skuldbindingar hafi verið teknar.

En varðandi hitt, hvort stefnan er sú hjá þeim, sem standa að till. ríkisstj., að færa út landhelgina, þá endurtek ég aðeins það, sem ég sagði áðan, að ég skora á hæstv. ríkisstj. að sýna það með því að setja það inn í þáltill. sína.