29.01.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í D-deild Alþingistíðinda. (3846)

89. mál, einkaréttur ríkisins til lyfsölu

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þegar hæstv. heilbrmrh. hefur tíma til, þá þætti mér vænt um, að hann yrði viðstaddur umræður. Ég verð með stutta ræðu, en mig langaði að beina til hæstv. ráðh. spurningu í lokin, ef ég er ekki að trufla hann allt of mikið.

Ég flyt hér á þskj. 93 till. til þál. ásamt fjórum öðrum hv. alþm., og er till. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta endurskoða lyfsölulög, nr. 30 frá 29. apríl 1963. Skal endurskoðunin við það miðuð, að ríkið fái einkarétt til lyfsölu og komi á laggirnar sérstakri stofnun til að annast það verkefni. Tilgangur hinnar nýju skipunar skal vera sá að tengja lyfsöluna á sem hagkvæmastan hátt heildarskipulagi heilbrigðismála, tryggja sem lægst lyfjaverð og stuðla að aukinni lyfjaframleiðslu innanlands.“

Eins og kunnugt er, eru lyf mjög veigamikill þáttur í heilbrigðisþjónustu. Lyflækningar eru mjög verulegur þáttur í sjúkdómsmeðferð, og kostnaður við lyf er einn helzti útgjaldaliður sjúkrasamlaga. Því verður að telja lyf mjög algenga nauðsynjavöru í almennum skilningi. Hins vegar eru lyf ekki markaðsvara á sama hátt og annar varningur, sem hafður er á boðstólum í neyzluþjóðfélögum. Sala þeirra hlítir ekki almennum reglum um framboð og eftirspurn og samkeppni. Yfirleitt eru það læknar, sem mæla fyrir um það, hvaða lyf menn kaupa og hvernig þeir nota þau. Því eru lyfin í eðli sínu þáttur í heilbrigðisþjónustu og heilsugæzlu á sama hátt og hverjar aðrar ráðstafanir til að berjast gegn sjúkdómum.

Svo sem kunnugt er, er heilbrigðisþjónusta hérlendis skipulögð á félagslegum grundvelli, og við teljum það mjög verulegan kost við þjóðfélagskerfi okkar. Sjúkrahúsin eru yfirleitt stofnuð og starfrækt á félagslegum forsendum. Við höfum almennt sjúkrasamlagskerfi, sem á að tryggja almenna samhjálp í þágu þeirra, sem veikjast. Læknar okkar eru yfirleitt starfsmenn sjúkrahúsa og sjúkrasamlaga. Við teljum okkur hafa haft mjög góða reynslu af þessu kerfi á undanförnum áratugum, ekki sízt ef við berum okkur saman við önnur þjóðfélög, þar sem annar háttur er á hafður. Ég hygg, að flestir hv. þm. viti t.d. dæmi þess, að Íslendingar, ekki sízt íslenzkar konur, sem hafa setzt að í Bandaríkjunum, koma oft hingað heim til þess að fá meðferð á sjúkrahúsum eða jafnvel til þess að ala börn sín, vegna þess að það er svo dýrt að njóta slíkrar þjónustu í Bandaríkjunum, vegna þess að þar er hún rekin á forsendum gróðaviðskipta. Þess vegna held ég, að það sé mjög almenn skoðun hér á Íslandi, að menn vilji halda áfram þessu félagslega kerfi og efla það. En í þessu kerfi eru ýmsar veilur, og ein veilan er sú, að lyfsalan er ekki í samræmi við þessa félagslegu stefnu. Apótek eru ekki þáttur af hinu almenna heilsugæzlukerfi, heldur eru þau rekin af einstaklingum í gróðaskyni. En samt eru lyfjaverzlanir engar venjulegar sölubúðir. Verðlag á lyfjum er ekki ákveðið á venjulegan hátt, heldur fjallar um það fimm manna nefnd, og síðan gefur ráðh. út svo kallaða lyfjaverðskrá. Laun starfsmanna í lyfjabúðum eru ekki ákveðin með venjulegum samningum milli launamanna og atvinnurekenda, heldur sker gerðardómur úr um allan ágreining. Engar lyfjabúðir má stofna án ráðherraleyfis og samkv. formlegum forsetaúrskurði. Forstöðumenn lyfjabúða keppa ekki um aðstöðu sína samkv. venjulegum lögmálum í kapítalísku þjóðfélagi. heldur velur ráðh. úr hópi þeirra, sem sækja um að vera forstöðumenn. Lyfsölum er óheimilt að beita þeirri aðalaðferð svo kallaðrar frjálsrar verzlunar að auglýsa vörur sínar. Öll er þessi skipan eins og um væri að ræða opinber fyrirtæki, þar sem opinberir starfsmenn eru að störfum. Munurinn er sá einn, að forstöðumenn lyfjabúða fá ekki laun samkv. ákvæðum um kjör opinberra starfsmanna, þeir hafa einokun með ráðherraleyfi til þess að reka lyfjabúðir í gróðaskyni fyrir sig persónulega.

