08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (3783)

64. mál, Útflutningsráð

Flm. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég hygg, að það sé nokkuð greinilegt, að það, sem greinir á í skoðunum okkar flm. þessa máls og hv. 3. þm. Sunnl., sé það, að hann er fylgjandi þeirri stefnu í þessum málum, að hver útflutningsgrein fyrir sig hafi sérstaka stofnun, sem m.a. fjallar sérstaklega um, eins og segir í lögum um fiskimálaráð, „markaðsrannsóknir og skipulagðar aðgerðir til öflunar nýrra markaða fyrir sjávarafurðir“, þ.e. að sjávarútvegurinn hafi sérstaka stofnun fyrir sig, sem fjallar um þessi málefni. Svo komi iðnaðurinn með sérstaka stofnun, sem fjallar einnig um þessi málefni, og svo komi e.t.v. landbúnaðurinn með enn eina stofnunina, sem fjallar um þessi sömu málefni. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því, að þarna er um að ræða mismunandi framleiðslu og mismunandi vörur. En það, sem við viljum leggja áherzlu á með þessari þáltill., er það, að gerðar verði skipulagðar og samræmdar aðgerðir á þann hátt að setja þessa starfsemi undir eina stofnun, sem sé fyrirgreiðslustofnun og aðstoði útflutningsatvinnuvegina í sambandi við útflutningsmálin og hafi með höndum markaðsrannsóknir og ýmsa aðra starfsemi, sem má verða til þess að styðja og efla útflutningsstarfsemina og útflutningsatvinnuvegina í heild. Það verður að athuga það, að þessi till. er um það að fela ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. til l. um útflutningsráð. Auðvitað koma þá til athugunar öll lagaákvæði, sem snerta þessi málefni, og þar á meðal það, hvort skynsamlegra sé að hafa þetta undir einum hatti eins og Norðmenn hafa gert hjá sér með góðum árangri og fleiri þjóðir eða að greina þetta niður í smærri einingar, sem við óttumst að mundu verða veikari og ekki ná sama árangri og einn aðili, sem hér er gert ráð fyrir. En ég legg áherzlu á það, að þetta er ekki stofnun, sem er ætlað að taka að sér í raun og veru útflutningsstarfsemina sjálfa. Þetta er ekki þjóðnýting, ef svo mætti segja, á útflutningsstarfsemi, heldur er þetta fyrirgreiðsla, aðstoð, sem felst í því að styrkja og efla útflutningsatvinnuvegina og útflutningsfyrirtækin og ýmiss konar félagasambönd, sem atvinnuvegirnir hafa stofnað með sér.