16.03.1971
Neðri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í D-deild Alþingistíðinda. (3701)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Þegar Einar Benediktsson greindi löndum sínum frá stóriðju og ríkidæmi nágrannaþjóða í rismiklum ljóðum, brá fyrir línu og línu, sem bentu til þess, að hinar dökku hliðar iðnbyltingarinnar færu ekki fram hjá honum. Í Tínarsmiðjum talar hann um „skolgrátt fljótið“, og í kvæðinu um Tempsá segir hann, „að borgin andi þungum súgi“.

Þótt það leyndi sér ekki fyrir mörgum áratugum, að maðurinn var með tækni sinni og framleiðslu farinn að spilla andrúmslofti og vatni, var það ekki fyrr en á allra síðustu tímum, að barátta gegn mengun blossaði upp víða um heim. Það þótti ekki taka því að setja nafnorðið mengun í íslenzka orðabók Menningarsjóðs árið 1963, en nú er varla unnt að opna svo dagblað eða tímarit, að það blasi ekki við augum. Það er því ekki seinna vænna að halda um slíkt mál útvarpsumr., enda þótt þær hefðu mátt vera á breiðari grundvelli en til er stofnað. A.m.k. er óhjákvæmilegt að ræða mengunarmál nokkuð almennt, um leið og byrjað er enn einu sinni að munnhöggvast um álverið í Straumsvík, eins og vænta má í kvöld.

Fyrir nokkru var haldin hér í Reykjavík ráðstefna um mengunarmál, og var fróðlegt að fylgjast með því, sem þar gerðist. Fyrirlesarar voru um 20 talsins, flestir ungir íslenzkir sérfræðingar, sem auðheyrilega höfðu bæði þekkingu og áhuga á mengunarmálinu. Fyrsta erindi ráðstefnunnar var þó flutt af brezkum manni, sem er talinn einn af forustumönnum á heimsmælikvarða í baráttu við mengun. Hann ræddi þetta mál af mikilli þekkingu og greip á lofti dæmi úr öllum heimshlutum til stuðnings skoðunum sínum. Þó var ekki sízt athyglisvert við ræðu hans, að hann hvatti bæði til festu og hógværðar í þessum málum, en varaði við hvers konar ofstæki. Ég nefni þetta nú áhugamönnum til aðvörunar, því að í þessu máli má stuðningur alls almennings ekki bregðast. Hinn brezki sérfræðingur spáði því, að svo lengi sem mannkynið byggi við sómasamleg lífskjör á okkar mælikvarða, mundi verða til einhver mengun. En mesta þýðingu mundi hafa að gera sér ávallt grein fyrir, hver sú mengun væri, og leitast við að hafa vald á henni.

Annað vakti athygli af því, sem hinn brezki sérfræðingur, Robert D. Boote, sagði á þessari mengunarráðstefnu. Hann benti á, að Íslendingar væru gæfuþjóð, af því að þeir væru að hefjast handa um að setja skorður við mengun áður en hún er orðin að alvarlegu vandamáli. Með því að gera gagnráðstafanir í tíma getur farið svo, að unnt verði að forðast margvíslega erfiðleika, sem ella mundu knýja dyra hjá okkur.

Mengunarráðstefnan var að því leyti mjög uppörvandi, að hún sýndi ekki aðeins mikinn áhuga sérfræðinga, embættismanna og stjórnmálamanna, heldur virðast vera til í landinu sérlærðir menn, færir um að leysa af hendi þau verkefni, sem leysa verður á allra næstu árum á þessu sviði. Nú skortir aðeins heildarskipulag í höndum ríkisvaldsins til þess að beizla krafta þeirra og beina þeim að þeim verkefnum, sem mest eru aðkallandi.

Það er illa komið fyrir hinum miklu iðnaðarlöndum í þessum málum, og má segja um marga staði, eins og Einar Benediktsson komst að orði, að borgirnar anda þungum súgi. Hinar gífurlegu efnabreytingar, sem fram fara í iðjuverum, hafa orðið til þess að menga andrúmsloft, rennandi vatn og land. Grá móða skyggir á sól á stórum svæðum, og ferðamenn, sem koma hingað í gustinn til okkar á Íslandi, láta í ljós undrun yfir því, að þeir skuli ekki sjá andrúmsloftið. Ár og lækir eru víða að verða forarpollar, þar sem lífið er á undanhaldi.