Þetta er að minni hyggju algerlega fráleit skipan, og gallar þessa skipulags eru ákaflega margir. Það er almennt séð ákaflega óeðlilegt og hlýtur einnig að vera það frá sjónarmiði þeirra manna, sem aðhyllast frjálsa verzlun, að ráðherrar úthluti sjálfvirkri gróðaaðstöðu með einokunarfyrirkomulagi á þann hátt, sem ég hef verið að lýsa. Og ég hygg, að það séu æði margir Íslendingar, sem eru þeirrar skoðunar, að það sé einnig af siðferðilegum ástæðum óeðlilegt að hafa sjúkdóma og vanheilsu manna að gróðalind. Það er einnig óeðlilegt af hagkvæmnisástæðum að skilja lyfsöluna frá hinu almenna félagslega kerfi í heilbrigðismálum. Það veltur mikið á, að það kerfi sé sem heilsteyptast, og lyfjanotkun er, eins og ég sagði áðan, sívaxandi þáttur í lækningum, og notkun þeirra verður sífellt margbreytilegri og flóknari. Þess vegna er ákaflega mikilvægt, að þarna haldist í hendur hið almenna heilsugæzlukerfi og lyfsalan. Einnig er sá háttur, sem hér er nú á hafður með margar lyfjabúðir, þar sem einn kóngur ber ábyrgð á hverri fyrir sig, ákaflega óhagkvæmur. Þetta hefur í för með sér mjög dýra dreifingu, og þarna er ekki um að ræða þá eðlilegu samvinnu, sem ætti að geta verið á milli aðila, sem starfa á sama vettvangi. Sú tilhögun, sem hér er, ýtir ekki heldur undir aukna lyfjaframleiðslu í landinu sjálfu, heldur torveldar hún hana. Samt er lyfjaframleiðsla ákaflega mikilvæg og gæti verið miklu meiri hér á landi en hún er nú. Á sviði lyfjaframleiðslu starfa, eins og kunnugt er, harðsnúnir einokunarhringar á alþjóðlegum vettvangi og halda uppi verðlagi, og því kappkostar hver þjóð að hafa framleiðslu á ýmsum grundvallarlyfjum til þess að brjóta skörð í þessa einokun og vernda hagsmuni sína.

