05.11.1970
Neðri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (3696)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hef heldur enga ástæðu eða löngun til þess að deila eða þrátta hér um formsatriði, en ef á að afgreiða þetta út frá þeim sjónarmiðum, sem hv. síðasti ræðumaður talaði hér um núna, þá ætti málið að fara til heilbr.- og félmn., þar sem þetta er banvænt og haldnar margar ræður um það, að bæði Reykvíkingar og Hafnfirðingar gætu hlotið af þessu geysilegt heilsutjón. Frá þessu sjónarmiði ætti það frekar að fara þangað, en ég hef nú ekki lagt það til, heldur að það færi til iðnn. eins og það fór á sínum tíma í báðum d., þegar um málið var fjallað.