08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (3780)

64. mál, Útflutningsráð

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að n. sú, sem fær þessa till. til athugunar, sendi hana þeim aðilum til umsagnar, sem mál þetta snertir, og tel ég því eðlilegt, að þeir sömu aðilar fái einhverjar frekari upplýsingar um þá stefnu, sem flm. taldi, að mörkuð væri með þessari till., hver þeirra staða yrði, ef till. yrði samþ. og til útflutningsráðs stofnað. Ég á þá aðallega við tvo aðila, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og útflutningsdeild Sambands ísl. samvinnufélaga, sem um áratuga skeið hafa annazt útflutning svo til á öllum hraðfrystum fiski, sem fluttur hefur verið út frá landinu. Það er vitað, að þessir aðilar báðir hafa lagt fram mikið fjármagn til að skipuleggja sína sölustarfsemi og hafa í gegnum þetta starf öðlazt mjög mikla reynslu á undanförnum árum, og eru án efa kunnugri en nokkrir aðrir aðilar hér á landi markaðsmálum þessarar vöru. Einnig má á það benda, að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, SÍF, hefur, ef ég man rétt, um nær 40 ára skeið annazt mestallan útflutning á saltfiski, en þessar tvær útflutningsvörur eru langsamlega stærsti liðurinn í útflutningi sjávarafurða. Það er því eðlilegt, að þessir aðilar fengju einnig eitthvað um það að vita, áður en þeir veita umsögn um till., hver þeirra aðstaða yrði, ef til útflutningsráðs yrði stofnað. Ég vildi því beina því til hv. flm. till., að þeir veiti hér nú við þessa umr. eða áður en umr. lýkur frekari upplýsingar um stöðu þessara aðila en fram kemur í grg. till. eða fram kom í framsöguræðu fyrri flm. till. Hann benti réttilega á það, að hér væri um nýja stefnu í útflutningsmálum að ræða, því að þáð er vitanlegt, eins og ég hef hér drepið á, að það eru vissir aðilar, viss heildarsamtök fiskiðnaðarins, sem á undanförnum áratugum hafa annazt sölustarfsemi verulegs hluta af útflutningi sjávarafurða. Hvort það er heppilegt, ef það er hugmynd flm., að sú starfsemi, sem þessir aðilar hafa rekið að undanförnu, eigi að leggjast undir útflutningsráð og útflutningsráð eigi að taka við starfi þessara aðila, þá er það vissulega mál, sem ég tel, að þurfi að skoða mjög vandlega.

Það segir í till., að hlutverk útflutningsráðs eigi að vera að annast um útflutnings- og markaðsmál í samvinnu við utanrrn. og viðskrn. Mér er ekki alveg ljóst, hver tilgangur flm. er eða hvernig ber að skilja orðin „að annast um“ í þessu sambandi, hvort þau eigi að skilja svo, að útflutningsráð eigi að vera til aðstoðar þeim mönnum, sem hafa þessi mál með höndum, eða hvort útflutningsráð eigi að yfirtaka þá starfsemi, sem þeir hafa rekið. Ég tel, að það þurfi að koma alveg skýrt fram.

Hér fyrir þessari hv. d. liggur stjfrv. um útflutningsmiðstöð iðnaðarins. Ég tel, að þar gæti nokkurs annars, því að vitað er, að þegar til útflutnings íslenzks iðnaðar kemur, annars en fiskiðnaðar, þá verður þar um marga smærri aðila að ræða, sem hafa sennilega hvorki aðstöðu né fjárhagslega getu til þess að vinna nauðsynlegt undirbúningsstarf í sambandi við sölu íslenzks iðnvarnings á erlendum markaði. Það má því segja, að það geti verið og sé án efa eðlilegt, að þessir aðilar, þessir mörgu, smáu og dreifðu aðilar, fái þá fyrirgreiðslu, sem frv. til l. um útflutningsmiðstöð iðnaðarins gerir ráð fyrir. Hins vegar tel ég, að nokkuð öðru máli gegni um þá aðila, sem annast útflutning sjávarafurða. Þeir hafa bæði skipulagt sölustarfsemi á erlendum vettvangi og eytt til þess verulegum fjármunum. Ef um það eitt er að ræða, að till. geri ráð fyrir, að útflutningsráð verði aðeins til aðstoðar þeim aðilum, sem flytja út t.d. sjávarafurðir, þá vil ég benda á, að í 5. gr. laga um fiskimálaráð, — það var meira en að frv. væri lagt fram um fiskimálaráð á sínum tíma eða 1967, eins og flm. gat um, það var afgr. sem lög frá Alþ. — í 5. gr. segir:

„Fiskimálaráð skal hafa forgöngu um markaðsrannsóknir og skipulegar aðgerðir til öflunar nýrra markaða fyrir sjávarafurðir svo og um framleiðslu nýrra vörutegunda.“

Ef útflutningsráð á ekki beinlínis að yfirtaka útflutning sjávarafurða eða annast um hann, eins og segir í till., þá sýnist mér, að í 5. gr. laga um fiskimálaráð sé beinlínis gert ráð fyrir hinu sama, að það eigi að vera til aðstoðar þeim aðilum, sem útflutning sjávarafurða annast, í sambandi við markaðsöflun og framleiðslu nýrra vörutegunda.

Ég skal ekki á þessu stigi neitt um málið dæma. Ekki fyrr en ég fæ nánari skýringu á því, hvert sé raunverulega markmið hins fyrirhugaða útflutningsráðs og hve víðtækt vald það eigi að hafa. En ég tel nauðsynlegt, að þær upplýsingar, sem ég hef hér beðið um, komi fram, áður en þeir aðilar, sem málið varðar og; ég geri fyrir, áð fái till. til umsagnar, veita sína umsögn.