09.02.1971
Sameinað þing: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í D-deild Alþingistíðinda. (3899)

118. mál, hagnýting fiskimiðanna umhverfis landið

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég held, að þm. hljóti almennt að vera sammála um það, að að því beri að stefna, að veiðisvæðin víðs vegar kringum land verði nýtt á sem hagkvæmastan hátt fyrir landsmenn alla, eins og fram kom í framsöguræðu hv. 1. flm. Hitt hygg ég, að sé rétt, sem einnig kemur fram í grg., að það eru ýmsir augljósir vankantar á því að koma við ákveðnum reglum um nýtingu veiðisvæðanna. Það er margt, sem þar kemur til greina, sem þeir þekkja, sem útgerð stunda, og sjómenn eða skipstjórnarmenn eru að sjálfsögðu manna kunnugastir. Það, sem ég er nú að fiska eftir hjá flm. frv., er það, hvernig þeir hugsa sér skiptingu veiðisvæðanna eða nýtingu veiðisvæðanna eftir ákveðnum reglum. Ég vil t.d. benda á það, að hér á suður- og suðvestursvæðinu mundu mjög margir óska eftir því að geta stundað línuveiðar á vissum tíma framan af vertíð eins og uppistaðan var hér áður fyrr í veiðunum á þessu svæði. Á þessu eru vankantar, sem hvorki útgerðarmenn né sjómenn ráða við. Þeir, sem áður stunduðu þessar veiðar og voru þá kallaðir landmenn eða beitumenn, eru því miður alveg að hverfa úr sjómannastéttinni. Þetta er staðreynd, sem við höfum horfzt í augu við á undanförnum árum. Þó að ýmsir útgerðarmenn vildu setja sína báta á línuveiðar á þessu svæði, þá hefur það ekki verið hægt, vegna þess að menn hafa ekki fengizt til þessara veiða og þá sérstaklega ekki þeir, sem í landi þurfa að vinna að undirbúningi þessara veiða. Þetta er eitt atriði, sem kemur til með að valda nokkrum örðugleikum í sambandi við beina skipulagningu veiðisvæðanna, og kemur þar einnig fleira til. Sumum skipstjórum hentar vel þetta veiðarfæri, svo að þeir geta skarað fram úr með þetta veiðarfæri í aflabrögðum, en eiga aftur ekki eins hægt með að veiða í önnur veiðarfæri, þannig að það eru margir mjög augljósir vankantar á þeirri skipulagningu, sem þarna er stefnt að með flutningi þessarar þáltill., eins og reyndar kemur fram í grg., að flm. gera sér ljóst. En mig langar að fá nánari skýringar á því hjá flm. till., hvernig þeir hugsa sér þær reglur í stórum dráttum, sem þeir ætlast til, að settar verði um heildarveiðarnar.