Verst af öllu er þó fyrir okkur Íslendinga, að mengun hefur þegar borizt út í heimshöfin á allmörgum stöðum. Í Japan hafa gerzt hörmulegir atburðir, sem sagt hefur verið frá í fréttum, þar sem kvikasilfur hefur borizt í sjó út og fundizt hefur hættulegt magn af því efni í nytjafiskum. Sérfróðir menn hafa af þessari geigvænlegu þróun miklar áhyggjur. Enn sem komið er mun vera lítil mengun á fiskimiðum okkar umhverfis landið. En hvort tveggja getur gerzt, að þessi hafsvæði nái að mengast á einn eða annan hátt, því að varla girðum við fyrir Golfstrauminn, eða að eitrun í fiski annars staðar getur dregið stórlega úr fiskneyzlu. Mun þess raunar gæta nokkuð nú þegar í Vesturheimi. Hvort tveggja þetta eru mengunarhættur, sem gætu leitt til stórfellds tjóns eða jafnvel efnahagskreppu á Íslandi. Slíkum málum er vert að gefa gaum og taka þau alvarlega.

Margar minni hættur steðja að fiskiðnaði okkar, óþrif umhverfis fiskvinnslustöðvar, óhreint vatn, ófullkomið frárennsli o.fl., o.fl. Sérstök ástæða er til að gefa gaum að vatnsbólum á Íslandi og búa mun betur um þau en gert hefur verið til þessa. Heilbrigðiseftirlitið vinnur að því máli, en í sambandi við alla baráttu við mengun er rétt að minnast þess, að þar geta fáir menn sjaldan náð miklum árangri, heldur verður fulltingi alls fjöldans að koma til. Frárennsli og sorp er einnig að verða mikið vandamál hjá okkur, ekki sízt hið síðarnefnda. Er rétt að gera sér þegar grein fyrir því, að á næstu áratugum verðum við að reisa fjöldann allan af sorpeyðingarstöðvum, sem munu kosta ærið fé. Hið gamla máltæki, að lengi taki sjórinn við, er samkvæmt skilningi okkar í dag orðið algerlega úrelt.

Í öllum þessum efnum, sem snerta svo að segja hverja byggð umhverfis allt landið, dugir ekki að gera skyndiáhlaup, hversu lofsverð sem þau annars geta verið. Hér þarf að koma til jafnt áhugi og skynsamleg, raunhæf hugsun, er leiði til stöðugra aðgerða, eftir því sem efni og ástæður framast leyfa.

Þessar útvarpsumr. frá Nd. Alþ. fjalla fyrst og fremst að formi til um hreinsitæki við álbræðsluna í Straumsvík. Ég er á engan hátt að sneiða hjá því umræðuefni með því að ræða fyrst um mengun í víðari skilningi, heldur trúi ég því, að við verðum að gera okkur grein fyrir þessum vandamálum sem heild. Hér er ekki aðeins um að tefla trjágarða í Hafnarfirði, heldur einnig aðra og stóralvarlega þjóðarhagsmuni.

Ég minni aftur á hættuna á mengun hafsins. Það kann að vera, að 100 mílna mengunarlögsaga, að yfirráð yfir landgrunni út á 400 metra dýpi eða 50 mílna lögsaga komi við það mál og geri okkur léttara að vernda hagsmuni okkar. En það getur einnig farið svo, að jafnvel slíkar ráðstafanir muni ekki duga og þurfi meira til á sviði mengunar.

