01.04.1971
Sameinað þing: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í D-deild Alþingistíðinda. (3675)

294. mál, landhelgismál

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti, góðir Íslendingar. Svo sem glögglega er nú komið í ljós, er höfuðágreiningur stjórnar og stjórnarandstöðu í þessu máli fólginn í því, að stjórnarandstæðingar gera nú till. um stækkun fiskveiðilandhelginnar í 50 sjómílur frá grunnlínum í kringum landið og komi stækkun þessi til framkvæmda eigi síðar en 1. sept. 1972, en stjórnarmeirihlutinn á Alþ. vill í þessu efni miða við landgrunnið, 50 sjómílur eða meira, þegar aðstæður krefjast og slík útfærsla er skynsamleg að mati Alþ. og ríkisstj. Út frá till. sinni ræða stjórnarandstæðingar nú um uppsögn landhelgissamningsins við Breta og Þjóðverja frá 1961, eða að þeir samningar teljist ekki bindandi. Skal ekki hér farið út í þá sálma, heldur aðeins vikið að þeirri spurningu, sem mestu máli skiptir, hvort einhliða aðgerðir af Íslands hálfu þegar í stað með fyrir fram tilkynningum séu æskilegar eða ekki.

Samkv. niðurstöðum þeim, sem daglega liggja fyrir um ástand fiskstofnanna við Ísland, verður ekki talið, að nú sé um ofveiði að ræða á aðalstofnunum, þorski og ýsu. Þorskstofninn við Ísland er ekki talinn í yfirvofandi hættu í dag, nema aðstæður á Íslandsmiðum gerbreytist frá því, sem nú er. Sókn erlendra veiðiskipa hefur farið minnkandi undanfarið, og hlutdeild Íslendinga í heildarveiðinni á Íslandsmiðum hefur aukizt. Verður því ekki sagt, að þessar aðstæður geri útfærslu landhelginnar meira aðkallandi nú en áður, þótt útfærsla sé að sjálfsögðu jafnan æskileg. Einhliða útfærslu landhelginnar í dag mundu erlendar þjóðir virða að vettugi, og Bretar og Þjóðverjar mundu stefna málinu fyrir alþjóðadómstólinn í Haag. Talið er öruggt, að dómur mundi ekki falla í málinu fyrr en eftir lok Genfar-ráðstefnunnar 1973. Þessar aðgerðir mundu því ekki flýta niðurstöðu málsins eða tryggja okkur réttinn fyrr en ella. Vafalaust er, að slíkar einhliða aðgerðir mundu lítil áhrif hafa á alþjóðaþróun og mundu því varla bæta stöðu okkar á hafréttarráðstefnunni í Genf 1973 að því leyti. Íslendingar hafa þegar lýst yfir yfirráðum yfir landgrunninu og eru því í hópi annarra þjóða, er krefjast enn þá meira en 12 mílna. Hefur það sjónarmið verið ítrekað, margítrekað á alþjóðavettvangi. Aftur á móti gætu slíkar aðgerðir haft í för með sér, að samúð annarra þjóða á ráðstefnunni og í undirbúningi að henni yrði minni. Íslendingar yrðu að gefa skýringu á því, af hverju ekki mætti fresta aðgerðum í skamman tíma. Það reyndist okkur sérlega sterkur málflutningur og mikill styrkur á Genfar-ráðstefnunni 1958 að halda því fram, að aðgerða hefði löngu fyrr verið nauðsyn, en Íslendingar hefðu ákveðið að bíða ráðstefnunnar og niðurstöðu hennar, en lengur gætum við ekki beðið.

