03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í D-deild Alþingistíðinda. (3732)

36. mál, úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu og uppsögn varnarsamnings

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Mér þykir leitt, að ég skuli hafa valdið réttlátri gremju í hjarta þessa ágæta þm., en þegar hann segir, að ég hafi skipt þm. í tvo flokka, unga og gamla, þá er um að ræða algeran misskilning, því að ég gerði þar engan greinarmun á. Ég komst þannig að orði, að þetta væri þing hinna rosknu, þeirra, sem væru farnir að grána.

Mér hefur lengi verið kunnugt um afstöðu þessa hv. þm. í herstöðvamálinu og varðandi aðild okkar að NATO, enda höfum við barizt í því máli hlið við hlið, meira þó utan þings heldur en innan, að vísu. En ég vil enn biðjast afsökunar á því að hafa ekki orðað þessa hluti það skýrt, að hann þyrfti ekki að reiðast. Ég tel ekki, að í ræðu minni hafi neitt það komið fram, sem hafi gefið tilefni til þess. Ég vil reyndar nota þetta tækifæri til þess að þakka þessum hv. þm. fyrir ágæta samvinnu í þessu máli. En ég vek athygli á því, að sá, sem stendur hér upp af hálfu framsóknarmanna, er hinn elzti þeirra. Og ég leyfi mér hér undir lokin að lýsa eftir skoðunum þeirra, sem yngri eru.