Íslendingar eru á heimilum sínum einstaklega þrifið fólk að flestra dómi. Það er því furðulegra, að umgengni þjóðarinnar um vinnustaði, ekki sízt utan húss, skuli vera svo kæruleysisleg sem raun ber vitni, enda þótt þar eigi víða að vera um matvælaframleiðslustaði að ræða. Það var áfall fyrir okkur fyrir nokkrum árum, er heilbrigðiseftirlitsmenn frá Bandaríkjunum skoðuðu sláturhús hér á landi og felldu þann úrskurð, að héðan mætti ekki flytja einn skrokk af kjöti vestur um haf. Við höfum að vísu síðar með ærnum kostnaði komið okkur upp fullkomnum sláturhúsum í Borgarnesi og víðar, en til þess þurfti mikið átak og dýrt. Nú bíða menn í ofvæni eftir því, hvort einn góðan veðurdag muni birtast hér fyrirvaralaust út úr flugvél fulltrúar frá matvælaeftirliti frá einhverri þjóðinni, sem kaupir mest af fiskinum okkar, til þess að líta á fiskfrystihúsin. Hvernig færum við út úr því prófi? Hvað gæti slík skoðun kostað okkur? Og er ekki betra að hefja gagnsókn gegn mengun í hvers konar mynd fyrr en síðar og reyna þannig að bæta stöðu okkar í þessum málum, áður en verra hlýzt af? Allt þetta snertir mengunarmál, þótt fleira komi til. Allt þetta eru dæmi um, hvað hinn nýi áhugi á mengun, hin nýja barátta gegn mengun getur þýtt fyrir okkur Íslendinga. Þess vegna nefni ég allt þetta hér.

Mengun sjávarins, sem ég kem enn einu sinni að, hefur komið vísindamönnum jafnt sem leikmönnum meira á óvart en flest önnur mengun. Áður hafði athygli manna að mestu leyti beinzt að ýmsum verksmiðjum, sem spúa úrgangsefnum út í loftið, í ár og læki eða beint í haf út. Þetta gerðist fyrir sjónum milljóna og hefði átt að leiða til þess, að fólk hefði af því nokkrar áhyggjur, a.m.k. í iðnaðarlöndunum, og það fyrir löngu. En peningasjónarmið hafa reynzt furðu föst í sessi. Það hefur verið litið svo á, að verksmiðjur veittu atvinnu, bættu lífskjör þjóða, þess vegna yrði að færa þá fórn að umbera óþrifin frá þeim.

En að lokum var nóg komið. Iðnaður og landbúnaður hafa vaxið svo hröðum skrefum, að í hinum vestræna heimi hefur framleiðslan síðustu 20–30 árin verið meiri en öll framleiðsla sömu þjóða samanlögð frá upphafi mannsins, að því er einn ágætur ræðumaður upplýsti á áðurnefndri mengunarráðstefnu. Þetta er í raun furðuleg staðreynd, ef menn gefa sér tíma til að íhuga hana, og hve lengi getur slíku haldið fram? Nú er hvarvetna sótt að verksmiðjum og þær knúðar til að gera ráðstafanir til að draga úr varhugaverðum úrgangsefnum, en gera að öðrum kosti sérstakar ráðstafanir til að eyða þeim. Nýjar verksmiðjur verða ekki reistar, nema kannað sé, hvaða mengunarhætta stafar af þeim. Þessi gagnsókn hefur víða um lönd leitt til þess, að tekizt hefur að hreinsa ár og læki og jafnvel stöðuvötn, svo að þar hefur mannfólkið séð náttúruna rétta við, séð gamla fegurð koma í ljós á ný og hvers konar líf segja til sín eftir langa fjarveru. Hvílík gæfa, að við skulum geta komið í veg fyrir, að slík slys gerist í náttúru okkar lands og þurfum ekki að gera þær gagnráðstafanir, sem hafa reynzt svo erfiðar víða annars staðar!

Ekki er þó rétt að vera allt of bjartsýnn í þessum efnum. Sum fyrirtæki hafa ekki skilið, að það er engum meira hagsmunamál en þeim sjálfum að útrýma mengun og ná valdi á henni. Sumar verksmiðjur veita svo mikla atvinnu, auka svo framleiðslu eða tryggja þvílíkan gróða, að menn taka enn áhættu hvað mengun varðar, því miður.