Það, sem hér er sagt um einhliða aðgerðir af Íslands hálfu fyrir ráðstefnuna 1973, er byggt á óbreyttum aðstæðum varðandi sókn og ástand fiskstofnanna nú. Nauðsynlegt er, að sífelld athugun fari fram á sókninni í fiskstofnana og áhrifum hennar á stofnana, þannig að jafnóðum sé hægt að taka afstöðu til nauðsynlegra ráðstafana hverju sinni. Aukin veiðitækni og vaxandi sókn er líkleg, og verður á þeim grundvelli að undirbúa frekari framkvæmdir svo fljótt sem verða má. Á hinn bóginn verður að telja það óskynsamlegt, ef við Íslendingar að óbreyttum aðstæðum og jafnvel meðan hlutur okkar fer vaxandi í sókninni lýsum því yfir fyrir fram með einhliða aðgerðum, að við ætlum að fara okkar leiðir og gera okkar ráðstafanir, án tillits til niðurstöðu ráðstefnunnar í Genf 1973. Eftir þá ráðstefnu væri ófriður út af aðgerðum, sem sumir vilja gera nú þegar, e.t.v. óþarfur eða okkur a.m.k. auðveldari. Alþjóðleg þróun er Íslendingum í hag í þessum efnum. Vænta má, að hagsmunir strandríkis verði virtir á ráðstefnunni 1973. Spyrja má, hvort rétt sé að taka þá áhættu að gera ráðstafanir fyrr en þróunin er að okkar dómi orðin nægjanlega hagstæð. A.m.k. getur það ekki talizt skynsamlegt að ákveða aðgerðir, áður en nokkuð er vitað um raunverulega alþjóðlega stöðu málanna í dag. En það atriði er sérstaklega til athugunar í öllu undirbúningsstarfi, sem nú fer fram á vegum ráðstefnunnar.

Eins og í upphafi var sagt, þá gerir stjórnarandstaðan nú till. um stækkun landhelginnar í 50 mílur, en stjórnarmeirihlutinn á Alþ. vill í þessu efni miða við landgrunnið, 50 mílur eða meira. Af hverju þarf að breyta hinni upphaflegu landgrunnskröfu Íslendinga? Við höfum fært að því rök, að landgrunnið og hafið yfir því sé ein heild og miða beri við aðstæður á hverjum stað. Landgrunnskrafan hefur verið grundvaltarkrafa okkar alla tíð. Við megum ekki veikja stöðu okkar á alþjóðavettvangi með því að víkja frá þeirri grundvallarkröfu, sem við höfum ávallt byggt allan okkar málstað á fram til þessa.

Það er furðuleg staðhæfing stjórnarandstöðunnar, að alþjóðadómstóllinn í Haag sé ekki hæfur til að tryggja það, að við njótum gildandi alþjóðalaga eins og þau eru á hverjum tíma. Það hlýtur að vera meginregla, sem ekki fyrnist í skiptum þjóða, að dómstóll úrskurði í deilum. Íslendingar ættu allra þjóða sízt að afneita slíkri réttarvenju. Alþjóðadómstóllinn er hluti af sáttmála Sameinuðu þjóðanna, og Íslendingar hljóta að meta þá tryggingu, sem slíkur dómstóll veitir þeim. Það er, að lög og réttur gildi, en ekki máttur hins sterkara.

Þáltill. ríkisstj. hefur nú verið lögð fram á hinu háa Alþingi, en hv. þm. Lúðvík Jósefsson átti erfitt með að skilja hana í ræðu sinni áðan og ákallaði í því efni drottin guð sinn, sem ég hef í minni 18 ára þingsetu aldrei heyrt hann ávarpa fyrr. Mér þykir því eðlilegt, að þessi ályktun sé lesin, svo að alþjóð megi heyra:

,.Alþingi minnir á friðunarráðstafanir Íslendinga sjálfra á hrygningarsvæðum síldar við Suðvesturland, sem koma munu í veg fyrir eyðingu á þessum fiskistofni. Alþ. felur ríkisstj. að undirbúa nú þegar friðunaraðgerðir fyrir öllum veiðum til verndar ungfiski á landgrunnssvæðinu utan 12 mílna markanna, þar sem viðurkennt er, að um helztu uppeldisstöðvar ungfisks sé að ræða. Jafnframt felur Alþ. fulltrúum Íslands við undirbúning hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að kappkosta, að sett verði skýr ákvæði um friðunarsvæði til verndar fiskistofnum í samræmi við niðurstöður vísindalegra rannsókna, enda sé þá jafnframt gætt sérstæðra hagsmuna strandríkis eins og Íslands, sem byggir efnahagslega afkomu sína og sjálfstæði á nýtingu þess hafsvæðis, er umlykur Ísland á landgrunni þess.“