Sá gróði af lyfsölu, sem nú rennur til einstaklinga, gæti þá stuðlað að lækkuðu lyfjaverði. Ég vil einnig minna á það í þessu sambandi, að aðaltekjur lyfjaverzlana koma úr félagslegum sjóðum. Þeim er ávísað frá sjúkrasamlögunum, og það er ekki nema eðlilegt, að þá vilji hinn félagslegi aðili, þá vilji þjóðfélagið sjálft hafa með höndum stjórn þessara mála. Ég ætla, eins og ég sagði í upphafi, ekki að flytja um þetta langt mál. Ég veit, að það eru margir þm., sem hafa fullan hug á því að koma málum sínum til n. og það hefur dregizt æði lengi, að slíkt gerðist. En ég vil minna á það í lokin, að hér er ekki um að ræða vandamál okkar Íslendinga einna. T.d. hafa Svíar verið að rannsaka þessi mál um alllangt skeið að undanförnu, og árið 1969 skilaði nefnd, sem um þetta hafði fjallað, mjög umfangsmikilli skýrslu um skipan lyfjamála í Svíþjóð. Ég er með hana hérna, þetta er mikið verk og ákaflega fróðlegt, ekki aðeins um aðstöðu þessara mála í Svíþjóð, heldur yfirleitt. En það fróðlega í sambandi við þessa athugun er það, að það fékkst allsherjarniðurstaða, það fékkst allsherjarsamkomulag á milli ríkisins og apótekara í Svíþjóð um, að lögð yrði niður verzlun einkaaðila á þessu sviði og lyfsalan öll yrði félagsleg. Samkomulagið er þannig, að það verður stofnað sérstakt hlutafélag, sem ríkið á að 2/3 hlutum, en lyfsalarnir að 1/3 hluta. Og þetta fyrirtæki fær einkarétt á allri lyfsölu í Svíþjóð. Þetta fyrirtæki tekur einnig að sér að nokkru leyti innflutning á lyfjum og framleiðslu á lyfjum. En einkaaðilar verða þar einnig að verki til þess að tryggja samkeppni. En ástæðan til þess, að þarna næst samkomulag, þetta verður ekki pólitískt deilumál, er sú, að röksemdirnar fyrir þessu eru svo sterkar, að menn féllust á þær, einnig lyfsalarnir, þrátt fyrir gróðahagsmuni sína. Og þessi nýja skipan, sem ég hef verið að lýsa, kom til framkvæmda nú um síðustu áramót. Þá yfirtók þetta hlutafélag, sem ríkið á að meiri hluta til, allar lyfjabúðir í Svíþjóð og allt það kerfi, sem ég var að lýsa. Síðan eru samningsákvæðin um það, að menn fá að sjálfsögðu greiðslur fyrir eignir sínar, og enn fremur er lyfsölum, sem þess óska, tryggð atvinna áfram við lyfsöluna.

En ástæðan til þess, að ég bað hæstv. heilbrmrh. að hinkra örlítið við hér áðan, er sú, að frá því að þessi till. var flutt hér í fyrra hafa þau tíðindi gerzt, að heilbrigðismálin hafa verið flutt frá Sjálfstfl. til Alþfl. Ég hef fulla ástæðu til þess að ætla, að Alþfl. hafi mun meiri skilning á þessu máli heldur en Sjálfstfl., og mig langaði til að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort svo væri ekki. Hér áðan voru menn að deila um það, hvernig ætti að haga endurskoðun á tilteknu sviði, hvort það ætti að vera þingkjörin nefnd, sem þar ynni að, eða hvort hæstv. ráðh. gætu skipað nefndir í þessum tilgangi. Ég vil taka það mjög skýrt fram, að mér er það engan veginn fast í hendi, að Alþ. taki þá ákvörðun, sem lögð er til með till. minni, ef hæstv. trmrh. vill framkvæma þessa athugun á sínum eigin vegum. Hann hefur fullt vald til þess, og ég teldi það ákaflega eðlilegt, að ráðh., sem telur sig aðhyllast sósíaldemókratísk viðhorf, noti þá nýju aðstöðu, sem flokkur hans og hann sjálfur hefur fengið í ríkisstj., til þess að sinna einmitt þessu verkefni.

Ég vil svo leggja til, herra forseti, að till. verði á sínum tíma vísað til hv. allshn.