Hér á Íslandi hefur mengun af hálfu iðnaðar enn ekki verið mikil og er vonandi ekki slík, að ekki verði viðráðanlegt að vinna á henni fulla bót. Jarðhitinn veldur því, að minna er um upphitun með kolum og olíu en ella, þótt það sé enn allt of mikið og allt of dýrt fyrir þá, sem við það verða að búa. Um slíkan reyk svo og útblástur frá yfir 40 þús. bifreiðum er fullyrt, að vindasamt veðurfar sjái oftast til þess, að hann fjúki fljótlega burt frá mannabyggðum. En jafnvel það er vafasöm lausn.

Fyrir hefur komið, að verksmiðjureykur eða móða frá Bretlandseyjum bærist hingað til lands, en það verður að teljast til undantekninga. Þó er full ástæða til að reisa hér á landi athugunarstöð í sambandi við evrópska áætlun, sem uppi er um rannsóknir á því, hvernig vindar beri mengað loft milli landa, þó að það snerti, að því bezt verður vitað í dag, aðra meira en okkur.

Ég færi mig örlítið upp á skaftið með því að nefna síldar- og fiskimjölsverksmiðjur, sem gefa frá sér alkunnan ilm. Það hefur löngum þótt óþjóðlegt að amast við peningalyktinni svo kölluðu hér á Íslandi, en ekki mun hún verða talin til landkosta hvað snertir erlenda ferðamenn, sem nú gerast ærið drjúg lind gjaldeyristekna.

Þá má nefna áburðarverksmiðjuna, sem hefur í mörg ár gefið frá sér eitruð köfnunarefnisoxýð, án þess að það væri gert að stórmáli. Upphaflega var ætlunin að reisa þessa verksmiðju í sjálfu Kleppsholtinu, en á seinustu stundu var þeirri staðsetningu breytt og fyrirtækið fært í Gufunes.

Sementsverksmiðja ríkisins á Akranesi hóf feril sinn með því að spúa miklu magni af sementsdufti yfir Akurnesinga, þegar vindátt var þannig. Þetta hefur verið lagað til mikilla muna með síum, en gefur þó tilefni til sífelldrar árvekni.

Og þá kemur að álverinu í Straumsvík, sem verður fjallað um nánar í ræðum manna hér í kvöld. Þegar rætt var um þá hugmynd, að Svisslendingar reistu álver hér á landi, voru sérfræðingum að sjálfsögðu ljósar allar staðreyndir um mengun frá slíku iðjuveri, og var talað um þá hlið málsins allýtarlega, að því er ég bezt veit. Ýmsir aðilar, þ. á m. leikmenn, gerðu sér ferð til Noregs og Sviss til þess að skoða slíkar verksmiðjur og sáu þar, að aldingarðar blómguðust allt upp að veggjum fyrirtækjanna. Virtist mönnum þetta merki þess, að unnt mundi vera á einn hátt eða annan að forðast skemmdir umhverfisins frá slíkum mannvirkjum. Ég mun ekki fara nánar út í álitsgerðir sérfræðinga, sem báðir aðilar höfðu til ráðuneytis í sambandi við samninga, en svo skildist mönnum, að talið væri að athuguðu máli, að vindum væri svo háttað við Straumsvík, að hvers konar mengað andrúmsloft mundi þegar berast langt í burt. Þrátt fyrir þetta voru sett þau ákvæði í samninga, að gera skyldi ráð fyrir hreinsunartækjum í álbræðslunni og þau sett í, ef ástæða reyndist vera til þess. Loks var undirbúið, hvernig það skyldi rannsakað með reglulegu millibili, hvaða áhrif verksmiðjan hefði á umhverfi sitt. Um það mun vafalaust verða deilt í kvöld, hvernig þær athuganir hafa verið framkvæmdar og hvaða ályktanir ýmsir aðilar hafa af þeim dregið. Enn hefur þó ekki verið ákvarðað, hvaða flúormagn í lofti skuli teljast hættulegt íslenzkum gróðri, en það þarf alls ekki að vera hið sama magn og gildir erlendis. Um þetta starfar nú nefnd skipuð sjö landskunnum vísindamönnum, og verður að vænta þess, að hún skili mjög fljótlega niðurstöðum. Verður því að segja, að hæstv. iðnrh. hafi í þessu máli eftir beztu getu gert þær ráðstafanir, sem við verður búizt, og hafi fullkominn hug á að finna eðlilega lausn þessara mála. Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á og segja, að þetta hefði mátt gerast fyrr. Það má segja það við þm. Alþb. ekki síður en aðra, enda eru þeir engu vitrari og engu meiri fjandmenn mengunar en aðrir alþm. Hins vegar eru þeir kunnir fjandmenn álversins, og kann það e.t.v. að hafa áhrif á áhuga þeirra á þessu máli ekki síður en mengunarhættan.