Á 5. ársfundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar í maí 1967 lögðu fulltrúar Íslands til, að lokað yrði svæði, er takmarkaðist að vestan af 16. gráðu v. l. og að sunnan af 65. gráðu og 30. mín. n. br., fyrir öllum togveiðum á tímabilinu júlí — des. ár hvert í 10 ár. Jafnframt því var farið fram á, að Alþjóðahafrannsóknaráðinu yrði falið að skipuleggja rannsóknir á áhrifum þessarar lokunar á íslenzku fiskstofnana. Afgreiðsla málsins fór á þann veg, að Norðaustur-Atlantshafsnefndin fól sérstakri nefnd vísindamanna og embættismanna að athuga tillöguna nánar, og kom sú nefnd saman í Reykjavík í jan. 1968. Nefnd þessi komst ekki að samkomulagi um íslenzku tillöguna, en gerði ákveðnar tillögur um auknar rannsóknir á þorsk- og ýsustofnunum við Ísland. Á 6. ársfundi Norðaustur-Atlantshafsnefndarinnar í Reykjavík í maí 1969 var íslenzka tillagan rædd enn þá frekar. Enn þá tókst þó ekki að ná endanlegu samkomulagi um lokun svæðisins. En nefndin samþykkti að fara þess á leit við Alþjóðahafrannsóknaráðið, að það skipulegði þær rannsóknir, er janúarfundurinn hafði lagt til, og yrðu þær svo lagðar fyrir ársfund nefndarinnar í maí 1971. Íslenzk, brezk og þýzk rannsóknarskip hafa síðan unnið að rannsóknum þessum. Tillaga Íslands um lokun svæðis út af Norðaustur-Íslandi fyrir öllum togveiðum í júlí–des. á hverju ári í l0 ár verður tekin til meðferðar á ársfundi nefndarinnar, þ.e. Norðaustur-Atlantshafsnefndarinnar, í byrjun næsta mánaðar. Þar verða birtar niðurstöður þriggja ára rannsókna á þorsk- og ýsustofnunum við Ísland. Mun íslenzka sendinefndin fylgja fast eftir tillögu Íslendinga í þessu efni.

Með tilliti til þess, að hér hefur verið minnzt á rannsóknir á undanförnum árum, — en stefna okkar í landhelgismálinu hlýtur að verulegu leyti að byggjast á vísindalegum rannsóknum á ástandi fiskstofna, — þá má geta þess, að fjárframlög til haf- og fiskrannsókna hafa aukizt úr 27.3 millj. kr. árið 1965 í 72.7 millj. kr. á þessu ári eða um 166%. Á þessu tímabili hafa bætzt í rannsóknarflotann tvö glæsileg og fullkomin leitar- og hafrannsóknarskip, sem kostað hafa yfir 300 millj. kr.

Stjórnarandstaðan gerir nú till. um 100 sjómílna mengunarlögsögu. Er því óhjákvæmilegt að víkja nokkrum orðum að þessum lið till. Aðalhættan á mengun sjávar í kringum Ísland stafar af losun efna í sjó. Reynslan hefur sýnt, að þau geta borizt með straumum milli landa, t.d. eru málmar eða DDT-efni í sjó eða sjávarlínu við Ísland vafalaust komin langt að frá öðrum löndum og jafnvel frá öðrum heimsálfum. Höfuðatriðið er því það að koma algjörlega í veg fyrir losun úrgangsefna á öllu úthafinu. Unnið hefur verið að því undanfarið að leysa mengunarvandamálið með alþjóðlegu samkomulagi. Verður ekki betur séð en að mjög góðir möguleikar séu á því að fá viðunandi lausn, enda eru flestar þjóðir nú sammála um nauðsyn hennar. Hafa m.a. verið uppi ráðagerðir um bann við losun eitraðra úrgangsefna á ákveðnum svæðum eða samstöðu um, að viðkomandi þjóðþing hvers lands setji löggjöf, er banni eigin þegnum að losa þessi efni í sjó. Íslendingar hafa ekki látið sinn hlut eftir liggja í þessari viðleitni. Einmitt í dag, 1. apríl, stendur yfir í Osló fundur norrænnar samstarfsnefndar um sjávarútvegsmál, þar sem um þessi mál er fjallað. Fulltrúar Íslands á þeim fundi fylgja fast eftir okkar sjónarmiðum þar. Svo að aftur sé vikið að 100 mílna mengunarlögsögunni, þá má geta þess, að Ísland er aðili að alþjóðasamningum frá 1954 gegn óhreinkun sjávar af völdum olíu. Bannað er að losa olíu úr skipum í sjó innan 100 mílna fjarlægðar frá Íslandi. Að sjálfsögðu geta íslenzk stjórnvöld hvenær sem er einnig sett þau skilyrði, sem þau telja nauðsynleg í samningum um kaup á olíu til landsins, t.d. um útbúnað þeirra skipa, er farminn flytja. Vitnað hefur verið til, að ríkisstj. Kanada hafi gefið fordæmi um 100 mílna mengunarlögsögu. Þetta er ekki alls kostar rétt. Löggjöf Kanada er miðuð við heimskautahafið og er ætlað að koma í veg fyrir eyðileggingu á umhverfi þar af völdum mengunar og vegna olíuflutninga um Norðvesturleiðina svo kölluðu, sem kanadísk stjórnvöld viðurkenna ekki sem alþjóðlegt sund. Er þar sérstök hætta á því vegna loftslags, að frosin olía geti valdið varanlegum skemmdum á umhverfi.

Því hefur verið haldið fram, að þótt erfitt gæti verið að hafa eftirlit með svo stórri mengunarlögsögu sem 100 mílum frá núgildandi grunnlínum, þá muni slík yfirlýsing Alþ. þó að einhverju leyti bægja mengun frá landinu. Síður yrði um að ræða losun úrgangsefna í nánd við landið, þar sem yfirlýsingin skapaði vissan ótta. Þessi staðhæfing fær varla staðizt. Þeir erlendir aðilar, sem hyggjast losa efni í sjó, mundu vafalaust álykta svo, að þar sem losun væri bönnuð innan 100 mílna, hlyti hún að vera leyfileg utan 100 mílna. Sú niðurstaða væri okkur Íslendingum til lítilla bóta, þótt hún liti vel út við fyrstu sýn. Við skulum þó gæta þess, að sá fiskur, sem hér við land veiðist, er víða kominn að, og við ráðum ekki ferð hafstraumanna. Og okkar fiskiskip afla í dag á ýmsum erlendum fiskislóðum. Sjálfum finnst okkur vart óeðlilegt, að þessar þjóðir beri fram sambærilegar kröfur og við gerum til sinnar landhelgi. Ég minni aðeins á Norðursjóinn og Grænlandsmiðin í þessu efni. En eins og áður sagði, er nauðsynlegt að leysa mengunarvandamálin með alþjóðasamkomulagi, vegna þess að eiturefni berast með straumum, og mun því affarasælast að leggja höfuðáherslu á fiskveiðilögsöguna sem slíka og blanda ekki öðrum hlutum saman við það mál. Hins vegar skal skýrt tekið fram, að enda þótt mengunarvandamálið verði helzt leyst með alþjóðasamkomulagi, þarf hvort tveggja að koma til, alþjóðasamkomulag og löggjöf hinna einstöku þjóða.

Við Íslendingar deilum ekki um markmið í landhelgismálinu, heldur leiðir. Við megum ekki láta deilur um leiðir verða til þess að spilla fyrir markvissri sókn okkar í þessum efnum. Því er það raunasaga, að stjórnarandstaðan skuli hafa freistazt til þess að nota þetta sameiginlega hagsmunamál Íslendinga allra sér til ímyndaðs framdráttar í væntanlegum alþingiskosningum.