Augljóst er, að rétt er að auka rannsóknir á áhrifum álbræðslunnar á umhverfi sitt. En jafnframt verður að vænta þess, að nefnd vísindamannanna skili sem allra fyrst áliti, svo að hægt sé að ákveða það, sem við Íslendingar teljum hættumörk flúors fyrir íslenzkan gróður. Ef niðurstaðan af þessu verður, að rétt sé að setja hreinsunartæki í álverið, þá verður umsvifalaust að gera það. Þessi aðalatriði virðast vera augljós, og er ótrúlegt, að þau geti verið deiluefni, hvað sem menn kunna að segja um meðferð málsins.

Hvaða ályktanir sem hv. hlustendur draga um þetta mál, þegar líður á umr., tel ég varhugavert að láta það marka afstöðu manna til stóriðju almennt eða þátttöku erlendra aðila í henni. Alþfl. hefur hingað til haldið fram þeirri stefnu, sem t.d. hefur reynzt Verkamannaflokknum í Noregi vel, að hófleg erlend fjárfesting í vissum iðngreinum komi mjög til greina, en Alþfl. hefur ekki viljað opna hlið upp á gátt fyrir erlendu fjármagni, heldur athuga hvert mál fyrir sig og sækjast eftir því, sem að vandlega yfirveguðu máli virðist vera Íslendingum hagkvæmt. Erlent fjármagn er ekki og má ekki verða ráðandi afl í íslenzku þjóðlífi, en það væri barnaskapur og minnimáttarkennd, sem ekkert ríki í Vestur-Evrópu þjáist af, að neita sér með öllu um nokkurn innflutning á fjármagni og tæknilegri kunnáttu á sérsviðum um leið. Reynslan hlýtur að hafa fært hugsandi mönnum heim sanninn um, að þetta er rétt.

Við höfum átt í nokkrum erfiðleikum með náttúruvernd og mengun í sambandi við ný mannvirki. Þetta er ekkert einsdæmi hér á Íslandi, en hefur gerzt í flestum nágrannalöndum okkar. Af þessu eigum við að draga einn lærdóm öðrum fremur. Við verðum að íhuga umhverfissjónarmið og jafnvægi náttúrunnar svo og mengunarhættu frá öllum hliðum eins vandlega og við getum strax í upphafi, meðan verið er að hanna hin nýju mannvirki. Það er of seint í flestum tilfellum að hugsa fyrir þeim þáttum, þegar byrjað er að hella steypu í mót.

Stefna Alþfl. er fullkomin aðgát hvað snertir umhverfi, náttúru og mengun.

Stefna Alþfl. er, að Íslendingum beri framar öllu öðru að hyggja að hugsanlegri mengun sjávarins.

Stefna Alþfl. er hófleg erlend fjárfesting, mjög vandlega valin.

Þetta er skynsamleg og alíslenzk stefna, sem byggist ekki á neinum annarlegum sjónarmiðum. Formaður Alþfl. hefur undanfarið nokkrum sinnum minnzt á, að takmark lífsbaráttu þjóðarinnar eigi ekki aðeins að vera betri og betri lífskjör, heldur umfram allt betra og betra mannlíf. Grunnhyggnir andstæðingar hafa gert tilraunir til þess í blöðum að hafa þessi orð að háði og spotti og snúa út úr þeim. Samt sem áður leyfi ég mér að endurtaka þau og biðja góðviljaða menn að íhuga þau. Náttúru- og umhverfisvernd og barátta gegn mengun lofts, mengun lands, mengun fersks vatns og sjávar er fyrst og fremst barátta fyrir fegurra og betra mannlífi, ef ekki fyrir okkur sjálf, þá fyrir næstu kynslóð.

Ég þakka þeim, sem hlýddu. — Góðar stundir.