Hér hafa verið rakin ágreiningsatriði stjórnar og stjórnarandstöðu. En að lokum vildi ég segja þetta: Með hliðsjón af heildarmyndinni virðist ljóst, að stefna Íslands í landhelgismálinu ætti að vera þríþætt. Það er í fyrsta lagi að berjast áfram fyrir því sjónarmiði, að víðátta fiskveiðilögsögunnar skuli miðuð við landgrunnshafið og þá fyrst og fremst þau svæði á því, sem mesta þýðingu hafa. Er þá sjálfsagt að halda áfram náinni samvinnu við þau ríki, sem slíkri stefnu eru fylgjandi. Í öðru lagi að hafa nána samvinnu við aðrar þjóðir um nauðsynlegar ráðstafanir til verndar fiskstofnum almennt á úthöfunum. Í þriðja lagi að tryggja forgangsrétt Íslendinga á hafsvæðum utan fiskveiðilögsögunnar miðað við þarfir þeirra og sérstöðu. Á fyrirhugaðri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og í undirbúningsnefnd hennar verður að vinna að framkvæmd þessara sjónarmiða.

Þegar litið er á þýðingu fiskveiða og fiskiðnaðar fyrir þjóðarbú Íslendinga, er auðsætt, hvílíkt áfall síldveiðibresturinn varð okkur á sínum tíma. Ef svipað ástand skapaðist einnig í þorskveiðum, mundu hinar efnahagslegu afleiðingar verða alvarlegri en orð fá lýst. Engan þarf því að undra, þótt Íslendingar horfi með nokkrum ugg á þróunina annars staðar, bæði með tilliti til minnkandi fiskstofna og áframhaldandi smíða stórra og afkastamikilla fiskiskipa frá ýmsum þjóðum, sem beitt kynni að verða á Íslandsmiðum. Áríðandi er, að höfuðáherzla sé lögð á að kynna sem bezt þetta sjónarmið í viðræðum við aðrar þjóðir. Við erum ekki einir strandríkja í heiminum. Einnig er að sjálfsögðu nauðsynlegt, að sífelld athugun fari fram á sókninni í fiskstofnana og áhrifum hennar á þá, þannig að jafnóðum sé hægt að taka afstöðu til nauðsynlegra ráðstafana á þessu sviði. Við höfum sýnt í þeim efnum fulla alvöru og ábyrgðartilfinningu, sem m.a. sést á því, hvaða fjármunum hefur verið eytt af okkar hálfu til hafrannsókna af okkar takmörkuðu fjárhagsgetu ásamt kostnaðarsamri þátttöku í alþjóðasamtökum undanfarin ár. Til hvers hefur þetta starf verið unnið, ef ekkert á að byggja á því og ekkert með það að gera?

Hv. stjórnarandstæðingar hafa mjög kvartað yfir því nú síðustu vikur þingsins, að of mikið hafi borizt af stjfrv. og talið þau of seint fram komin, þannig að erfitt væri að komast til botns í þeim. Frv. um 500 millj. kr. aukningu á bótum almannatrygginga, elli- og örorkulaunum lífeyrisþega o.s.frv. þótti m.a. of seint fram komið. Sérfróð, stjórnskipuð nefnd hafði þó haft málið til meðferðar um 9 mánaða skeið og allir þingflokkar uppkast að frv. í 21/2 viku. Samt var það nú talinn of mikill hraði að afhenda þessa peninga til þeirra, sem hlut áttu að máli, þó að það ætti að taka 8 mánuði að afla þess fjár hjá þeim aðilum, sem greiða eiga bæturnar. Engin endanleg endurskoðun mun nokkurn tíma fara fram á slíkri löggjöf. Það er öllum hv. alþm. ljóst. Hún verður að vera í stöðugri endurskoðun. Það mál, sem hér er til umr., íslenzk fiskveiðilögsaga og viðurkenning annarra þjóða á þeirri lögsögu, þarf hins vegar ekki að dómi stjórnarandstæðinga nema 3–4 daga umr. hér á Alþ. og á þó ekki að öðlast gildi fyrr en eftir eitt og hálft ár. Fiskveiðilögsaga okkar, yfirráð og full viðurkenning annarra þjóða á henni, er þó af öllum landsmönnum talinn grundvöllur alls lífs í landinu. Um samanburð á slíkum málflutningi ætla ég ekki að setjast í dómarastól. Sá samanburður er svo auðveldur hverjum Íslendingi, að óþarft er frekar um að ræða.

Ég þakka þeim, sem hlýtt hafa. — Góða nótt.